Í brúnni Friðleifur Einarsson, skipstjóri.
Í brúnni Friðleifur Einarsson, skipstjóri. — Morgunblaðið/Eggert
„Veiðiferðin gekk bara ágætlega og það eru glæsilegar fréttir að þetta skuli virka orðið svona vel, það vantar ekkert upp á það,“ sagði Friðleifur Einarsson, skipstjóri á Engey RE, í símtali skömmu áður en skipið kom inn til Reykjavíkur í...

„Veiðiferðin gekk bara ágætlega og það eru glæsilegar fréttir að þetta skuli virka orðið svona vel, það vantar ekkert upp á það,“ sagði Friðleifur Einarsson, skipstjóri á Engey RE, í símtali skömmu áður en skipið kom inn til Reykjavíkur í hádeginu í gær eftir sex daga veiðiferð.

„Auðvitað komu einhverjir hnökrar upp, en því var kippt í liðinn svo við gátum haldið áfram að veiða. Við ættum að vera klárir í slaginn með þennan nýja búnað og förum aftur út á föstudagskvöld.“

Fimmtán manns eru í áhöfn Engeyjar og voru þeir áður með Friðleifi á Ásbirni RE. Það skip var smíðað árið 1978 og vantar því eitt ár í fertugt, en var í sumar selt til íransks útgerðarfélags fyrir tæpar 50 milljónir króna. Fleiri voru þó um borð því fimm tæknimenn og sérfræðingar í ýmsum búnaði voru einnig með í veiðiferðinni. Í tveimur prufutúrum fyrr í sumar voru 23 manns um borð.

„Það munar miklu fyrir áhöfnina að þurfa ekki að færa kassa og ísa fiskinn handvirkt, tvennt ólíkt frá því sem var áður,“ segir Friðleifur. „Ég sé alveg fyrir mér að þessi búnaður verði kominn í skip víða um lönd á næstu árum.“

Aflinn í veiðiferðinni var 140-150 tonn og byrjuðu Friðleifur og hans menn túrinn suðvestur af Reykjanesi og síðan var haldið á Vestfjarðamið. Karfi var uppistaðan í aflanum, en einnig fengust um 40 tonn af þorski.