Lárus Sigurgeirsson fæddist 22. október 1923. Hann andaðist 1. ágúst 2017. Útför Lárusar fór fram 17. ágúst 2017.

Lalli frændi er allur. Í minningunni er hann yfirvegaður og vandvirkur maður sem sinnti fjölskyldu sinni af alúð. Hann átti góða konu, Lilju, sem kvaddi fyrir nokkru. Þau bættu svo sannarlega hvort annað upp og voru okkur nágrönnum í Safamýri sem fjársjóður einn.

Móðir mín sagði mér frá axarsköftum Lalla og ýmsum uppátækjum hans sem unglings. Hann var mikill húmoristi en það þurfti aðeins að þekkja karlinn til að grípa hnyttnina. Eitt það merkilegasta í minningunni er að Lalli átti það til að labba í svefni. En ekki bara það; hann hjólaði í svefni. Þá var læsingu útihurðar á Fálkagötunni breytt.

Það mátti svo sannarlega reiða sig á Lalla. Hann var í raun eins og margir Íslendingar sjá fyrir sér hinn sanna Þjóðverja. Hann sinnti sínum Volvo vel, alltaf var hann hreinn og vel bónaður. Hann kom aldrei of seint og hann var nákvæmur og í senn sanngjarn. Vandvirknin kom svo sannarlega fram í handverki hans, en húsgagnasmiður var hann góður og mörg meistarastykki má finna eftir hann.

Hann kvaddi okkur á háum aldri án þess að stíga svo mikið sem eitt skref inn í líkamsræktarsal. Hann þurfti í vinnu sinni heldur ekki að fá dæluna til að ganga. Hann var einfaldlega vel gerður maður í jafnvægi. Þetta er gott að vita í auglýsingaflóðinu fram undan um bættan lífsstíl og áreynslu í tækjasölum fyrir harðar íslenskar krónur.

Það reyndi samt á karlinn einu sinni á ári í nokkur ár, löngu fyrir 2007. Það var þegar Landsbankabankastjórar sóttu laxveiðar í Laxá í Aðaldal. Hann naut þess að vera með í þeim veiðitúrum en hann vissi mætavel hvað væri í vændum hverju sinni. Lalli var þar nefnilega í mikilvægasta og ábyrgðarmesta hlutverkinu. Það fólst í því að halda sumum á lífi frá Ártúnsbrekkunni í Reykjavík, norður yfir heiðar og til baka aftur í bókstaflegri merkingu. Hann sinnti starfi sínu vel og var ætíð lofaður fyrir afrek sín á þeim vígvelli af þeim sem ekki áttu í hlut. Það staðfesti faðir minn sem var við veiðar á þeim tímum í ánni.

Á seinni árum heimsótti ég Lalla á Hrafnistu. Oftar þegar faðir minn dvaldist þar. Lalli stóð sína vakt í bridsinu og gekk að og frá borði teinréttur og án hjálpartækja með sínum takti. Hann las dagblöð gleraugnalaus til dauðadags. Ég gerði mér það að venju að heimsækja Lalla frænda á gamlársdag undir það síðasta og drekka með honum og Gunnari syni hans þýskan bjór sem ég og nokkrir kollegar flytjum inn til landsins fyrir jól. Það glitti alltaf í bros hjá frænda á þeirri stund.

Ég, konan mín, Arite, og afkomendur kveðjum Lalla frænda og vottum aðstandendum samúð okkar.

Hafsteinn Helgason,

verkfræðingur.