Bóndinn John Johnson við minnisvarða í bæjarstæði Stephans G. Stephanssonar, en jörð hans erjað John um margra áratugaskeið.
Bóndinn John Johnson við minnisvarða í bæjarstæði Stephans G. Stephanssonar, en jörð hans erjað John um margra áratugaskeið. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Fjöldi Íslendinga kemur á hverju ári í Íslendingabyggðirnar í Rauðárdal við Mountain í Dakota. Margir staldra þá við í Görðum þar sem bær Stephans G. Stephanssonar stóð.

Fjöldi Íslendinga kemur á hverju ári í Íslendingabyggðirnar í Rauðárdal við Mountain í Dakota. Margir staldra þá við í Görðum þar sem bær Stephans G. Stephanssonar stóð. Fyrir nokkrum árum var skáldinu reistur þar minnisvarði í brekku upp af kornökrum, sem iða af engisprettusöng. Þar skammt frá býr John Johnson sem tók á móti íslenska hópnum sem blaðamaður Morgunblaðsins var með.

Nam íslenskuna ungur

„Það er gaman að hitta Íslendinga,“ segir John sem situr jörðina sem forðum var numin af Stephani G. frænda hans, en þeir John eru tengdir í fjórða lið. Reyndar getur John rakið sig saman við skáldið á fleiri vegu, rétt eins og venjan er með Íslendinga. John er þokkalega mæltur á íslensku og í færum til að halda uppi einföldum samræðum, enda nam hann málið sem unglingur. „Nei, ég hef ekki náð að lesa eða skilja ljóð frænda míns, né lesa íslenskuna nema vita áður hvert efnið er.

En ættartengslin þekki ég ágætlega og hef alltaf haldið í tengslin við afkomendur Stephans í Alberta-fylki í Kanada,“ segir John, sem lengi var mektarbóndi í Görðum og aukinheldur flugmaður, enda var flugvélin það tæki sem dugði best þegar úða skyldi akra.

Frumherjabyggð

Fyrra bindi ævisögu Stephans G. Stephansonar er Landneminn mikli og þar kallar höfundurinn, Viðar Hreinsson, slóðir Íslendinga í Norður-Dakota „frumherjabyggð“. Þar rekur hann byggðasöguna á svæðinu og þar „sem áður voru indíánatjöld og vísundar risu nú litlir bjálkabæir á ferhyrndum reitum, fullir af Íslendingum“, segir Viðar í bókinni. Höfundurinn telur að löngun til að takast á við nýjar áskoranir og einnig samfélagslegar og persónubundnar aðstæður hafi ráðið því að Stephan flutti sig til Alberta-fylkis í Kanada. Var það þriðji staðurinn vestra þar sem hann nam land og af því er titillinn á bók Viðars sprottinn.