Nú lækkar sól á lofti, haustið er handan við hornið og rútínan sem við skildum við í sumar að koma aftur.

Nú lækkar sól á lofti, haustið er handan við hornið og rútínan sem við skildum við í sumar að koma aftur. Ekkert nýtt undir sólinni þar; sum okkar taka rútínunni fagnandi, sum okkar fyllast kvíða fyrir dimmum vetri, sum okkar kaupa kerti og geta ekki beðið eftir myrkrinu. Ef þú kvíðir vetrinum mæli ég með að þú gerir eitt: kaupir þér miða á tónleika. Að fara á tónleika er heilun. Það er fátt betra en að ganga inn í herbergi fullt af fólki sem þú þekkir ekki neitt, setjast niður og hlusta á hæfileikaríkt fólk leika af fingrum fram og þótt salurinn sé fullur af fólki sem þú þekkir ekki sameinist þið í þeim gjörningi að vera komin til þess að hlýða og njóta. Heilunin fer svo á annað stig ef þú nærð að brjótast úr skelinni með því að stíga nokkur spor í takt við tónlistina sem flutt er. Margir eiga erfitt með það, halda að allir muni horfa á sig, en það er mín skoðun að fátt sé fallegra en fólk sem getur ekki hamið sig og lætur ánægju sína í ljós með léttum dansi á tónleikum. Einlægur dans er fallegur dans.

Ég skora því á þig, lesandi góður, að fagna komu haustsins og myrkursins með því að finna ljósið á einhverjum af þeim hundruðum tónleika sem haldnir eru hér á landi í mánuði hverjum. Farðu á netið strax í dag og keyptu þér miða!

siggi@mbl.is