Brúarskóli Mörg börn eru á biðlista.
Brúarskóli Mörg börn eru á biðlista. — Ljósmynd/Brúarskóli
Axel Helgi Ívarsson axel@mbl.

Axel Helgi Ívarsson

axel@mbl.is

Staðan í sveitarfélögum utan Reykjavíkurborgar um pláss fyrir nemendur sem eru með hegðunar-, geðræna- eða félagslega erfiðleika í sérskólum eða sérdeildum innan grunnskóla er misjöfn, segir Sædís Ósk Harðardóttir, formaður Félags sérkennara, í samtali við Morgunblaðið. Blikur eru víðs vegar á lofti að hennar sögn.

Hún segir þann hóp nemenda sem er með tilfinninga- og hegðunarörðugleika fara vaxandi í skólakerfinu. Morgunblaðið greindi frá því fyrir rúmri viku að 25 börn væru á biðlista við inngöngu í úrræði Brúarskóla í Vesturhlíð. Eru það jafnmargir nemendur og skólinn hefur pláss fyrir.

Brúarskóli er sérskóli á vegum Reykjavíkurborgar sem sinnir grunnskólabörnum sem eiga við alvarlega geðræna-, hegðunar- eða félagslega erfiðleika að stríða. Skólinn þjónustar einnig sveitarfélög í nágrenni Reykjavíkurborgar.

Þörf hefur aukist um allt land

Spurð hvort eftirspurn fyrir sérkennslu fyrir börn með hegðunar- og geðræna erfiðleika hafi aukist á síðustu árum segir Sædís að eftirspurnin hafi aukist gríðarlega um allt land. „Við fáum margar beiðnir til okkar um ráðgjöf eða þjónustu fyrir börn með tilfinninga- og hegðunarörðugleika.“

Margt sem veldur fjölgun

Sædís segir að margir þættir orsaki fjölgun nemenda með hegðunar- og geðræn vandamál, spurð hverja hún telji orsökina vera. Einn þáttur sé að fólk sé tilbúnara en áður að viðurkenna vanda sem þessa. Þá séu kröfur sem börn finni fyrir í samfélaginu í kringum sig og innkoma samfélagsmiðla aðrir mögulegir áhrifavaldar.

Fleiri úrræði þyrftu að vera til staðar fyrir börn sem glíma við t.d. hegðunar- og geðræna erfiðleika.

Meira fjármagn þarf til að fjölga úrræðum og gera þau fjölbreyttari. Þá er að sama skapi þörf á fleiri faglærðum einstaklingum í skólakerfið innan þessa málaflokks. „Skólarnir gera eins mikið og mögulegt er, t.d. varðandi skólaþjónustu og sálfræðiráðgjöf, en það dugar ekki til. Við þurfum að geta veitt miklu meiri þjónustu,“ segir Sædís.

Ástandið er varhugavert

Kerfið er sprungið að sögn Sædísar og ef ekkert verður gert í málinu lítur framtíðin illa út. „Sem dæmi er mikil fjölgun ungra karlmanna á örorkubótum, það er bara afleiðing af þessu. Það þarf að grípa miklu fyrr inn í geðræna-, hegðunar- og félagslega erfiðleika ungs fólks. Ef það á að snúa þessu við þarf mikla innspýtingu á fjármagni inn í þetta kerfi. Það er gríðarlega mikilvægt.“