Skóli Hjálparstarf kirkjunnar veitir styrki til kaupa á skólavörum.
Skóli Hjálparstarf kirkjunnar veitir styrki til kaupa á skólavörum. — Morgunblaðið/ÞÖK
„Félagsráðgjafar okkar tóku á móti 70 fjölskyldum strax á mánudaginn, það er um 110-120 börn. Við búumst við að það verði ekki færri fjölskyldur sem leiti til okkar í ár en í fyrra.

„Félagsráðgjafar okkar tóku á móti 70 fjölskyldum strax á mánudaginn, það er um 110-120 börn. Við búumst við að það verði ekki færri fjölskyldur sem leiti til okkar í ár en í fyrra. Þá voru þetta um 200 börn í skólabyrjun, 53 börn sem fengu stuðning vegna íþrótta og tómstunda og 51 ungmenni sem fékk styrk sem nam um 33 þúsund krónum að meðaltali,“ segir Kristín Ólafsdóttir, fræðslufulltrúi Hjálparstarfs kirkjunnar.

Skólar eru settir í þessari viku og Hjálparstarf kirkjunnar aðstoðar þá sem eiga erfitt með að láta enda ná saman undir yfirskriftinni Ekkert barn útundan!

„Söfnunin hefur gengið ágætlega. Við stefnum að því að safna alla vega tveimur milljónum króna og erum komin yfir milljón núna. Meðaltalið hjá okkur er 7-10 þúsund krónur í styrk á hvert barn í skólabyrjun.“

Hjálparstarfið býður ekki einungis upp á fjárstuðning heldur getur fólk einnig sótt sér notaðan fatnað og skólatöskur þangað. „Það hefur mælst vel fyrir. Við erum búin að fá skólatöskur hingað en það væri gott að fá fleiri. Þetta þurfa að vera vel með farnar töskur, eitthvað sem fólk myndi nota sjálft.“

Kristín segir að skólabyrjun geti reynst sumum fjölskyldum erfið.

„Á haustin og fyrir jólin leitar til okkar fólk sem leitar annars ekki til okkar, það bætist fólk í hópinn á þeim tíma. Það telur allt í þessum skólainnkaupum. Ég fór sjálf með yfir 10 þúsund þegar ég keypti fyrir stelpuna mína. Þá er kannski eftir að kaupa skó, stígvél og úlpu. Svo eru það námskeiðin og íþróttirnar. Þetta er bara stór biti fyrir fólk.“

Upplýsingar um hvernig hægt er að styðja við söfnunina má finna á heimasíðunni, help.is.

hdm@mbl.is