Rokkað hart Sigurður lifir sig inn í sönginn á tónleikum á Hard Rock þann 1. júní. Enn er hægt að tryggja sér miða á útgáfutónleikana á Karolina Fund sem haldnir verða á Hard Rock þann 29. september næstkomandi. Einnig er hægt að fá „deluxe“ pakka sem býður upp á einkatónleika með Mosa frænda.
Rokkað hart Sigurður lifir sig inn í sönginn á tónleikum á Hard Rock þann 1. júní. Enn er hægt að tryggja sér miða á útgáfutónleikana á Karolina Fund sem haldnir verða á Hard Rock þann 29. september næstkomandi. Einnig er hægt að fá „deluxe“ pakka sem býður upp á einkatónleika með Mosa frænda.
Þorgerður Anna Gunnarsdóttir thorgerdur@mbl.is „Upp á síðkastið hefur orðið til meira af frumsömdu efni hjá okkur og við fórum að hugsa að það væri kannski bara tímabært að skella í eina plötu,“ segir Sigurður H.

Þorgerður Anna Gunnarsdóttir

thorgerdur@mbl.is

„Upp á síðkastið hefur orðið til meira af frumsömdu efni hjá okkur og við fórum að hugsa að það væri kannski bara tímabært að skella í eina plötu,“ segir Sigurður H. Pálsson, meðlimur hljómsveitarinnar Mosa frænda sem ætlar að gefa út fyrstu breiðskífu sína í september, 32 árum eftir stofnun sveitarinnar.

„Við erum allir orðnir svona nett miðaldra, stofnuðum hljómsveitina þegar við vorum rétt 16 ára í menntaskóla,“ segir Sigurður. Mosa frænda stofnuðu þeir árið 1985 þegar þeir voru við nám í Menntaskólanum við Hamrahlíð, en aðrir meðlimir sveitarinnar eru þeir Aðalbjörn Þórólfsson, Ármann Halldórsson, Björn Gunnlaugsson, Gunnar Ólafur Hansson og Magnús J. Guðmundsson.

„Við áttum augnablik þarna og frægð sem náði hámarki 1988 þegar við komum laginu „Katla kalda“ ofarlega á lista og það var mikið spilað. Lagið „Ástin sigrar“ var hinum megin á smáskífunni og það var nú ekkert síðra lag,“ segir Sigurður, en hljómsveitin hafi svo lognast út af þegar áherslurnar urðu aðrar hjá meðlimum og allir að fara í háskóla.

„Við blésum svo lífi í þetta aftur eftir aldamótin. Áhuginn var enn til staðar og við byrjuðum á að rifja aðeins upp en fórum svo að semja og semja og höfum verið að æfa reglulega. Svo var þetta komið á það mikið skrið og við vorum komnir með mikið af frumsömdu efni, en áður vorum við mikið í að gera skrýtin tökulög. Við tókum eitt og annað sem okkur datt í hug og snerum upp á það á ýmsa vegu. Öll lögin á plötunni eru áður óútgefin fyrir utan tvö tökulög sem við gerðum af lögum úr Rokki í Reykjavík .“

Frekar farið fram með aldrinum

Mosi frændi féll ekki í kramið hjá öllum á sínum tíma og í tilkynningu segir meðal annars að tónlistarspekúlantar hafi talað um menntaskólahúmor á fyrsta stigi rotnunar. „Við getum sagt að það hafi verið deildar meiningar og eru það eflaust enn. Það má kannski deila um hversu miklir yfirburðir í hljóðfæraleik eru í hljómsveitinni. Ég held það sé í það minnsta óhætt að segja að með aldrinum hefur okkur frekar farið fram heldur en hitt, við höfum stundum haft á orði að við höfum aldrei verið skárri. Það er þó eitthvað,“ segir Sigurður og hlær.

Í tilkynningu segir einnig að Mosi frændi sé að reyna við heimsmet, því að ekki sé vitað til þess að hljómsveit hafi gefið út fyrstu plötu svo löngu eftir stofnun. „Okkur datt þetta í hug og höfum lagst í rannsóknarvinnu. Það hefur engum tekist enn að finna dæmi um svona langan tíma, þar sem hljómsveitin er enn starfandi. Það hafa fundist dæmi um útgáfu löngu eftir að hljómsveitin líður undir lok og lifnar ekki við aftur, þannig að þangað til annað kemur í ljós reiknum við með því að þetta sé heimsmet.“

-En hvers konar tónlist spilar Mosi frændi?

„Við förum svolítið um víðan völl. Útgangspunkturinn er eiginlega að gera það sem okkur dettur í hug, við látum hugmyndaflugið ráða ferðinni. Við erum á þeim aldri að það er kannski einhver síðpönksgrunnur í okkur sem annað kemur kannski svolítið í framhaldi af en í rauninni reynum við að leika okkur sem mest með stíla og stefnur.“

Nýja platan inniheldur 11 lög og eru þau samin alveg frá 1988 og fram til 2016. „Það eru tvö lög þarna frá '88 sem við spiluðum á Músíktilraunum. Svo eru sum bara nýsamin og við erum enn að. Það eru komin tvö eða þrjú lög síðan við tókum þetta upp, sem lenda bara á næstu plötu,“ segir Sigurður.

Hægt að fá einkatónleika

Hljómsveitin hefur efnt til hópsöfnunar á Karolina Fund sem fór af stað 1. ágúst. Þegar greinin er skrifuð hefur sveitin þegar náð markmiði sínu. „Söfnunin fór vel af stað en það er full ástæða til að minna á hana. Þetta er í rauninni bara það sem vantar, upptökum er lokið og hljóðblöndun er að mestu leyti búin þannig að þetta er aðallega fyrir sjálfri útgáfunni. Það sem er eftir er framleiðsla og það á eftir að hanna útlit. Svo verður gerður vínyll fyrir þá sem vilja, það er einn möguleikinn í söfnuninni. Svo er rétt að minna líka á „deluxe“-útgáfuna fyrir þá sem eru allra rausnarlegastir. Þá er hægt að panta einkatónleika hvar sem er á suðvesturhorni landsins. Það er alveg tilvalið fyrir hópa eða veislur. Þetta er líka besta leiðin til þess að tryggja sér miða á útgáfutónleikana sem verða á Hard Rock þann 29. september,“ segir Sigurður að lokum.