Líflegir Hljómsveitin er þekkt fyrir líflega sviðsframkomu.
Líflegir Hljómsveitin er þekkt fyrir líflega sviðsframkomu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Miðað við höfðatölu verður að segjast að tónlistarlífið í Færeyjum sé ansi líflegt og hafa Íslendingar fengið að njóta góðs af því þar sem færeyskir tónlistarmenn hafa verið duglegir að heimsækja Ísland í gegnum árin.

Sigurður Þorri Gunnarsson

siggi@mbl.is Þessa dagana heiðra meðlimir gleðisveitarinnar „Danny & the Veetos“ Íslendinga með nærveru sinni en þeir eru á tónleikaferð um landið þessa vikuna.

„Við komum frá Klakksvík, sem er næststærsti bærinn í Færeyjum en þar búa um 5.000 manns,“ segir Danny Baldursson, forsprakki sveitarinnar, þegar hann er spurður um bakgrunn þeirra. Hljómsveitin leikur á allskyns hljóðfæri, allt frá ukulele til trompets og yfir í hljóðgervla. „Við erum komnir hingað til þess að kynna tónlistina okkar. Við erum búnir að spila í Rifi á Snæfellsnesi og á Kaffi rauðku á Siglufirði það sem af er vikunni og munum koma fram á Græna hattinum á Akureyri í kvöld. Svo ætlum við að enda þetta á Blómstrandi dögum í Hafnarfirði annað kvöld,“ segir Robert Waagstein, trommuleikari Danny and the Veetos, sem fer létt með að bera fram íslensku staðarheitin.

Tónlistarsenan í Færeyjum góð

„Það er mikil tónlist í Færeyjum og þú þarft að standa upp úr til þess að ná árangri, það er mikil samkeppni,“ segir Danny spurður um tónlistarlífið í Færeyjum. „Reyndar finnst mér ekki mikil samkeppni, því flestir færeyskir tónlistarmenn hljóma alveg eins, þeir eru mjög alvarlegir og rólegir en við erum hinsvegar að búa til hressa gleðitónlist,“ segir Robert. Eins og við Íslendingar þekkjum fylgir það því yfirleitt að vera frá fámennu landi að vilja reyna fyrir sér á stærri markaðssvæðum. „Við komumst í samband við íslenskan umboðsmann sem taldi að það væri markaður fyrir okkar tónlist hér á landi og að Ísland væri góður staður til að byrja á,“ segir Danny um áætlanir þeirra um landvinninga utan Færeyja.

Hægt að fylgjast með þeim

Hljómsveitin er skipuð sex líflegum strákum sem taka sig ekkert of hátíðlega og er hægt að fylgjast með ævintýrum þeirra á samfélagsmiðlum. Hægt er að fletta upp „Danny & the Veetos“ á Facebook. Einnig er hægt að hlusta á plötu þeirra, „Hint of Melancholy“, á Spotify.