Enn leitað Leitarmenn á vegum danskra almannavarna aðstoðuðu við leitina að líkamsleifum Wall í gær.
Enn leitað Leitarmenn á vegum danskra almannavarna aðstoðuðu við leitina að líkamsleifum Wall í gær. — AFP
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Lögreglan í Kaupmannahöfn staðfesti í gærmorgun að líkamsleifar þær sem fundust við Amager-eyju fyrr í vikunni væru af sænsku blaðakonunni Kim Wall, sem saknað hefur verið frá 10. ágúst síðastliðnum.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Lögreglan í Kaupmannahöfn staðfesti í gærmorgun að líkamsleifar þær sem fundust við Amager-eyju fyrr í vikunni væru af sænsku blaðakonunni Kim Wall, sem saknað hefur verið frá 10. ágúst síðastliðnum. Gerð var frekari leit að líkamsleifum Wall í gær, en höfuð og útlimi vantaði á líkið sem fannst.

Uppfinningamaðurinn Peter Madsen, sem átti kafbátinn þar sem Wall er talin hafa látist, hefur verið ákærður fyrir manndráp af gáleysi. Madsen neitar hins vegar allri sök, en viðurkennir að Wall hafi látist um borð í kafbátnum. Andlát hennar hafi hins vegar verið slys. Lögreglan útilokar ekki að ákærunni verði breytt í ljósi nýjustu tíðinda, þannig að Madsen verði sakaður um morð.

Blóð hennar um borð í bátnum

Jens Møller Jensen, yfirmaður morðdeildar Kaupmannahafnarlögreglunnar, greindi frá því á sérstökum blaðamannafundi að DNA úr líkinu sem fannst hefði passað við sýni sem sótt voru úr hár- og tannbursta Kim Wall. Þá hefði DNA-rannsóknin einnig staðfest að blóðsýni sem fundust um borð í kafbátnum væru úr Wall. Rannsókn lögreglunnar hafði áður leitt í ljós að honum hafði verið sökkt vísvitandi kvöldið eftir að Wall týndist.

Í máli Jensens kom einnig fram að áverkar á líkinu bentu til þess að reynt hefði verið að þrýsta út öllu lofti úr höfuðlausa búknum, auk þess sem hann hefði verið verið bundinn við málmhlut. Áætlaði lögreglan að það hefði verið gert til þess að koma í veg fyrir að líkið flyti upp á ný eftir að því hefði verið hent í sjóinn.

Dánarorsök enn ókunn

Enn er hins vegar ekki vitað neitt um það hvernig hún dó eða hvers vegna. Lögfræðingur Madsens, Betina Hald Engmerk, sagði við danska fjölmiðla að skjólstæðingur sinn væri mjög feginn að búið væri að bera kennsl á líkamsleifarnar.

„Hann vill ekkert frekar en að þessu máli ljúki og allt verði upplýst,“ sagði Engmerk. Hins vegar sagði hún jafnframt að líkfundurinn breytti engu um þá frásögn Madsens að Wall hefði látist af slysförum.

Madsen hefur hins vegar orðið margsaga síðan málið kom upp, en hann hélt því fram í fyrstu að Wall hefði verið á lífi og hann hleypt henni í land að kvöldi 10. ágúst. Nokkrum dögum síðar viðurkenndi hann hins vegar að hún hefði látist um borð í kafbátnum og hann hefði varpað líki hennar fyrir borð.

Vinir og kunningjar Madsens hafa lýst honum sem sérvitrum en ekki ofbeldishneigðum manni. Málið nú hafi því komið flatt upp á þau.