Víkverji er nýkominn úr sumarfríi. Fyrstu vikuna í sumarfríinu vissi hann ekkert hvað hann átti af sér að gera heima við. Þegar það loks lagaðist var sumarfríið búið og Víkverji mættur aftur á sinn bás.

Víkverji er nýkominn úr sumarfríi. Fyrstu vikuna í sumarfríinu vissi hann ekkert hvað hann átti af sér að gera heima við. Þegar það loks lagaðist var sumarfríið búið og Víkverji mættur aftur á sinn bás. Fyrstu vikuna í vinnunni hefur Víkverji hins vegar ekkert vitað hann á að gera af sér þar, og verið sem hálfrotaður.

Sumarfríið fór þó ekki alveg til spillis, þar sem sonur Víkverja, Víkverji yngri, nýtti tímann vel til þess að horfa á og hlusta á ýmsa smábarnaþætti þar sem trallað var og sungið. Fann Víkverji yngri til dæmis alveg upp á eigin spýtur ástralskan smábarnaþátt, The Wiggles, þar sem litríkir söngvarar syngja og tralla í gegnum hin ýmsu barnalög.

Víkverji getur ekki sagt að hann hafi verið hrifinn í fyrstu. Fyrr en varði voru þó báðir foreldrar farnir að humma með sumum lögunum. Ekki leið á löngu áður en þeir voru farnir að syngja með. Við sum að hljómþýðari lögunum voru foreldrarnir jafnvel farnir að dilla sér með eins og ekkert væri.

Víkverji líkti þessu í fyrstu við hálfgert Stokkhólms-einkenni, þar sem fanginn væri farinn að samsama sig ræningjunum, en varð eiginlega að viðurkenna fyrir sjálfum sér, að honum fannst þetta í laumi bara pínulítið flott hjá þessari ágætu hljómsveit. Raunar skilst honum, að þegar kemur að plötusölu og fleira slíku, geti The Wiggles talist næstvinsælasta hljómsveit Ástrala frá upphafi, en alltaf bætast við nýir og nýir aðdáendahópar, jafnvel eftir að hinir hafa vaxið úr grasi.

Einn böggull fylgir þó skammrifi. Víkverji yngri hefur fylgst einstaklega vel með þáttunum. Þegar Víkverji hinn eldri hugðist syngja stafrófslagið fyrir hann stóð því ekki á viðbrögðunum þegar kom að lokaerindinu: „Ná Æ Nó Mæ Ei Bí Sís“ heyrðist skýrt í þeim stutta. Líklega þarf Víkverji að halda íslensku útgáfunni ögn meir að snáðanum í framhaldinu.