Tónar Verkið Tónar hafsins frá árinu 1950. Unnið í við.
Tónar Verkið Tónar hafsins frá árinu 1950. Unnið í við.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sýning með verkum Ásmundar Sveinssonar. Sýningarstjóri: Ólöf K. Sigurðardóttir. Sýningarhönnuður: Finnur Arnar Arnarson. Listasafn Reykjavíkur, Ásmundarsafn. Til 31. desember 2017. Opið alla daga frá kl. 10-17.

Myndhöggvarinn Ásmundur Sveinsson (1893-1982) var alla tíð knúinn áfram af þörf til að skapa list sem vakti spurningar og hreyfði við fólki. Myndlist hans snerist ekki eingöngu um fagurfræði: „Ég get ekki gert berrassaðar stelpur allt mitt líf, þótt þær séu fallegar,“ er til að mynda haft eftir listamanninum í bók Matthíasar Johannessen um Ásmund frá 1971, slíka list kallaði hann sefjunarlist. Sýningin List fyrir fólkið er yfirlitssýning sem spannar allan feril Ásmundar frá öðrum áratug síðustu aldar og yngsta verkið, „Undir friðar- og landnámssól“, er frá árinu 1973. Fjölda verka eftir Ásmund hefur verið komið fyrir í almannarými víðs vegar um landið og hér má sjá nokkrar frummyndir þeirra.

Ásmundur notaði ýmsan efnivið í sinni listsköpun, hjó út í tré, steypti í brons, steinsteypu og notaði járn, kopar og gifs svo eitthvað sé nefnt. Á löngum ferli tókst hann sífellt á við nýjar áskoranir og fjölbreytt verk hans á sýningunni bera þess merki. Sjálft húsnæði safnsins er hugarsmíð Ásmundar en útfært af Jónasi Sólmundssyni húsgagnasmíðameistara og Einari Sveinssyni arkitekt. Afgerandi arkitektúrinn, píramída- og kúluform, sótti hann til byggingarstíls Egypta og araba og á sýningunni má sjá hvernig sýningarhönnuðurinn tekst á við þetta krefjandi rými. Við stigapallinn hefur verið smíðaður stór stöpull þar sem komið hefur verið fyrir nokkrum litlum verkum sem eru þverskurður af ferli listamannins og eins konar leiðarstef um það sem í vændum er á sýningunnni. Þar er til að mynda elsta verk sýningarinnar, „Hjásetukona“, sem er lítið gifsverk frá 1918 en fá verk eru varðveitt eftir Ásmund frá þessum tíma. Á vegg yfir verkunum blasir við einkar viðeigandi tilvitnun í listamanninn: „Það opnast sífellt nýjar víðáttur. Nútímalistin gefur mönnum einmitt tækifæri til að horfa inn í þessar víðáttur – og endurnýja sköpunarmátt sinn.“

Þegar komið er niður í sýningarrýmið sést hvar skjár hefur verið byggður inn í stöpulinn og þar má virða fyrir sér sömu verkin á myndbandi í hægum hringsnúningi og í öðru innskoti er útskorinn stóll sem var sveinsstykki Ásmundar úr tréskurðarnámi hjá Ríkharði Jónssyni árið 1919. Hægt að rekja sig í gegnum þróun og feril listamannins og sjá hvernig hann er stöðugt að endurnýja stíl sinn og efnistök. Á árunum eftir sveinsprófið var Ásmundur að mestu erlendis við nám, fyrst í Kaupmannahöfn frá 1919-1920, síðan í Svíþjóð en auk þess í Þýskalandi og Frakklandi. Hann var leitandi listamaður á þessum mótunarárum og kynntist fjölmörgum liststefnum og drakk í sig þær hugmyndir sem voru í gangi, tilbúinn til að vinna úr þeim með sínum hætti. „Venus á hafinu“ (1925) er dæmi um verk í nýklassískum anda sem Ásmundur kynntist í Svíþjóð undir leiðsögn kennara síns Carls Milles og í verkinu „Nótt í París“ (1928) sækir hann í kúbismann sem hann kynntist í París en þangað fór hann aftur og aftur.

Á fjórða áratugnum taka við verk þar sem myndefnið er sótt til alþýðunnar og hins vinnandi manns og mörg af hans þekktustu verkum eru frá þessu tímabili, „Veðurspámaður“ (1934), „Þvottakonur“, „Vatnsberinn“ og „Járnsmiðurinn“, öll frá árinu 1936 en hér má sjá verkin útfærð í ólík efni. Síðar sótti hann gjarnan myndefni í bókmenntaarfinn og þjóðsögurnar. Á sýningunni er einnig gott úrval módernískra verka frá sjötta áratugnum unnin í brons og við, sem taka sig vel út á svargráum stöplunum í sýningarrýminu. Undir lok ferilsins ber meira á nýrri efnisnotkun, þar sem listamaðurinn notar saman formbeygt járn, gler og kopar í verk sín. Þótt áhrifin kæmu víða að var hann alla tíð trúr eigin sannfæringu. Hann var með fingurinn á slagæð samtímans og fann tækninýjungum nútímans farveg í myndefni sínu.

Auðvelt er fyrir áhorfandann að rekja sig í gegnum ólík stílbrigði á ferli Ásmundar á sýningunni List fyrir fólkið . Verkin njóta sín vel í fallegu en krefjandi sýningarrými Ásmundarsafns og hér hefur verið hugað að hverju smáatriði í uppsetningunni. Stöplarnir undir verkunum eru áberandi og brjóta upp sýningarrýmið, sums staðar hefur horn verið tekið úr þeim og stöplarnir ganga inn í veggi safnins, en um leið gefa þeir sýningunni heildstætt yfirbragð. Gott flæði er á milli verkanna og sýningin er í senn aðgengileg, falleg fyrir augað og hreyfir við fólki eins og listamaðurinn lagði ávallt áherslu á. Hér gefst kjörið tækifæri til að kynna sér feril eins af okkar helstu brautryðjendum á sviði höggmyndalistar.

Aldís Arnardóttir