Jerry Lewis
Jerry Lewis — AFP
Andlát bandaríska gamanleikarans Jerrys Lewis hefur beint sjónum fólks aftur að hinni alræmdu glötuðu mynd The Day the Clown Cried (Dagurinn sem trúðurinn grét) sem tekin var upp 1972. Frá þessu greinir á vef New York Post .

Andlát bandaríska gamanleikarans Jerrys Lewis hefur beint sjónum fólks aftur að hinni alræmdu glötuðu mynd The Day the Clown Cried (Dagurinn sem trúðurinn grét) sem tekin var upp 1972. Frá þessu greinir á vef New York Post . Myndin, sem aldrei var sett á markað, fjallar um þýskan sirkustrúð (leikinn af Lewis) sem nasistar neyða til að leiða börn í dauðann í gasklefum útrýmingarbúðanna eftir að hann hefur móðgað Hitler. Jerry Lewis, sem bæði lék í og leikstýrði myndinni, var sjálfur afar ósáttur við afraksturinn og lét á blaðamannafundi á kvikmyndahátíðinni í Cannes 2013 hafa eftir sér að myndin hefði verið „slæm og það var vegna þess að ég hafði tapað töfrunum. Enginn mun nokkurn tímann sjá hana vegna þess að ég skammast mín fyrir hversu léleg hún er“.

Að sögn Robs Stones og Mikes Mashons, sem starfa hjá bókasafni bandaríska þjóðþingsins, höfðu þeir samband við Lewis að fyrra bragði og óskuðu eftir að safnið fengi að varðveita eintak hans af myndinni. Hann féllst á það í júní 2014 með því skilyrði að myndin yrði ekki sýnd fyrr en að áratug liðnum, þ.e. í júní 2024. Ekki stendur þó til að gefa hana út á DVD-formi nema með samþykki dánarbús Lewis. Einn fárra sem séð hafa bút úr myndinni er gamanleikarinn Harry Shearer sem leikur í The Simpsons -þáttunum. Í samtali við tímaritið Spy árið 1992 sagði hann myndina vera „hryllilega ranga, samúð hennar og grín er skakkt“.