Vísindamenn og framhaldsnemar við rannsóknarstofu í íþrótta- og heilsufræði á menntavísindasviði HÍ hafa á undanförnum árum unnið að umfangsmiklum rannsóknum á þróun og hugsanlegum breytingum á heilsufari ungs fólks.
Vísindamenn og framhaldsnemar við rannsóknarstofu í íþrótta- og heilsufræði á menntavísindasviði HÍ hafa á undanförnum árum unnið að umfangsmiklum rannsóknum á þróun og hugsanlegum breytingum á heilsufari ungs fólks. Eitt af þessum verkefnum er rannsóknarverkefnið „Heilsuhegðun ungra Íslendinga“ en markmið verkefnisins er m.a. að skoða stöðu og langtímabreytingar á heilsufari, svefnvenjum, námsárangri og hreyfingu 15 og 17 ára unglinga (fædd 1999). Úrtak rannsóknarinnar samanstendur af þátttakendum úr rannsókninni „Lífsstíll 7-9 ára íslenskra barna“ sem framkvæmd var árin 2006 og 2008 þegar þátttakendur voru sjö og níu ára, auk þess sem nýjum nemendum í 10. bekk var bætt við úrtakið þegar gagnasöfnun fór fram vorið 2015, þegar ungmennin voru 15 ára. Síðasti hluti gagnasöfnunar fór fram nú í vor þegar þátttakendur voru 17 ára og flestir á öðru ári í framhaldsskóla.