Hjörleifur Hallgríms
Hjörleifur Hallgríms
Eftir Hjörleif Hallgríms: "Lausnin á vanda sauðfjárbænda er að stöðva tímabundið allan innflutning á kjöti, a.m.k. á meðan leitað er nýrra markaða. Þar er ekki nóg að gert."

Það kom ekki á óvart að lesa eftir Þórólf Matthíasson prófessor í hagfræði um offramleiðslu á kindakjöti að það væri allt bændum að kenna og kominn tími til að setjast niður og horfa á raunveruleikann. Hann er auðvitað sá að ef bændur eiga að fækka sauðfé verða þeir að fá meira fyrir kjötið til að lifa af búgreininni, sem svo aftur bitnar á neytendum. Flott hagfræði það. Það er talið að 1.500 tonn séu í landinu óseld og óétin að sjálfsögðu.

Úr annarri átt grenja þeir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, og Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, og heimta meiri og helst óheftan innflutning á kjöti alls konar. Og í þriðja lagi blæs landbúnaðarráðherrann úr litla Sjálfstæðisflokknum, sem kallar sig Viðreisn, Þorgerður Katrín, og kennir um afurðastöðvunum, sem sé að þær verði að borga meira til sauðfjárbænda. Engu af þessu fólki dettur í hug að ráðast að vandanum, sem er að stöðva tímabundið gengdarlausan innflutning á kjöti, a.m.k. á meðan leitað er nýrra markaða. Þar tel ég að unnið sé mjög slælega.

En það er auðvitað vitað að frjálshyggjupostula á ofurlaunum skiptir engu máli þó að heil búgrein sé sett í þrot. Landbúnaður, og þar með talinn sauðfjárbúskapur, ein elsta og helsta búgrein þjóðarinnar, er m.a. búin að halda lífinu í Íslendingum í gegnum aldirnar. Við erum með kokka/matreiðslumenn á heimsmælikvarða, sem væru örugglega til í að uppfræða landann um þær ótal uppskriftir, sem íslenska lambakjötið býður upp á. Fjölmargir útlendingar, sem sækja landið heim segjast vart hafa smakkað betra kjöt. Þar fyrir utan höfum við svínakjöt, hrossakjöt nóg af því, fuglakjöt margs konar, og nautakjöt, sem vantar meira af og talið eitt það besta í heimi, væri verðugra fyrir landbúnaðarráðherrann að hvetja með öllum ráðum til meiri framleiðslu á því. Vitað er að íslenska kjötið er að mestu laust við ýmis eiturefni, sem gjarnan finnast í erlendu kjöti. En þetta allt fer fyrir ofan garð og neðan hjá frjálshyggjupostulunum, sem blindaðir eru af gróðafíkn. Einhvers staðar væri svona fólk talið þjóðhættulegt.

Höfundur er eldri borgari á Akureyri. hallgrims@simnet.is