Edda Elísabet Magnúsdóttir fæddist í Durham í Englandi árið 1981 og ólst upp í Reykjavík. Hún lauk BS-námi í líffræði við HÍ árið 2005 og M.Paed-námi í líffræði og kennslufræðum við HÍ árið 2007.
Edda Elísabet Magnúsdóttir fæddist í Durham í Englandi árið 1981 og ólst upp í Reykjavík. Hún lauk BS-námi í líffræði við HÍ árið 2005 og M.Paed-námi í líffræði og kennslufræðum við HÍ árið 2007. Edda á tvo syni, þá Aðalstein Loga Bernharðsson 6 ára og Arnar Magnús Bryden Swift 1 árs, sambýlismaður hennar er Martin Jónas Swift , eðlisfræðingur og kennari. Edda starfar nú sem aðjúnkt í líffræði við menntavísindasvið og líf- og umhverfisvísindadeild HÍ.

• Edda Elísabet Magnúsdóttir hefur varið doktorsritgerð sína við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Sönghegðun hnúfubaksins (Megaptera novaeangliae) á fæðustöðvum við suðurmörk norðurheimskautsins (The singing behaviour of humpback whales (Megaptera novaeangliae) in subarctic waters). Leiðbeinandi var dr. Jörundur Svavarsson, prófessor við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.

Á æxlunartíma hnúfubaksins (Megaptera novaeangliae) syngja tarfarnir flókna og langa söngva sem samanstanda af endurteknum og fjölbreyttum söngerindum. Rannsóknir fóru fram á hljóðmyndun hnúfubaka við norðausturströnd Íslands á heilsársgrundvelli með áherslu á sönghegðun að vetri. Hljóðgögnum var safnað yfir þriggja ára tímabil. Upptökurnar leiddu í ljós að hnúfubakar syngja á fæðustöðvum sínum norðaustur af landinu á veturna og voru söngvarnir í mestum mæli á æxlunartíma þeirra. Upptökur af söngvum fengust einnig frá þekktum æxlunarstöðvum hnúfubaka í Norður Atlantshafi, þ.e. frá Grænhöfðaeyjum úti fyrir norðvesturströnd Afríku og frá Karíbahafi. Markmiðið var að bera íslensku söngvana saman við söngva frá þessum æxlunarstöðvum til að kanna. Ef líkindi voru með þeim söngvum er líklegt að þeir eigi í samskiptum og tilheyra líklega sama æxlunarstofni. Ásamt því hversu miklum tíma hvalirnir vörðu í söng sýndu niðurstöðurnar fram á að söngvarnir frá Íslandi voru í samræmi við það söngform sem þekkist á hefðbundnum æxlunarstöðvum í hitabeltinu. Því er ólíklegt að um tilviljunarkennda söngva sé að ræða, öllu heldur eru líkur á að söngvarnir á Íslandi eigi þátt í tilhugalífi hvalanna. Þar sem söngvar heyrðust fram í mars er ljóst að einhverjir hnúfubakar halda til við Ísland yfir veturinn. Þannig geta íslensk hafsvæði nýst hvölunum á veturna og fram á vor til bæði fæðuöflunar, söngiðkunar og mögulega til mökunar. Niðurstöðurnar varpa þannig nýju ljósi á mikilvægi íslenskra fæðustöðva fyrir hnúfubaka að vetri til.