Glæsileg Bryndís flytur lög Amy Winehouse á tónleikum í september.
Glæsileg Bryndís flytur lög Amy Winehouse á tónleikum í september.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leik-, söng- og útvarpskonuna Bryndísi Ásmundsdóttur kannast margir við en hún hefur verið áberandi í listasenunni hér á landi í fjölda ára. Það kemur því kannski eilítið á óvart að Bryndís sendi frá sér í vikunni sitt fyrsta lag, Til mín.

Sigurður Þorri Gunnarsson

siggi@mbl.is

„Ég hef sungið í mörg ár, og alveg sungið inn á plötur, en þá hefur það verið fyrir aðra tónlistarmenn. Svo hef ég náttúrlega líka verið í karakterum; Tinu Turner, Janis Joplin eða Amy Winehouse. En núna kem ég bara til dyranna eins og ég er klædd,“ segir Bryndís og kveðst vera pínu spéhrædd þegar hún er spurð hvernig það sé að standa í þessum sporum núna.

„Þetta er búið að vera ótrúlega skemmtilegt ferli. Eyþór Ingi Gunnlaugsson samdi þetta lag handa mér fyrir þremur árum, en þá var ég stödd á krossgötum í lífinu og ekki tilbúin að gera þetta lag. Á meðan ég hef verið í sjálfsvinnu þessi ár hefur þetta lag bara beðið eftir mér og loksins þegar lifnaði yfir mér stökk ég til og fór og hitti Stefán Örn Gunnlaugsson og fékk hann til að hjálpa mér með lagið,“ segir Bryndís og bætir því við að stúdíóvinnan hafi verið framandi fyrir sér. Hún hafi verið vön að standa á sviði en að sitja inni í stúdíói og skapa lag hafi verið nýtt.

Textinn fæddist í Hveragerði

„Ég reyndi nú að semja textann sjálf en það er nokkuð sem krefst æfingar held ég,“ segir Bryndís og hlær. „Ég ákvað bara að sleppa tökunum á því að semja textann sjálf og hringdi í vin minn Magnús Þór Sigmundsson,“ segir Bryndís sem fór til hans í heimsókn í Hveragerði þar sem textinn fæddist. „Ég brunaði til hans austur í Hveragerði. Þar áttum við yndislegan dag, við byrjuðum á því að spjalla um lífið og tilveruna, innihaldið og hvað ég vildi segja í textanum og síðan fór hann að semja,“ segir Bryndís en það má segja að lagið sé uppgjör hennar við erfiða tíma.

Stígur á svið í hlutverki Amy Winehouse

Það er nóg um að vera hjá Bryndísi fyrir utan lagaútgáfuna en í september mun hún stíga á svið í hlutverki Amy Winehouse. „Við ætlum að henda í eina tónleika til viðbótar, það hefur gengið alveg svakalega vel,“ segir Bryndís en hún hélt fyrstu tónleikana til heiðurs Amy í september í fyrra.

Tónleikarnir fara fram í Bæjarbíói í Hafnarfirði 14. september næstkomandi.