Jón Gerald Sullenberger segir að ríkið þurfi að skerast í leikinn á samkeppnismarkaði með því að setja skýrari reglur um markaðshlutdeild fyrirtækja.
Jón Gerald Sullenberger segir að ríkið þurfi að skerast í leikinn á samkeppnismarkaði með því að setja skýrari reglur um markaðshlutdeild fyrirtækja. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.

Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Jón Gerald Sullenberger, stofnandi verslunarinnar Kosts við Dalveg í Kópavogi, er ekki sáttur við það hvað umræðan í samfélaginu eftir komu heildverslunar Costco til landsins hefur verið óvægin í garð kaupmanna, þar sem kaupmaðurinn á horninu er settur undir sama hatt og stóru keðjurnar. Það sé ekki rétt að þeir hafi verið að arðræna þjóðina. Hann segir einnig að heildsalar landsins, sem byggi hvert stórhýsið á fætur öðru undir starfsemi sína, virðist njóta algjörrar friðhelgi í umræðunni, þótt þeir eigi að hans sögn stóran þátt í háu verðlagi á landinu.

Blaðamaður hitti Jón Gerald við upphaf dags í Kosti. Þegar gengið er um gangana sést að verslunin er vissulega ólík öðrum dagvöruverslunum hér á landi. Úrvalið af til dæmis morgunkorni, lífrænum vörum, hreinlætisvörum, sælgæti og snakki er allt annað en það sem maður á að venjast í búðum stóru íslensku verslanakeðjanna, enda flytur Jón Gerald stóran hluta af vörunum beint inn frá Bandaríkjunum. Hann segir að þó svo að það sé dýrara að flytja inn vörur frá Bandaríkjunum en Bretlandi, einkum vegna tolla og hærri flutningskostnaðar, haldi hann traustataki í þá sérstöðu sína að bjóða upp á amerískar vörur, það fái neytandann til að halda áfram að heimsækja Kost. „Ég hef lítinn áhuga á að bjóða sömu vörur og allir aðrir á markaðnum enda er illmögulegt að vera í verðsamkeppni í þeirri fákeppni sem hér ríkir þar sem verslanir Haga hafa kverkatak á mörgum heildsölum landsins,“ segir Jón Gerald í samtali við ViðskiptaMoggann.

Á stóran þátt í komu Costco

Hann segir að Kostur eigi stóran þátt í því að heildverslunin Costco sé hingað komin. „Ég hef verið í viðskiptum við þá síðastliðin 27 ár og í gegnum árin hef ég flutt inn mikið af vörum frá þeim til Íslands. Það má segja að þeir hafi nýtt okkur í sína markaðsrannsókn á Íslandi. Fulltrúar verslunarinnar hafa verið tíðir gestir hjá mér. Þeir skoðuðu búðirnar hér heima og svæðisstjórinn sagði við mig að ef hann ætti heima á Íslandi myndi hann versla í Kosti, honum fyndist Kostur skemmtilegasta búðin, enda flott verslun í þeirra anda. En að lokum ákváðu þeir, vegna tolla, merkingamála og innflutningshafta, að flytja vörur frá Bretlandi en ekki Bandaríkjunum, eins og upphaflega var áætlað. Heildverslunin Costco á Íslandi er því breskt útibú Costco með breskar matvörur, breskan verslunarstjóra og fullt af bresku starfsfólki, og eina verslunin sem ekki er stjórnað frá því landi þar sem hún starfar, heldur alfarið stjórnað frá Bretlandi.“

Koma Costco til landsins hefur valdið samdrætti í verslun í Kosti. „Til að mæta breyttum aðstæðum ákváðum við að breyta áherslum í Kosti og erum búin að semja við nýjan birgi í Bandaríkjunum. Þetta er stór dreifingaraðili sem dreifir í um það bil 600 verslanir. Þessi breyting kemur til með að lækka vöruverð til okkar um 10-15% sem mun skila sér til íslenskra neytenda. Við munum einnig bjóða upp á breiðara vöruúrval og minni pakkningar. Annað sem við erum að skoða er breyttur afgreiðslutími og að hafa opið til miðnættis, enda er það nokkuð sem viðskiptavinir hafa kallað eftir.“

Kostur hefur að sögn Jóns Geralds lagt mikinn metnað í að hafa grænmeti og ávexti sem ferskast og á betra verði en gengur og gerist á markaðnum. „Við flytjum það inn sjálfir, bæði með flugi og skipi. Við fljúgum með viðkvæmari vörur eins og ber, salat og ferskar kryddjurtir nánast daglega frá New York og flytjum inn gám frá Hollandi í hverri viku. Við höfum alltaf fengið hrós fyrir ferskt og gott grænmeti og höfum haft mikil áhrif á verð og gæði á grænmeti og ávöxtum hér á landi með okkar beina innflutningi.“

Jón Gerald fagnaði á sínum tíma komu Costco til landsins og ítrekar við blaðamann að hann fagni allri samkeppni ef hún er byggð á sanngjörnum grunni. Hann segir að Costco bjóði vörur undir kostnaðarverði sem sé ekki sanngjörn samkeppni. Þetta sjái hann með einföldum verðsamanburði á milli Costco-verslunar í Bretlandi og verslunarinnar í Garðabæ. „Þeir nota þá þekktu markaðstækni að selja ýmsar vörur langt undir kostnaðarverði til að ná viðskiptavinum inn í búðina. Það að ásaka okkur hina um að arðræna þjóðina þar sem við erum ekki með sama útsöluverð og þeir á þessum vörum er ekki sanngjart og alls ekki rétt ásökun í okkar garð.“

Greinileg undiralda er í sálartetri þjóðarinnar, að mati Jóns Geralds. Hann greinir mikla óánægju og reiði og að menn séu til í að refsa öllum íslenskum kaupmönnum. „Ég tel að þetta eigi helst við um Haga og yfirmenn þeirra en það hefur lítið að gera með okkur hin. Eins má benda á að þetta er komið í heilan hring, því hverjir eru stærstu eigendur stóru keðjanna í dag? Jú, það eru lífeyrissjóðirnir okkar. Það er eins og fólk átti sig ekki á þessu. Það refsar fyrirtækjum sem það á sjálft! Þetta er pínu fáránlegt allt saman.“

Offjárfesting í boði lífeyrissjóðanna

Jón rifjar upp þann tíma þegar hann var hvattur til að opna verslun sína árið 2009. „Þá ríkti hér algjör fákeppni. Þarna var Baugur með 65% af markaðnum og jafnvel enn meira þegar horft var bara til höfuðborgarsvæðisins. Ég átti ekki von á öðru en þetta yrði allt brotið upp og viðskiptaumhverfið gert eðlilegra. Reyndar hafa Hagar misst markaðshlutdeild eftir að lífeyrissjóðirnir fjárfestu líka í Festi sem á og rekur Krónuna og fleiri verslanir, en báðir aðilar hafa verið að bæta við sig verslunum. Krónan er komin með fjórar nýjar verslanir frá hruni og tvær til viðbótar eru á teikniborðinu í Garðabæ og Akureyri. Hagar hafa byggt sex nýjar Bónusverslanir frá hruni og mér skilst að þeir séu ekki hættir. Hér í Kópavogi eru fjórar Bónusverslanir og þrjár Krónubúðir. Ef við tökum þetta saman þá eru 12 matvöruverslanir í Kópavogi og hér búa um 35 þúsund manns. Þetta kallar maður offjárfestingu í boði lífeyrissjóðanna. Er virkilega vöntun á öllum þessum verslunum? Og allt veltur þetta á endanum út í matvöruverðið. Hvernig eiga minni verslanirnar að geta keppt í þessu umhverfi; annars vegar við lífeyrissjóði landsins, sem eru búnir að setja milljarða í þessar tvær keðjur, og svo Costco, stærstu heildverslun í heimi? Þetta er glórulaust.“

Jón Gerald telur að stjórnvöld eigi stóran þátt í þeirri fákeppni sem hann segir að hafi verið við lýði í mörg ár á smásölumarkaðnum. „Það hefði átt að skipta verslunarrisanum Baugi upp þegar hann fór í þrot.“

Jón beinir spjótum sínum einnig að heildsölum. Ráðist sé á smásalana vegna álagningar þegar verðmyndunin verði mest hjá heildsölunni, að mati Jóns. „Ég skil að það kosti sitt að flytja vörur til landsins og markaðssetja þær en sum þessara fyrirtækja hafa skilað hundruðum milljóna í hagnað. Þú þarft ekki annað en að horfa á hallirnar sem fyrirtækin eru að byggja, fyrir og eftir hrun; Bananar, Garri, Innnes, Natan & Olsen, Ölgerðin o.fl. Þetta eru engin smá hús sem kostar milljarða að byggja. Einhver þarf að borga þessar fjárfestingar, ekki satt. Og nú þegar er búið að afskrifa milljarða af sumum þessara fyrirtækja eftir offjárfestingar fyrir hrun.“

Umhugsunarvert að leyfa komu Costco

Jón hefur velt fyrir sér ákvörðun yfirvalda að hafa leyft risaverslun eins og Costco að koma inn á þann örmarkað sem Ísland er. Hann segir hættu á því að ákvörðunin geti haft ófyrirséðar afleiðingar til lengdar. Í minni bæjarfélögum í Bandaríkjunum séu þessar tegundir verslana í auknum mæli bannaðar, þær fái ekki samþykkt byggingarleyfi til að opna risaverslanir. „Þessar verslanir eru kallaðar „boxverslanir“. Þetta eru fyrirtæki eins og Wal Mart, Target, Sams Club, Home Depot og Costco. Þróunin í gegnum árin hefur ekki alltaf verið góð í minni samfélögum. Ekki líður á löngu áður en kaupmaðurinn á horninu og minni verslanir loka í bænum og fólkið fer að vinna hjá til dæmis Wal Mart. Þá breytist samfélagið í láglaunasamfélag og menningin verður fyrir óbætanlegu tjóni og öll sérstaða týnist. Í framhaldi sogast allt fjármagn burt úr sveitarfélaginu og lítið verður eftir. Þetta er ein ástæðan fyrir því að stóru keðjurnar eru að ryðja sér til rúms á alþjóðlegum mörkuðum eins og Íslandi. Þeir eru í vandræðum með að stækka í Bandaríkjunum og þurfa því að leita út fyrir landsteinana. Þetta eru félög á hlutabréfamarkaði sem þurfa að sýna fram á stækkun ár eftir ár og aukinn tekjuvöxt og hagnað. Í lokin er þetta allt bissness með stóru B.“

Jón Gerald segir að Ísland sé minnsti markaður sem Costco hafi komið inn á. „Þeir hafa hingað til ekki opnað verslun í minna samfélagi en 500-600 þúsund manns, sem er hluti af þeirra viðskiptamódeli. Þeir telja sig þurfa að selja 100-150 þúsund aðildarkort á ári til að verslunin borgi sig á því svæði sem þeir eru á. Í Miami í Bandaríkjunum eru til dæmis aðeins tvær Costco-búðir en þar búa um þrjár milljónir manna.“

Costco er fyrst og fremst heildsala segir Jón. Erlendis versli aðallega smáfyrirtæki og sjoppur í Costco, en einstaklingar versli þar þegar eitthvað mikið stendur til, eins og stórveislur. „Á Íslandi hefur þeim tekist að láta Íslendinga borga fyrir að versla hjá sér og að sama skapi hafa þeir fært lagerhaldið frá heildsölunni yfir til neytandans sem nú á margra mánaða lager heima hjá sér með tilheyrandi kostnaði. Þetta er náttúrlega frábær markaðssetning.“

Hann segir að með tilkomu heildverslunar Costco muni neysla aukast hér á landi. „Rannsóknir í Bandaríkjunum sýna að þeir sem versla í svona „klúbbum“ henda að meðaltali 15-20% af því sem keypt er.“

Hvernig er hægt að gera samkeppnisumhverfið hér á landi sanngjarnara, geta einhverjir til dæmis leyst lífeyrissjóðina af sem fjárfesta í stóru fyrirtækjunum?

„Ég geri mér ekki grein fyrir því. Mér finnst að lífeyrissjóðirnir eigi að fjárfesta erlendis og svo í innviðum íslensks þjóðfélags, í heilbrigðiskerfinu, vegakerfinu, flugstöð o.s.frv. í stað þess að ríkið sé að fara á almennan markað til að fá þessa peninga lánaða. Þeir eiga ekki að vera að fjárfesta í og lána fyrirtækjum á samkeppnismarkaði peninga.“

Hann segir að ríkið þurfi að skerast í leikinn á samkeppnismarkaði með því að setja skýrari reglur um markaðshlutdeild fyrirtækja. „Á svona litlum markaði eins og við erum á ætti hámarkið í markaðshlutdeild að vera 20%. Það að vera með hátt í 50% hlutdeild eins og Hagar eru með í dag er galið.“

Jón bendir á hversu brengluð umræðan sé þegar Hagar hafi talið það alveg sjálfsagt að fá að kaupa Lyfju og eignast 30 nýja útsölustaði í gegnum þau kaup. „En sem betur fer hafnaði Samkeppniseftirlitið þeim kaupum. Nú er spurning hvað Samkeppniseftirlitið gerir með kaup Haga á Olís en það er eitt af 30 stærstu fyrirtækjum landsins og rekur 115 útsölustöðvar um land allt.“

Nokkrar andvökunætur

Síðustu þrír mánuðir hafa ekki verið átakalausir í rekstri Kosts, eins og fyrr sagði, og andvökunæturnar hafa verið nokkrar að sögn Jóns. „Við höfum því miður misst viðskiptavini okkar yfir til Costco en vonandi er það tímabundið. Við munum vanda okkur og gera allt sem í okkar valdi stendur til að ná þeim til baka. Ég skora á neytendur að gera verðsamanburð á dagvöru, ekki bara við Costco heldur líka Bónus og Krónuna. Kostur er með ódýrustu mjólkurvörur á markaðnum og það má segja það sama með grænmeti og ávexti.“

Rekstur Kosts gekk ágætlega á síðasta ári að sögn Jóns Geralds þótt alltaf megi gera betur. Í dag vinna átta í fullu starfi hjá félaginu en í heild eru starfsmenn 26. „Þetta er gríðarleg vinna og það þarf mikla ástríðu og gott starfsfólk til að láta þetta allt ganga. Við erum með frábært starfsfólk og margir hafa verið hjá okkur frá því við opnuðum verslunina árið 2009.“

Um næstu framtíð segist Jón Gerald vera opinn fyrir því að opna fleiri verslanir, mögulega eina á Akureyri og aðra í vesturbæ Reykjavíkur. „Við erum með frábærar vörulínur og góða birgja og með réttum aðilum væri ég til í að stækka fyrirtækið. Við skoðuðum það á sínum tíma, en vorum ekki tilbúin þá, en núna er það kerfislega hagstætt.“

Netverslun er einnig á teikniborðinu, en Jón segir að Kostur henti vel til að afgreiða vörur heim að dyrum, eða bjóða þá þjónustu að pakka vörum fyrir fólk sem það sækir þá í verslunina eins og tíðkast víða erlendis.

Um aðra þróun í verslun segir Jón að unga kynslóðin sé mjög meðvituð um heilsuna. „Unga fólkið vill lífrænan, glútenlausan og hollan mat og við höfum stóraukið úrvalið af slíkri matvöru hjá okkur. Það hugsar meira um náttúruna og vill sem minnsta matarsóun.“

Að lokum segir Jón að eftir komu Costco til landsins sé ágætt að Hagar finni fyrir því hvernig það sé að vera ekki eini risinn á markaðnum. „Nú átta þeir sig kannski á hvernig okkur líður þegar við erum að reyna að semja við framleiðendur og heildsala á Íslandi.“