Magnaður Tryggvi Snær Hlinason átti frábæran leik í Litháen í gærkvöld. Hér er hann í baráttu við Arturas Gudaitis, einn miðherja litháenska liðsins.
Magnaður Tryggvi Snær Hlinason átti frábæran leik í Litháen í gærkvöld. Hér er hann í baráttu við Arturas Gudaitis, einn miðherja litháenska liðsins. — Ljósmynd/musukrepsinis.lt
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EM 2017 Sindri Sverrisson sindris@mbl.is Íslenska karlalandsliðið í körfubolta átti við ofurefli að etja þegar það mætti hinu ógnarsterka silfurliði síðustu tveggja Evrópumóta, Litháen, í Siauliai í gærkvöld.

EM 2017

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

Íslenska karlalandsliðið í körfubolta átti við ofurefli að etja þegar það mætti hinu ógnarsterka silfurliði síðustu tveggja Evrópumóta, Litháen, í Siauliai í gærkvöld. Um var að ræða síðasta leik Íslands áður en liðið heldur til Finnlands og mætir þar Grikklandi eftir viku í fyrsta leik sínum á Evrópumótinu í ár. Litháen náði snemma góðu forskoti og var 52:27 yfir í hálfleik, en vann að lokum 22 stiga sigur, 84:62.

„Við horfum ekki of mikið á úrslitin í þessum leik. Við vonuðumst eftir leik þar sem að allir gæfu alla sína orku í leikinn, berðust um hvern lausan bolta, og það gekk eftir. Það var aðalatriðið,“ sagði Craig Pedersen, þjálfari Íslands, við Morgunblaðið eftir leikinn.

„Menn lögðu afar hart að sér í þessum leik. Við verðum að koma í hvern einasta leik á EM og leggja þessa sömu vinnu á okkur allan tímann. Það er sumt sem við getum gert betur en það var margt jákvætt við þessa frammistöðu. Hafa ber í huga að lið Litháens er eitt það besta í heimi,“ bætti Pedersen við.

Jón og Haukur ekkert með

Ísland var án tveggja af sínum allra bestu leikmönnum í gær því þeir Jón Arnór Stefánsson og Haukur Helgi Pálsson sátu allan tímann utan vallar vegna meiðsla. Haukur er stífur í baki en hefði getað spilað í gær að sögn Pedersen, en þjálfarinn þarf líklega að hafa meiri áhyggjur af Jóni sem hefur aðeins getað leikið einn af leikjum Íslands í aðdraganda mótsins:

„Við vonuðumst auðvitað til þess að hann spilaði þennan leik en það eru mikilvægari leikir framundan og vonandi verður Jón klár í þá. Við munum nýta næstu daga til að skoða nákvæmlega stöðuna á mönnum áður en við gefum út lokahópinn á sunnudaginn,“ sagði Pedersen.

Ísland hóf leikinn með miðherjana Tryggva Snæ Hlinason og Hlyn Bæringsson báða innan vallar. „Við höfum aldrei byrjað leik svona en við þurftum háa menn til að geta barist um fráköst við þessa menn. Ég er viss um að við munum nota þetta oftar á EM enda fleiri lið þar með marga hávaxna leikmenn,“ sagði Pedersen.

Tryggvi stórkostlegur gegn NBA-mönnum

Tryggvi fékk að reyna sig við þungavigtarmenn á borð við Jonas Valanciunas, lykilmann í liði Toronto Raptors í NBA-deildinni, og stóð sig frábærlega í leiknum. Tryggvi var stigahæstur leikmanna Íslands með 19 stig og tók flest fráköst eða 7.

„Hann var stórkostlegur. Þetta var ekki fullkominn leikur hjá honum en strákurinn er 19 ára gamall og átti þarna í höggi við NBA-leikmenn og stóð sig ekki bara vel, heldur mjög vel, í þeim slag. Þetta hlýtur að vera einn albesti leikur sem hann hefur spilað,“ sagði Pedersen.

Íslenski hópurinn kemur nú til æfinga að nýju á Íslandi en í hádeginu á sunnudaginn verður tilkynnt hvaða 12 leikmenn verða í hópnum á EM. Tólf leikmenn voru í liðinu sem mætti Litháen og einnig Ungverjalandi um síðustu helgi, en þeir Axel Kárason, Ólafur Ólafsson og Sigtryggur Arnar Björnsson verða með á æfingum hér heima. EM-hópurinn heldur svo til Finnlands á mánudagsmorgun.