Krúnuleikar Hvernig mun fara um helgina?
Krúnuleikar Hvernig mun fara um helgina?
Næstsíðasta þáttaröðin í Krúnuleikunum (Game of Thrones) rennur skeið sitt á enda um helgina.

Næstsíðasta þáttaröðin í Krúnuleikunum (Game of Thrones) rennur skeið sitt á enda um helgina. Sjöunda serían af átta hefur verið þvílík rússíbanareið, enda ljóst að mikið þarf að gerast til þess að binda alla lausu endana sem fyrri þáttaraðir hafa fleygt upp í loft.

Á meðan þættirnir eru í sýningu verður að stíga varlega til jarðar. Öll samtöl verða að jarðsprengjusvæði og meira að segja saklausa setningu á borð við „þetta var rosalegt atriði!“ er hægt að túlka sem spennuspilli eða höskuld (e. spoiler).

Verra er þó þegar maður sjálfur hefur ekki séð þáttinn. Þá þarf að loka augum og eyrum til þess að leyndarmálum síðasta þáttar sé ekki hvíslað óvart, eins og lokaskori í fótboltaleik sem tekið var upp á segulband.

Svo langt hefur þetta gengið að síðasta þætti var lekið á netið löngu áður en hann átti að birtast. Lokaþátturinn er vonandi geymdur á rammgerðum stað, eins og fræhirslunni á Svalbarða.

Ég frábið mér alla slíka leka eða önnur form spillingar fyrir tímann. Ellegar mun ég eyðileggja eitthvað annað fyrir þeim sem spillir fyrir mér. Á ég að segja ykkur frá konunni í The Crying Game? Eða Keyser Söze?

Stefán Gunnar Sveinsson