[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Mannvirkin á Valbjarnarvellinum í Laugardalnum eru að grotna niður. Þau eru í eigu Reykjavíkurborgar en knattspyrnufélagið Þróttur hefur afnot af vellinum.

Fréttaskýring

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Mannvirkin á Valbjarnarvellinum í Laugardalnum eru að grotna niður. Þau eru í eigu Reykjavíkurborgar en knattspyrnufélagið Þróttur hefur afnot af vellinum. Tvennt virðist hægt að gera í stöðunni; að setja stórfé í endurbætur eða jafna mannvirkin við jörðu.

Að sögn Þóris Hákonarsonar, íþróttastjóra Þróttar, hefur félagið lagt til við íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur að mannvirkin á Valbjarnarvelli verði fjarlægð enda flest orðin ónýt. Þróttarar telja jafnvel að mannvirkin geti verið hættuleg fólki eins og þau eru orðin. Það er vilji Þróttara að æfingasvæði félagsins verði stækkað eftir að mannvirkin hafa verið fjarlægð.

Knattspyrnulið Þróttar spilaði heimaleiki sína á Valbjarnarvellinum um langa hríð en gerir það ekki lengur. Nú fara leikir Þróttar fram á gervigrasvellinum gegnt Laugardalshöllinni. Völlurinn heitir í dag Eimskipsvöllurinn. Áhorfendastúkan þar hefur verið endurbætt í sumar og er aðstaðan á vellinum orðin ágæt. Félagsheimili Þróttar/Ármanns er við hina hlið vallarins. Þar eru búningsklefar leikvangsins.

Grasið á Valbjarnarvelli er hins vegar í ágætu standi og æfa yngri flokkar Þróttar á vellinum að sögn Þóris Hákonarsonar. Eins var völlurinn notaður í sumar þegar hið fjölmenna alþjóðlega knattspyrnumót Rey Cup fór fram.

Framkvæmdir hófust 1977

Framkvæmdir við Valbjarnarvöllinn hófust fyrir réttum 40 árum, vorið 1977. Hann var svo tekin í notkun árið eftir. Í upphafi var þetta helsti frjálsíþróttavöllur borgarinnar. Hlaupabrautir og stökksvæði voru lögð gerviefni, sem var alger nýjung á Íslandi. Áður höfðu íslenskir frjálsíþróttamenn hlaupið og stokkið á malarbrautum.

Svo virðist sem lagning gerviefnisins hafi ekki tekist sem skyldi því undirlagið hleypti ekki vatni í gegn. Brautin varð því ójöfn og holótt. Að sögn Jóhannesar Óla Garðarssonar, fyrrverandi vallastjóra, var árið 1986 ráðist í endurbætur á kafla hlaupabrautarinnar stúkumegin. Var ráðist í þessar framkvæmdir vegna þessa að einn riðill Evrópumóts í frjálsum íþróttum fór fram hérlendis.

Síðar voru lagðar hlaupabrautir á aðalleikvang Laugardalsvallar og í framhaldi af því voru hlaupabrautirnar á Valbjarnarvelli fjarlægðar. Upphaflega hét völlurinn Fögruvellir. Síðar var farið að nefna hann eftir hinum landskunna frjálsíþróttakappa Valbirni Þorlákssyni. Nafnið kemur fyrst fram í Morgunblaðinu árið 1984, þar sem verið var að fjalla um knattspyrnukappleik sem fram fór á vellinum.

Staða Valbjarnarvallar og framtíð er óviss af ýmsum ástæðum, segir Hrólfur Jónsson, skrifstofustjóri hjá skrifstofu eigna og atvinnuþróunar hjá Reykjavíkurborg. „Um leið og mál skýrast verður farið í þetta mál,“ segir Hrólfur.

Ein af hugmyndunum um framtíðarhlutverk Valbjarnarvallar er að endurbyggja hann sem þjóðarleikvang í frjálsum íþróttum, fari svo að Laugardalsvöllur verði endurbyggður og þá eingöngu fyrir knattspyrnu.