Netsvik Óprúttinn náungi þóttist vera innkaupastjóri hjá Costco.
Netsvik Óprúttinn náungi þóttist vera innkaupastjóri hjá Costco. — Morgunblaðið/Friðrik
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Blaðamanni á Morgunblaðinu barst nýlega tölvupóstur frá „hr. Lee Clark“, sem kvaðst vera innkaupastjóri hjá Costco í Bretlandi.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Blaðamanni á Morgunblaðinu barst nýlega tölvupóstur frá „hr. Lee Clark“, sem kvaðst vera innkaupastjóri hjá Costco í Bretlandi. Ekki var mikið vandað til póstsins og sendandi sagður vera „COSTC WHOLESALES UKLTD“ með tölvupóstfangið „noreply@costco.co.uk“. Samt átti að senda svar á annað póstfang.

Clark þessi skrifaði að þeir hefðu sérstakan áhuga á framleiðsluvörum blaðamannsins og fyrirtæki sem birgi og óskaði hann eftir nánari upplýsingum um hvort tveggja.

„Innkaupastjórinn“ sagði að þeir áskildu sér 30 daga greiðslufrest og borguðu í lok mánaðar með bankamillifærslu inn á bankareikning fyrirtækisins.

Pósturinn var borinn undir Jökul Gíslason, rannsóknarlögreglumann hjá Lögreglu höfuðborgarsvæðisins. Hann vinnur m.a. að rannsókn á svindlpóstum og annars konar tölvusvindli. Hann sagði það liggja í augum uppi að um svikapóst væri að ræða því viðtakandinn vildi fá svar á tölvupóstfang hjá gmail-póstþjónustunni. Tekið skal fram að nafn Costco var í póstfanginu.

„Tilgangurinn hér er annaðhvort að búa til inneign eða fá vörur. Inneignin yrði þannig búin til að fyrirtækinu væru sendar falskar kvittanir þar sem er ofgreitt, en fengju síðan tilkynningu um að greiðsla sé fryst þar til að viðkomandi sendi endurgreiðslu á það sem er ofgreitt á reikning, oft Moneygram eða Western Union,“ sagði í svari lögreglunnar. Ólíklegt þótti að svindlarinn reyndi að fá sendar vörur, þótt það væri ekki útilokað.