Umskiptingar Frá vinstri: Jenný Lára Arnórsdóttir, Margrét Sverrisdóttir, Sesselía Ólafsdóttir, Vilhjálmur B. Bragason og Birna Pétursdóttir.
Umskiptingar Frá vinstri: Jenný Lára Arnórsdóttir, Margrét Sverrisdóttir, Sesselía Ólafsdóttir, Vilhjálmur B. Bragason og Birna Pétursdóttir.
Þorgrímur Kári Snævarr thorgrimur@mbl.is Nýr leiklistarhópur að nafni Umskiptingar hefur verið stofnaður á Akureyri og flytur sitt fyrsta leikrit, Fram hjá rauða húsinu og niður stigann , í kvöld kl. 20.

Þorgrímur Kári Snævarr

thorgrimur@mbl.is

Nýr leiklistarhópur að nafni Umskiptingar hefur verið stofnaður á Akureyri og flytur sitt fyrsta leikrit, Fram hjá rauða húsinu og niður stigann , í kvöld kl. 20. Leikhópinn skipa þau Birna Pétursdóttir, Jenný Lára Arnórsdóttir, Margrét Sverrisdóttir, Sesselía Ólafsdóttir og Vilhjálmur B. Bragason.

Fyllt í gapið

„Við búum öll hérna á Akureyri og í nágrenninu og erum öll menntuð í sviðslistum,“ segir Sesselía um leikhópinn, „og langaði til þess að vinna við það sem við erum menntuð í. Þess vegna ákváðum við að stofna eigin sviðslistahóp, enda hefur ekki verið starfandi leikhópur á Akureyri í svolítinn tíma. Við erum í augnablikinu að vinna með einleikjaformið. Fram hjá rauða húsinu og niður stigann er byggt á þremur einleikjum sem þrjú okkar skrifa saman. Næsta verk er líka einleikur sem Birna ætlar að skrifa. Svo erum við að hugsa um að gera barnaleikrit á næsta ári og jafnvel kvikmynd. Þetta er alls konar leiklist frekar en bara sviðslist. Menningarfélag Akureyrar stendur yfirleitt fyrir leiksýningum hér og svo eru náttúrlega gestaleiksýningar. Þau eru mjög fús til að fá okkur inn í samkomuhús en við ákváðum núna að nýta okkur að vera í Hlöðunni á Litla-Garði einfaldlega vegna þess að þar er svo stórskemmtilegt rými fyrir svona sýningu. Þar er meiri nánd við áhorfendur og allt passar rosalega vel við efni sýningarinnar.“

„Skemmtilegt verk um leiðinlegt fólk“

Verkinu lýsir Sesselía sem harmgamandrama, eða „skemmtilegu verki um leiðinlegt fólk“. Verkið fjallar um þrjá ófullkomna einstaklinga og baráttu þeirra við að fóta sig í fallvöltum heimi útlitsdýrkunar og óhaminna samfélagsmiðla. Deilt er á varhugaverðari anga vestrænnar nútímamenningar og gys gert að fáránleika persónanna.

„Einleikirnir eru fléttaðir saman,“ segir Sesselía. „Það eru svona fjórar, fimm mínútur á haus í hvert skipti. Svo er skipt á milli og þetta fléttast allt saman. Skiptingarnar verða örari þar til þetta rennur allt saman og tekur á sig aðra mynd en karakterarnir eru búnir að vera að halda fram frá upphafi. Við Birna og Vilhjálmur fórum hvert í okkar horn og ákváðum hvers konar manneskju okkur langaði til að vera með. Það myndaðist fyrir tilviljun sameiginlegt þema hjá okkur og allt small bara saman. Þemað er um sjálfshjálp og vitfirringu í tjáskiptum t.d. á samfélagsmiðlum og allt sem þjáir samfélagið okkar, tengingarleysið við annað fólk.“

Sesselía hrósar sérstaklega leikmynd sem Eva Björg Harðardóttir hannaði fyrir sýninguna. „Við erum með frábært fólk með okkur í þessu,“ segir hún.