Helgi Vífill Júlíusson helgivifill@mbl.is Aðalhagfræðingur Seðlabankans segir að vísbendingar séu um „möguleg vatnaskil í ferðaþjónustu“.

Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, segir að vísbendingar séu um „möguleg vatnaskil í ferðaþjónustu“.

Hann segir að meðalútgjöld á hvern ferðamann hafi minnkað frá lokum síðasta árs og greiðslukortatölur bendi til þess að svo verði áfram. Eins bendi tölur um fjölda gistinátta til þess að ferðamenn dvelji skemur hér á landi en áður. Þá gefi talning á brottförum erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll og fjöldi þeirra sem leitar að upplýsingum á Google er tengjast ferðalögum til Íslands til kynna að hægt hafi á fjölgun ferðamanna. Þetta kom fram á fundi Seðlabankans í gær þegar vaxtaákvörðun var kynnt.

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að samtökin hafi „talað um það um allnokkurt skeið að blikur séu á lofti í íslenskri ferðaþjónustu“.

Hún segir að ferðamaðurinn dvelji nú almennt skemur, hann spari við sig í mat og afþreyingu og ferðist minna um landið. Ferðamönnum hafi einnig farið fækkandi á ákveðnum landsvæðum.

„Staðreynd máls er að samkeppnishæfni Íslands sem ferðamannalands hefur minnkað síðustu misserin, styrking íslensku krónunnar síðustu ár, launahækkanir og aukinn fjármagnskostnaður fyrirtækjanna vegna aukinna innviðafjárfestinga eru þættir sem hafa haft veruleg neikvæð áhrif,“ segir hún.

Krafa um ábyggileg gögn

Ímynd áfangastaðarins Íslands er þó enn sterk, að hennar sögn, og tíðni flugferða til landsins mikil, sem skipti miklu. „En til að geta metið stöðuna rétt og tekið réttar ákvarðandi í framhaldinu, bæði fyrir greinina sjálfa en ekki síður fyrir stjórnvöld og sveitarfélög, er afar mikilvægt að opinberar tölur sé óvéfengjanlegar. Það að erlendir ferðamenn hafi verið oftaldir sem nemur a.m.k. 14% í sumar, eins og kom fram hjá Ferðamálastofu í vikunni, er mikið áhyggjuefni út af fyrir sig. Það hlýtur að vera skýlaus krafa ferðaþjónustunnar að opinber talnagögn séu traust og þess eðlis að hægt sé að undirbyggja ákvarðanir á þeim. Á ársgrundvelli má því áætla að skekkjan nemi hundruðum þúsunda ferðamanna,“ segir Helga.