Múslímahatur Stuðningsmaður Donalds Trump í Phoenix í Arizona áður en forsetinn ávarpaði stuðningsmenn sína þar í fyrrakvöld. Á öðru spjaldanna stendur: „Jesús Kristur ... hefur hraðsuðupott fyrir sérhvern dauðan múslíma“.
Múslímahatur Stuðningsmaður Donalds Trump í Phoenix í Arizona áður en forsetinn ávarpaði stuðningsmenn sína þar í fyrrakvöld. Á öðru spjaldanna stendur: „Jesús Kristur ... hefur hraðsuðupott fyrir sérhvern dauðan múslíma“. — AFP
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segist vera tilbúinn að hætta á að fjárlög verði ekki samþykkt, þannig að starfsemi ríkisstofnana stöðvist, reynist það nauðsynlegt til að reisa múr á landamærunum að Mexíkó.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segist vera tilbúinn að hætta á að fjárlög verði ekki samþykkt, þannig að starfsemi ríkisstofnana stöðvist, reynist það nauðsynlegt til að reisa múr á landamærunum að Mexíkó.

Þetta kom fram í máli forsetans þegar hann ávarpaði stuðningsmenn sína í Phoenix í Arizona í fyrrakvöld. Trump sakaði demókrata um að stofna öryggi Bandaríkjanna í hættu með því að leggjast gegn múrnum. Repúblikanar þurfa stuðning demókrata á þinginu til að ná fram fjárveitingu til múrsins en ólíklegt er að hún fái tilskilinn meirihluta atkvæða. Verði fjárlög ekki samþykkt stöðvast starfsemi margra ríkisstofnana 1. október.

Í ávarpinu varði Trump viðbrögð sín við ofbeldi hvítra kynþáttahatara í Charlottesville í Virginíuríki fyrr í mánuðinum. Forsetinn var harðlega gagnrýndur fyrir að reyna að koma sér hjá því að fordæma ofbeldi kynþáttahataranna, þeirra á meðal nýnasista, með skýrum hætti og fyrir að halda því fram að andstæðingar kynþáttahataranna ættu jafnmikla sök á ofbeldinu. Margir af forystumönnum repúblikana hafa tekið undir þessa gagnrýni.

Trump fór hörðum orðum um þátt fjölmiðla í málinu og sagði þá „sjúka“. Hann endurtók fyrstu yfirlýsingu sína eftir ofbeldið þegar hann sagði: „Við fordæmum eins kröftuglega og mögulegt er þessa svívirðilegu birtingarmynd haturs, fordóma og ofbeldis af hálfu margra.“ Í ræðunni í Arizona sleppti hann þremur síðustu orðunum, þeim sem hann var gagnrýndur fyrir.