Gröndal og Jóndi Tvö verk eftir vormenn íslenskrar teiknilistar. Vinstra megin má sjá fagurlitaða mynd af rjúpu eftir Benedikt Gröndal og hægra megin sumarlega auglýsingu fyrir Ísafoldarprentsmiðju eftir Jónda í Lambey.
Gröndal og Jóndi Tvö verk eftir vormenn íslenskrar teiknilistar. Vinstra megin má sjá fagurlitaða mynd af rjúpu eftir Benedikt Gröndal og hægra megin sumarlega auglýsingu fyrir Ísafoldarprentsmiðju eftir Jónda í Lambey.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Guðmundur Oddur Magnússon, kallaður Goddur, rannsóknarprófessor við Listaháskóla Íslands, heldur fyrirlestur á Kvoslæk í Fljótshlíð á laugardaginn, 26. ágúst, kl.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Guðmundur Oddur Magnússon, kallaður Goddur, rannsóknarprófessor við Listaháskóla Íslands, heldur fyrirlestur á Kvoslæk í Fljótshlíð á laugardaginn, 26. ágúst, kl. 15, um vormenn íslenskrar teiknilistar við lok nítjándu aldar og upphaf tuttugstu aldar.

En hverjir voru þessir vormenn íslenskrar teiknilistar? „Jú, sko, það er til svolítið sem heitir íslensk listasaga og þar er byrjað að tala um landslagsmálarann Þórarin B. Þorláksson og Ásgrím Jónsson og Jón Stefánsson og allt þetta lið, sem voru, merkilegt nokk, allir í einhvers konar annarri iðn. Þórarinn var t.d. bókbindari og byrjar ekki að mála fyrr en um fertugt,“ svarar Goddur.

Þar sem erfitt hafi verið að búa til prentmyndir á 19. öld hafi ákveðinn aðskilnaður orðið milli myndmáls og lesmáls. Þegar Sigurður Guðmundsson hafi farið út að læra að mála en svo snúið sér að fornleifafræði og stofnað Þjóðminjasafn Íslands hafi enginn í raun vitað hvernig víkingar eða umhverfi þeirra leit út á sínum tíma. „Menn voru að fatta svo margt á þessum tíma úr fornleifafræðum og aðalstefnan á þessum tíma er söguhyggja, menn voru að vísa í og búa til sviðsmyndir úr sögunni. Og þú gast ekki verið að spinna þetta upp úr engu,“ útskýrir Goddur.

Í kjölfarið hafi teiknarar komið til sögunnar, m.a. alþýðulistamenn á borð við Sólon Islandus með sínar jurtamyndir og Benedikt Gröndal með sínar fugla- og dýramyndir. „Benedikt notar þær sem vísindamaður en hann gerir líka mjög merkilegt spjald árið 1874 þar sem hið opinbera myndmál þjóðarinnar er eiginlega myndbirt, bæði fjallkonan og landvættirnar koma fyrst fram þar í þannig búningi að þjóðin fer að taka þetta upp.“

Tryggvi Magnússon fyrsti teiknarinn í fullu starfi

Goddur bendir á að á þessum tíma hafi ekki verið til nein stétt sem kallaðist teiknarar, eins og við þekkjum í dag. „Það er ekki fyrr en á níunda áratugnum sem grafískir hönnuðir fá nafn, menn hétu bara teiknarar alveg frá 1950 fram undir 1980,“ segir Goddur. Tryggvi Magnússon hafi verið fyrsti teiknari landsins í fullu starfi, fæddur árið 1900 en hann var einn af stofnendum Félags íslenskra teiknara árið 1953. Verk Tryggva ættu flestir landsmenn að kannast við. Hann myndskreytti t.d. hin sígildu jólasveinakvæði Jóhannesar úr Kötlum, teiknaði íslensku fornmannaspilin, drög að öllum sýslumerkjunum fyrir Alþingishátíðina 1930 og skjaldarmerkið íslenska.

„Milli 1930 og '40 kemur svo Rafskinna [auglýsinga-fléttivél í Austurstræti en Tryggvi var aðalteiknari hennar 1935-45, innsk.blm.] og svo fara menn að mennta sig og fyrsta kynslóðin sem gerir það eru systkinin Ágústa Pétursdóttir Snæland og Halldór Pétursson. Svo eru þarna sjálfmenntaðir menn eins og Jón Kristinsson, Jóndi í Lambey í Fljótshlíð,“ segir Goddur sem mun einmitt halda fyrirlestur í Fljótshlíðinni á laugardaginn um þessa vormenn, upphafsmenn íslenska myndmálsins. „Þeir festu fyrstir staði eins og Geysi og Heklu og síðar fara menn að mála svo mikið úr Fljótshlíðinni, menn komust ekki yfir Markarfljót fyrir tíma brúargerðar og jeppaferða,“ útskýrir Goddur. „Ég tek þá teiknara inn sem listasagan minnist lítið á, samasem ekki neitt.“

Fjallkonan notuð á nánast hvað sem er

Goddur segir aðgengi íslenskrar alþýðu að myndmáli á sínum tíma hafa verið í gegnum vörur, umbúðir, og ótrúlegt hversu mikið fjallkonan hafi verið notuð, m.a. á umbúðir fyrir lýsi, skósvertu, súkkulaði og kaffi. „Fjallkonan var notuð á allt saman vegna þess að það var verið að planta þessu í huga þjóðarinnar sem ákveðnu íkoni. Íkon eru svona lyklar inn í undirmeðvitundina, við fyllumst höfgi og þá sérstaklega þessi kynslóð sem vann sjálfstæðisbaráttuna.“

– Grafískir hönnuðir í seinni tíð hafa hrifist af þessum teiknurum og jafnvel reynt að líkja eftir verkum þeirra, eða hvað?

„Ja, ekkert reynt því við segjum stundum að þetta tilheyri rómantíkinni, þessi kynslóð, og gegn rómantíkinni kemur viðspyrna sem er raunsæi og þá koma svona myndir af verkamönnum við höfnina o.s.frv. Svo kemur módernisminn sem er að reyna að taka í burtu allt þetta fígúratífa og fer að vinna mikið með „grid system“ og Helveticu-leturgerðina og burtu með myndmálið. Síðan kemur póstmódernisminn sem snýst um að vinna með form og hugmyndir sem þegar eru fyrir hendi og þá vísa ég í Andy Warhol. Það var ekki Andy sem gerði myndina af Marilyn Monroe heldur tók hann hana og þetta er viðurkennt því við segjum líka um póstmódernismann að þar drápum við hinn eiginlega frumlega höfund. En þegar upp er staðið eru menn ekki svo frumlegir heldur fæðast menn inn í tíma og tíðaranda sem þeir geta ekkert að gert og verða á endanum týpískir en ekki endilega frumlegir,“ svarar Goddur.

Fyrirlestur Godds er öllum opinn og að honum loknum verður boðið upp á kaffi. Kvoslækur í Fljótshlíð er um 10 km frá Hvolsvelli og er ekið sem leið liggur inn Fljótshlíðina og framhjá Tumastöðum.