Í starfsmannakrókinn Á öllum betri vinnustöðum þarf að vera eitthvert leikfang fyrir starfsfólkið.

Í starfsmannakrókinn

Á öllum betri vinnustöðum þarf að vera eitthvert leikfang fyrir starfsfólkið. Gott fússball-borð getur bætt starfsandann, og píluspjald uppi á vegg gefur fólki tækifæri til að aftengjast tölvunum í örstutta stund og styrkja tengslin við vinnufélagana. Ef nóg er af plássinu má jafnvel koma fyrir snóker-borði, og hægt að ræða málin á meðan kúlunum er skotið í vasana.

Sá eini sem ekki er ánægður með svona leiksvæði er innanhússarkitektinn, enda falla skrifstofuleikföngin yfirleitt ekki að fagurfræðilegum pælingum um mínímalisma og feng-sjúí.

En þá er bara að kaupa Mackenrow-borðtennisborðið, og allir eru sáttir.

Eins og sjá má á myndinni er um að ræða voldugt húsgagn úr gegnheilum valhnotuvið, en appelsínugul rönd eftir borðinu endilöngu poppar mubluna upp.

Verðið hefur ekki fengist uppgefið og reikna má með að þurfa að leggja inn sérpöntun hjá hönnunarfyrirtækinu Jory Brigham sem á heiðurinn af hönnun borðsins. ai@mbl.is