Óskar Jóhannesson á Brekku í Biskupstungum fæddist á Skólavörðustíg 5 í Reykjavík 2. janúar 1919. Óskar lést á hjúkrunarheimilinu Fossheimum 9. ágúst 2017.

Foreldrar hans voru Jóhannes Guðlaugsson frá Þverá á Síðu, f. 12. maí 1891, d. 10. ágúst 1964, og Hólmfríður Bjarnadóttir frá Tjörn í Biskupstungum, f. 17. ágúst 1881, d. 18. desember 1933. Systkini Óskars voru Kristrún Olga, f. 9. maí 1917, d. 5. september 1918, og Jóhannes Guðlaugur, f. 22. apríl 1922, d. 14. maí 2013.

Tveggja ára flutti hann með foreldrum sínum á Nönnugötu 6, þar sem hann bjó uns hann flutti að Brekku 1946.

Óskar kvæntist Hildi Guðmundsdóttur, f. 11. ágúst 1925, d. 11. janúar 2013, þann 8. júní 1946, þann sama dag fluttust þau að Brekku þar sem þau bjuggu alla tíð.

Þeirra börn eru: 1) Hólmfríður, f. 20. júní 1947, fyrri maður hennar er Helgi Þórarinsson, þeirra börn eru: a) Jóhannes, f. 1967, kvæntur Helgu Maríu Jónsdóttur, þau eiga fjögur börn, b) Ragnhildur Petra, f. 1968, d. 1996, hún átti tvo syni og einn sonarson, seinni maður Hólmfríðar er Sigurður Guðmundsson, þeirra börn eru: c) Þuríður Ágústa, f. 1974, gift Sigurjóni Pétri Guðmundssyni, þau eiga fjögur börn, d) Hildur Ósk, f. 1978, gift Helga Jakobssyni, þau eiga fjórar dætur, e) Ólafur Jóhann, f. 1981, býr með Elisabeth Wernesjö, f) Áshildur Sigrún, f. 1983, býr með Andrési Má Heiðarssyni, þau eiga tvö börn, g) Guðríður Olga, f. 1986, gift Gunnari Hauki Ólafssyni Hauth, þau eiga eina dóttur, h) Anna Margrét, f. 1990, d. 2002. 2) Páll, f. 21. júlí 1951, fyrri kona hans var Margrét Oddsdóttir, þeirra börn eru: a) Oddur Óskar, f. 1977, kvæntur Bryndísi Reynisdóttur, þau eiga þrjú börn, b) Hekla Hrönn, f. 1979, gift Nils Guðjóni Guðjónssyni, þau eiga þrjú börn, c) Kristinn Páll, f. 1985, kvæntur Jónu Petru Guðmundsdóttur, þau eiga þrjú börn, seinni kona Páls er Lilja Gísladóttir og 3) María, f. 30. janúar 1957, fyrri maður hennar er Brian Boundy, sonur þeirra er a) Óskar Kristinn, f. 1983, kvæntur Elfu Dís Andersen, þau eiga þrjú börn, seinni maður Maríu er Halldór Árnason, þeirra synir eru: b) Árni Bæring, f. 1994, og Guðmundur Pétur, f. 1997.

Óskar gekk í Landakotsskóla og síðan í gagnfræðaskóla Ágústs Bjarnasonar. Eftir gagnfræðaskóla fór Óskar að Sámsstöðum í Fljótshlíð að kynna sér kornrækt, þar var hann vinnumaður í eitt og hálft ár. Hann gerðist atvinnubílstjóri og ökukennari og á stríðsárunum starfaði hann sem bílstjóri hjá ameríska Rauða krossinum. Eftir að Óskar flutti með Hildi að Brekku stunduðu þau búskap, fyrst með sauðfé og kýr, svo aðeins með sauðfé þar til þau sneru sér að ferðaþjónustu í Brekkuskógi. Einnig gerðu hjónin út vinnuvélar til vegagerðar o.fl. ásamt því að Óskar starfaði sem ökukennari.

Útför Óskars fer fram frá Skálholtsdómkirkju í dag, 24. ágúst 2017, og hefst athöfnin klukkan 14.

Elsku afi minn, þegar ég kveð þig eftir langan og ómetanlegan tíma er margs að minnast. Þú bjóst yfir einstöku jafnaðargeði og varst algjörlega laus við stress. Samt varstu alltaf vinnandi, börn löðuðust að þér og þú hafðir einhvern veginn lag á að gera alla hluti skemmtilega. Ég fæddist í stofunni hjá ykkur ömmu fyrir tæpum 50 árum og hef notið þeirra forréttinda að fá að vera með þér síðan. Ein af fyrstu minningum mínum er sú þegar ég fékk að staulast með þér út í fjárhús og reyna að aðstoða þig við gegningar, þar nefndir þú miðjugarðann Jóagarða mér til mikillar ánægju. Þar áttum við margar og ógleymanlegar stundir sem voru mér gott veganesti inn í lífið. Hestamennsku hafðir þú mjög gaman af og sagðir mér margar sögur af Brún hans pabba þíns, sem ég er skírður í höfuðið á, þann hest var langafi með í vinnu hjá Alþýðubrauðgerðinni við að keyra út brauð í Reykjavík. 11 ára keyrðir þú fyrst bíl hjá pabba þínum og þá fékkst þú óbilandi áhuga á ökutækjum og um leið og þú hafðir aldur til tókst þú öll ökuréttindi. Þú starfaðir svo sem atvinnubílstjóri og ökukennari í Reykjavík á rútum, leigubílum og sem bílstjóri hjá Rauða krossinum. 1946 keyptuð þið amma jörðina Brekku og fluttuð austur, það lýsti best óbilandi áhuga þínum á sveitinni að fara svona á móti straumnum þegar margt ungt fólk var að flytja úr sveitum landsins í uppganginn í Reykjavík. Það var mikil breyting á lífi ykkar að flytja að Brekku, þar var enginn vegur og enginn sími en það var rafstöð í heimalæknum sem dugði fyrir bæinn og til að hlaða batteríin í útvarpstæki nágrannanna. Ósjaldan minntust þið amma á hvað ykkur hefði verið tekið af mikilli ástúð og hlýju af öllum nágrönnum ykkar, nánast eins og þið væruð börnin þeirra, allir voru boðnir og búnir að rétta hjálparhönd ef mögulega þurfti. Allan þinn búskap á Brekku varstu með vörubíl og vélar samhliða búskapnum og fórst svo líka að kenna á bíl hérna í sveitinni. 1967 keyptir þú nýjan Deutz, 50 hestafla vél, hún var svo útbúin með hefiltönn og ámoksturstækjum. Þessa vél varstu með í vega- og verktakavinnu í fjölda ára; einnig var þetta aðalvélin í búskapnum og á ég mjög sterkar minningar af þér á henni. Deutzinn var búinn farþegasæti á vinstra afturbrettinu og þar fékk ég oft að sitja, sérstaklega þegar sláttur var í gangi, þú varst þá með ól sem þú bast mig fastan með. Þú sagðir að helst hefði verið að ná mér af traktornum ef ég sofnaði, svo fast sótti ég það að vera með þér á honum. Þannig að ungur smitaðist ég af óbilandi áhuga á vélum og tækjum. Mikil forréttindi voru það fyrir börnin mín að fá að alast upp með þér, þar sem þú varst alltaf til staðar fyrir þau ef eitthvað kom upp á og ómetanlegur viskubrunnur um lífsins gagn og nauðsynjar. Síðustu ár komumst við saman nokkrar ferðir til Spánar, þær voru á allan hátt ógleymanlegar fyrir mig, Helgu Maríu, börnin okkar og aðra samferðamenn. Elsku afi minn, ég kveð þig nú með mikinn söknuð í hjarta, ég veit og vona að þú hefur það gott á nýja staðnum.

Þinn

Jóhannes á Brekku.

Afi, elsku langafi minn, þú varst maður sem ætti að vera fyrirmynd allra. Þú lést ekkert stoppa þig; sama hvað kom upp þá varstu alltaf jákvæður og sigraðist á öllu.

Ein af mínum fyrstu minningum um þig er þegar ég kom yfir til þín og langömmu nánast daglega og við lituðum saman í litabók og brölluðum ýmislegt, alltaf ef það lá illa á mér hljóp ég yfir til ykkar ömmu og þar var dekrað við mig. Ég man líka vel eftir því þegar við röltum saman um Brekkujörðina að tína rúlluplast eða þegar við lékum okkur saman með glerstytturnar sem þú geymdir í kassa uppi á skáp í gamla bænum eða þegar þú tókst mig í ökutíma og kenndir mér allt sem ég kann í dag á bíl. Mér fannst alltaf gaman að vera með þér, þú varst svo drífandi og kenndir mér svo ótrúlega margt, mér leið alltaf vel í návist þinni. Þær eru líka ofarlega í huga mér allar Spánarferðirnar sem við fórum í saman, þegar við syntum saman í Miðjarðarhafinu eða þegar við hoppuðum saman út í djúpu laugina í sundlauginni og þú fórst síðan að æfa þig eftir sundið að hlaupa kringum sundlaugina til þess að halda þér í formi og þetta gerðir þú allt þegar þú varst kominn yfir nírætt.

Það er óhætt að segja að þú sért fyrirmyndin mín og verður alltaf. Þú munt alltaf eiga stóran hlut í hjarta mér og ég mun oft hugsa til þín.

Þín

Rósa Kristín Jóhannesdóttir.

Elsku langafi, takk fyrir að vera besti langafi í heimi. Það var mjög gaman að vera með þér á Spáni. Þá fórum við saman í sundlaugina þar sem þú kenndir mér að láta mig fljóta, við spiluðum veiðimann og margt fleira. Það var líka gaman að fara með þér í gönguferðir heima á Brekku og sækja arfa til að gefa hænunum. Svo gerðum við líka bíómynd sem við sömdum og lékum í saman og Rósa Kristín hjálpaði okkur. Ég á fullt af skemmtilegum minningum um þig.

Ég sakna þín og vona að þér líði vel.

Þín

Hildur María Jóhannesdóttir.

Mig langar til að minnast föðurbróður míns, Bjarnleifs Óskars, kallaður Óskar á Brekku.

Óskar og pabbi minn Jóhannes, f. 22.4. 1922, dáinn 14.5. 2013, ólust upp á Nönnugötu 6 í 101 Reykjavík. Húsið byggði faðir þeirra, Jóhannes Guðlaugsson. Á meðan á byggingu stóð bjó Óskar fyrstu árin á Skólavörðustíg 3 ásamt foreldrum sínum. Auk pabba míns Jóhannesar eignuðust föðuramma mín og -afi dóttur, Kristrúnu Olgu, f. 9. maí 1917. Hún dó 5. september sama ár.

Ungir misstu bræðurnir móður sína Hólmfríði Bjarnadóttur og var missir þeirra mikill. Pabbi var 11 ára er hún lést 18. desember 1933 og Óskar 14 ára, nýfermdur. Jóhannes faðir þeirra sá um uppeldi þeirra bræðra upp frá því og stóð sig með eindæmum vel, m.a. sagði faðir minn frá því að enga ölmusu vildi afi þiggja, hann ætlaði að sjá alfarið um uppeldi drengja sinna. Mikill var þó söknuður að móður þeirra og alla tíð töluðu þeir bræður mikið um þennan missi.

Ég heimsótti Óskar frænda minn í júní 2013, stuttu eftir að faðir minn Jóhannes lést. Með í för var ungur sonur minn, Jóhannes Jökull, þá 18 mánaða gamall. Óskar vissi af tilvonandi heimsókn og það var unun ein að koma til hans með litla drenginn, þeir spjölluðu saman, Óskar var svo duglegur að tala við drenginn og einnig mig, yngstu bróðurdóttur sína. Þekking hans á nútímatækni og hversu góður hann var í tilsvörum og viðræðum almennt, orðinn þá 94 ára, var alveg yndislegt að fá að upplifa. Við spjölluðum um margt og ekki síður var gaman að koma tveimur árum síðar ásamt Sigþrúði systur minni, en þá voru með í för einnig dætur mínar tvær. Aftur var svo gott að tala við gamla manninn.

2. janúar sl. hringdum við systur í hann á 98 ára afmælisdegi hans. Hann þakkaði okkur afskaplega vel fyrir, mig langaði svo að bruna austur og heimsækja hann, hann ljómaði í röddinni en sagði okkur frekar að fara varlega og vera heimavið, koma frekar í sumar, sem svo því miður aldrei varð af.

Mínar innilegustu samúðarkveðjur til barna Óskars, tengdabarna og afkomenda allra.

Guð blessi minninguna um góða og hjartahlýja bræður, Jóhannes og Óskar.

Rósa Jóhannesdóttir.

Sumt fólk lifir langa ævi. Væntingin er að líkaminn sé liðugur. Hreyfingar sem hjá ungu fólki. Andinn sé réttur og í samræmi við raunveruleikann. Þetta er sú öldrun sem eftirsótt er, en fáir öðlast.

Sá sem jarðsettur er í dag, Óskar Jóhannesson, Brekku, Biskupstungum, öðlaðist þessa náð, varð nærri 99 ára nú við andlát.

Hann var kurteis og tillitssamur í framgöngu, sem vakti athygli fólks, einkanlega ungmenna og barna, sem drógust að honum. Hann sýndi viðmælendum sínum afslappaðan áhuga og virðingu svo af bar og er mörgum minnisstæður, sem áttu einhver samskipti við hann.

Við hjónin kynntumst Óskari þegar dóttir okkar, Helga María, giftist Jóhannesi dóttursyni hans. Óskar kom oft á heimili okkar í ýmsar samkomur fjölskyldunnar og var ávallt notalegur og jákvæður í öllu viðmóti og okkur til gleðiauka á allan hátt.

Óskar fór með okkur þrisvar í sólarferð til Spánar, fyrst 93 ára og síðast 96 ára. Það vakti athygli að svo aldraður maður færi í slíkar ferðir. Hann naut þeirra ferða, synti í Miðjarðarhafinu og naut andrúmsloftsins afar vel. Hann var svo afslappaður, að hann gat flotið í sjónum.

Í síðustu ferðinni til Spánar borðuðum við kvöldverð á mjög fínum veitingastað, Picasso. Þar þjónaði okkur maður af rússneskum ættum frá Úkraínu. Óskar veitti manninum athygli og ræddu þeir saman á góðri ensku, sem Óskar var vel fær um. Sýndi Óskar mikla þekkingu á málefnum Krímskaga, sem vakti aðdáun þjónsins. Aldur Óskars kom til tals og fannst þjóninum mikið til um, sem og kunnáttu Óskars á sögu Úkraínu.

Þegar við yfirgáfum veitingastaðinn kom allt starfsfólk staðarins og myndaði heiðursvörð fyrir Óskar og þakkaði honum komuna með kossum og faðmlögum. Þessi uppákoma starfsfólks var óvanaleg á þessu virðulega veitingahúsi. Ekki var að sjá að þar færi 96 ára gamall maður, teinréttur og virðulegur. Svona var Óskar í margmenni, sannur heimsborgari.

Blessuð sé minning hans.

Rósa og Jón Hólm

Stefánsson, Gljúfri.

Í himinroða og kyrrð ágústkvöldsins kvaddi Óskar á Brekku jarðneskt líf. Lauk þar með löngu lífshlaupi sem í mínum huga einkenndist af vinnusemi, þrautseigju, mannvirðingu og hlýju. Óskar fæddist í Reykjavík og ólst upp á Nönnugötu 6. Hann gekk í Landakotsskóla og síðan í gagnfræðaskóla Ágústs Bjarnasonar. Óskar tók snemma meirapróf því næga atvinnu var að fá við akstur á stríðsárunum. Hann réð sig sem bílstjóri hjá bandaríska Rauða krossinum og í gegnum það starf kynntist hann Hildi, móðursystur minni. Þau giftu sig 8. júní 1946 og fluttu á brúðkaupsdaginn að Brekku í Biskupstungum en Óskar hafði fest kaup á jörðinni ásamt föður sínum fyrr það sama ár. Þar hófu þau búskap við frumstæðar aðstæður. Það var ekki vegur að bænum þeirra, lækir óbrúaðir og enginn sími. Rafmagn höfðu þau þó fram yfir margan annan, því rafstöð hafði verið sett upp í bæjarlæknum árið 1929. Óskar og Hildur báru alla tíð mikið lof á sveitunga sína sem tóku vel á móti þeim og vildu allt fyrir þau gera. Þau gengu inn í samfélag sem stóð saman í gegnum þykkt og þunnt. Aðstæður breyttust hægt og bítandi og ungu hjónin tóku ríkulegan þátt í uppbyggingu og framþróun í sveitinni. Þau stunduðu búskap, fyrst með kindur og kýr, síðan aðeins með kindur þar til þau sneru sér að ferðaþjónustu og voru þar frumkvöðlar. Einnig starfaði Óskar sem ökukennari og við vegavinnu.

Ég kom oft í Brekku, allt frá frumbernsku, stundum ásamt þremur systrum mínum og foreldrum en einnig ein á ferð. Þar var ég innilega velkomin, umvafin hlýju og kærleika Óskars, Hildar og barnanna þeirra þriggja, Fríðu, Palla og Maju. Ég fékk að taka þátt í sveitastörfunum, handlangaði hjá Óskari í girðingarvinnu, setti niður kartöflur, rakaði dreifina í heyskap, sinnti hænsnunum, tók þátt í rúningi o.fl. Óskar var mjög vinnusamur og ósérhlífinn. Í mesta annríkinu gat hann verið þungur á brún en annars var hann mikið ljúfmenni sem aldrei lét styggðaryrði af munni falla um nokkurn mann. Hann var kvikur í hreyfingum og í mjög góðu formi allt fram á efstu ár. Hann var mikill náttúruunnandi og bar djúpa virðingu fyrir sköpuninni. Mér er minnisstætt eitt síðkvöld er fjölskyldan hamaðist í heyskap, ég leit upp í roðablá skýin og sagði: „Sjáðu hvað himinninn er flottur.“ Óskar var grafalvarlegur og sagði: „Maður notar ekki slíkt orðalag um náttúruna og sköpunina, himinninn er fagur.“

Óskar var hjartahlýr, þolinmóður og skilningsríkur. Hann hafði lag á að mæta börnunum þar sem þau voru stödd og gaf mikið af sér. Hann var óþreytandi að segja þeim sögur, sýna þeim dýrin og annað í sveitinni sem hann vissi að myndi gleðja þau. Gaf sér alltaf tíma. Allir stórir sem smáir fengu mikið út úr því að heimsækja hann og Hildi að Brekku og mitt lán var að tilheyra þeim hópi.

Nú er komið að leiðarlokum eftir langt og viðburðaríkt líf. Með djúpri virðingu og þakklæti kveð ég Óskar, minn kæra vin. Sé hann Guði falinn.

Bergþóra Baldursdóttir.

Elsku Óskar, nú er komið að kveðjustund. Þú bjóst yfir miklu jafnaðargeði og lést ekkert raska ró þinni. Þú hefur átt langa og farsæla ævi eins og þú sagðir að móðir þín hefði verið búin að spá fyrir um. Hún var þér greinilega mjög kær og varst þú á brjósti til sjö ára aldurs. Þú talaðir oft um það, sérstaklega ef dætur mínar voru með tvær fléttur, að það minnti þig á mömmu þína og að þið bræðurnir hafið átt sitt hvor sitt brjóstið og hvor sína fléttuna, það var þér þungbært að missa hana þegar þú varst tæplega 15 ára gamall. Þú hefur oft lent í óhöppum og slysum sem einhverjir hefðu látið stoppa sig en uppgjöf var eitthvað sem þú tamdir þér ekki heldur var alltaf viðhorfið að drífa sig af stað og koma sér í form, þú varst alveg fram á síðasta dag mjög meðvitaður um hversu mikilvæg hreyfing og mataræði eru fyrir heilsuna. Þó líkaminn hafi verið farinn að svíkja þig síðasta aldursárið var hugurinn alltaf jafn ungur og ferskur, þú skildir ekki hvað þú ættir erfitt með að koma þér í form, að þú værir að verða gamall var ekki til í þínum huga. Þú fylgdist vel með fréttum og veðurfréttum og ef við misstum af fréttum færðir þú okkur helstu fréttir við kvöldmatarborðið. Sjónin var aðeins farin að svíkja þig og ég man að fyrir ca. tveimur árum spurði ég þig hvort þú myndir vilja fá hljóðbækur en þú vildir það ekki því það væri betri þjálfun fyrir heilann að lesa sjálfur en hlusta á aðra lesa.

Þú hafðir mikinn áhuga á hestum og fylgdist vel með hvernig gengi hjá börnunum okkar Jóa í hestamennskunni. Þú varst líka mikill vélamaður og alveg fram á síðasta dag vildir þú vita hvar Jói væri að vinna, við hvað og með hvaða tæki.

Eftir að Hildur lést í janúar 2013 varst þú mikið með okkur, þú varst alltaf jákvæður að koma með okkur hvert sem er og eru nú ómetanlegar samverustundirnar á Spáni, í hjólhýsinu, í laufabrauðsskurði, í ferðum til Reykjavíkur eða bara við eldhúsborðið.

Takk fyrir góð kynni, þau eru mér mjög kær.

Helga María Jónsdóttir.