Í gærdag fór hiti í fyrsta sinn í ágústmánuði þetta árið í 20 gráður. Þetta var í Mörk í Landsveit þar sem er sjálfvirk veðurathugunarstöð. Í gær var heiðríkja á Suðurlandi og sólin sendi heita geisla sína yfir landið.

Í gærdag fór hiti í fyrsta sinn í ágústmánuði þetta árið í 20 gráður. Þetta var í Mörk í Landsveit þar sem er sjálfvirk veðurathugunarstöð. Í gær var heiðríkja á Suðurlandi og sólin sendi heita geisla sína yfir landið. Hvergi var veðið betra en einmitt í uppsveitunum fyrir austan fjall og segja má að þær slóðir hafi verið heitur reitur. Þannig mældist 19,6 stiga hiti á Hjarðarlandi í Biskupstungum og 19,2 stig í Árnesi í Hreppum. Niðri við ströndina gætti hins vegar hafgolu og hitastig þar náði því ekki sömu hæðum.

„Menn væntu þess að einhvern tíma í mánuðinum myndi 20 stiga múrinn falla, eins og oftast gerist í ágúst,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur. Veðurspá næstu daga segir hann vera góða, en á laugardag snúist til suðaustlægra átta svo smám saman fari að rigna um landið sunnanvert. Útlitið norðanlands sé hins vegar ágætt – hvort sem litið sé til ferðalaga eða útiverka sem sinna þarf í sumarlok. sbs@mbl.is