Stærsta einstaka eign norska olíusjóðsins er hlutabréf í Apple sem metin eru á 7,4 milljarða dala. Sjóðurinn lét til sín taka á aðalfundi fyrirtækisins.
Stærsta einstaka eign norska olíusjóðsins er hlutabréf í Apple sem metin eru á 7,4 milljarða dala. Sjóðurinn lét til sín taka á aðalfundi fyrirtækisins. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Richard Milne í Ósló Norski olíusjóðurinn á að meðaltali 1,3% í hverju einasta skráða hlutafélagi í heiminum. Eftir því sem hann stækkar leggur hann meiri áherslu á að vera ábyrgur fjárfestir sem kýs gegn stjórnum stórra fyrirtækja þegar svo ber undir.

Það sem af er þessu ári hefur stærsti fjárfestingarsjóður heims í ríkiseigu notað atkvæðisrétt sinn til að andmæla á aðalfundum sumra stærstu tæknifyrirtækja heims, s.s. Apple, Alphabet og Facebook. Sjóðurinn hefur sýnt andóf gagnvart ýmsu, allt frá tillögum um eitt atkvæði á hvern hlut yfir í launaójöfnuð á milli kynjanna.

Norski olíusjóðurinn, sem á eignir fyrir 975 milljarða dala, hefur greitt atkvæði gegn tillögum stjórnar á aðalfundum hjá sjö af þeim tíu fyrirtækjum sem sjóðurinn hefur fjárfest mest í. Ef atkvæðagögn eru skoðuð sést að þar á meðal eru Amazon, Novartis, Roche, HSBC og Johnson & Johnson.

Mótmælt hjá Alphabet og Apple

Harðast mótmælti sjóðurinn á aðalfundi Alphabet, móðurfélags Google, en þar greiddi hann atkvæði gegn tillögum stjórnar í hvorki meira né minna en sjö skipti. Tillögurnar snerust meðal annars um kauprétt á hlutabréfum, launakjör æðstu yfirmanna og hvort stíga ætti skref sem tryggði að hver hlutur færi með eitt atkvæði.

Stærsta einstaka eign sjóðsins er hlutabréf hans í Apple, metin á 7,4 milljarða dala. Þar greiddi sjóðurinn atkvæði með tillögu um að hluthafar gætu sjálfir tilnefnt fulltrúa í stjórn, og hjá Facebook var sjóðurinn fylgjandi því að eitt atkvæði skyldi fylgja hverju hlutabréfi, að valinn yrði óháður stjórnarformaður og að gerð yrði úttekt á launamun kynjanna.

Virkur hjá tæknifyrirtækjum

Olíusjóðurinn á að meðaltali 1,3% í hverju einasta skráða hlutafélagi í heiminum. Eftir því sem sjóðurinn stækkar virðist sem hann leggi meiri áherslu á að vera ábyrgur fjárfestir.

Það gerist reglulega að sjóðurinn kjósi gegn stjórnum stórra fyrirtækja, en langvarandi mótbárur sjóðsins á fundum stóru tæknifyrirtækjanna skera sig úr. Hjá rafbílaframleiðandanum Tesla greiddi sjóðurinn í tvígang atkvæði gegn tillögum stjórnarinnar, bæði hvað varðar laun og val á stjórnarmönnum. Hjá Amazon greiddi sjóðurinn atkvæði gegn því að Wendell Weeks, forstjóri Corning, fengi stjórnarsæti.

Trond Grande, aðstoðarframkvæmdastjóri olíusjóðsins, tjáði Financial Times að sjóðurinn kæmi eins fram við tæknifyrirtæki og önnur fyrirtæki. En hann bætir við: „Það má sjá að þetta eru tiltölulega ung fyrirtæki sem hafa vaxið hratt og orðið að stórfyrirtækjum á skömmum tíma. Augljóslega kann að þurfa að gera ákveðnar breytingar á vinnubrögðum þegar fyrirtæki fara á hlutabréfamarkað og samsetning hluthafahópsins breytist.“

Ólík viðhorf til stjórnarhátta

Hjá mörgum þekktum bandarískum fyrirtækjum hefur sjóðurinn látið sig varða atriði á borð við að aðskilja störf stjórnarformanns og forstjóra, og að veita hluthöfum rétt til að tilnefna stjórnarmenn. Grande viðurkennir að stundum stangist afstaða sjóðsins á við viðteknar venjur í Bandaríkjunum. „Þau gildi sem við teljum að eigi að einkenna góða stjórnunarhætti eru stundum frábrugðin hefðbundnu viðhorfi til fyrirtækjarekstrar í Bandaríkjunum.“

Á meðal þeirra tíu fyrirtækja sem sjóðurinn hefur fjárfest mest í greiddi sjóðurinn atkvæði gegn tilteknum stjórnarmönnum hjá bæði HSBC og Johnson & Johnson, og greiddi atkvæði með óháðum stjórnarformanni hjá síðarnefnda fyrirtækinu. Atkvæði sjóðsins gegn svissnesku lyfjaframleiðendunum Roche og Novartis höfðu meira að gera með tæknileg atriði sem snertu hvaða mál yrðu rædd á aðalfundunum. Sjóðurinn kveðst í heildina hafa greitt atkvæði um 80.000 tillögur sem lagðar voru fram á aðalfundum á öðrum ársfjórðungi.

Pólitísk umræða fram undan

Þessi tíðindi komu fram þegar greint var frá því að sjóðurinn hefði skilað 2,6% arðsemi á öðrum ársfjórðungi. Ávöxtun hlutabréfasafnsins var 3,4% og arðsemi skuldabréfasafnsins 1,1%.

Að öllum líkindum verður mikið rætt um framtíð sjóðsins í aðdraganda norsku þingkosninganna sem haldnar verða í næsta mánuði. Þarf næsta ríkisstjórn Noregs að taka veigamiklar ákvarðanir um hvort leyfa eigi sjóðnum að fjárfesta í innviðaframkvæmdum og framtakssjóðum, og hvort aðskilja þurfi starfsemi sjóðsins og Norska seðlabankans.