Davíð Hjálmar Haraldsson birti á Leir þessa skemmtilegu ferðasögu í Fjörður norður: „Möðruvallaklaustursprestakallsskemmtiferð út í Fjörður, en svo nefnast eyðifirðirnir Hvalvatns- og Þorgeirsfjörður.

Davíð Hjálmar Haraldsson birti á Leir þessa skemmtilegu ferðasögu í Fjörður norður:

„Möðruvallaklaustursprestakallsskemmtiferð út í Fjörður, en svo nefnast eyðifirðirnir Hvalvatns- og Þorgeirsfjörður. Sem alþjóð veit eru þeir á skaganum milli Eyjafjarðar og Skjálfanda. Í Hvalvatnsfjörð er torleiði; erfiður jeppavegur, en í Þorgeirsfjörð þarf að ganga. Með kórnum fóru nokkrir áhangendur og taldi hópurinn um 30 manns. Fróður leiðsögumaður var og með í för. Óvandaðir kynnu að halda því fram að þarna sé ekkert að sjá nema ógreinileg tóftarbrot en því fer víðs fjarri, það sáum við glöggt er við gengum í ágætu veðri yfir í Þorgeirsfjörð. Túnið að Þönglabakka í Þorgeirsfirði er fádæma óslétt, það fékk hópurinn að reyna. Sagnir eru af því að fyrrum hafi þar í túninu fótbrotnað köttur.

Gengum við og gengum milli fjarða.

Við götuslóða fannst ein hrunin varða

og fleira markvert fyrir augu bar

en fæst af okkur sáu hvar það var.

Þeir sem ekki fóru í gönguferðina tóku því rólega og sleiktu sólskinið í bollum og skjólgóðum hvömmum. Sumar kórkvenna huguðu að berjalyngi.

Í skini sólar sunnan undir hólum,

í síðum buxum eða þykkum kjólum,

fljóðin vita hversu indælt er

að eiga frjálsa stund og tína ber.

Auðvitað tók kórinn lagið í ferðinni, var það afar áhrifamikið þarna við ystu höf.

Sprungu björg og bergmálaði sjórinn

er brjóstið þandi Möðruvallakórinn

en þvílík firn – og það ég votta rétt –

að Þönglabakkatún varð rennislétt.

Eins og áður sagði er vegarslóðinn út í Fjörður mjög erfiður. Bílstjórinn í mínum bíl lét það þó ekki á sig fá og lagði að baki hverja hindrunina af annarri.

Ekillinn minn ók af hreinni snilli

á ofsahraða, gaf svo í á milli.

Að ferðalokum fannst á víð og dreif

flest það sem hann undan bílnum reif.

Í lok ferðar borðuðum við kvöldverð á Grenivík. Voru menn matlystugir og jók á svengdina að nokkur bið varð á að matur væri fram borinn. En góður var maturinn og öll var ferðin hin ánægjulegasta.

Í Fjörðum ganga fleiri þúsund rollur,

um fjallaskörðin leynist gróður hollur

og gimbill fyllir görn og mjúka vömb.

Á Grenivík við átum fjórtán lömb.“

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is