Íslendingur Í leiðangri Bændaferða við skilti í Garðabyggð í Norður-Dakota. Nafn þessa staðar er komið frá Stephani G. Stephanssyni.
Íslendingur Í leiðangri Bændaferða við skilti í Garðabyggð í Norður-Dakota. Nafn þessa staðar er komið frá Stephani G. Stephanssyni. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
• Dagstund í Norður-Dakota • Skáldskapur var haldreipi • Mountain er íslenskur bær • Skáld og landkönnuður

Í VESTURHEIMI

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Sérstaða Íslendinga í þeim stóra hópi Evrópumanna sem námu land á sléttum Norður-Ameríku undir lok 19. aldar var sú ríka bókmenntahefð og þekking sem þeir höfðu og fluttu með sér í ný heimkynni. Skáldskapurinn var haldreipi íslenskra vesturfara í nýrri höfn,sem áttu um margt erfitt uppdráttar, enda búskaparskilyði þröng í landi þar sem björt framtíð átti að bíða.

Íslenskt kaffibrauð

Þessa menningu mátti glöggt greina þegar blaðamaður Morgunblaðsins fór um Norður-Dakotaríki í Bandaríkjunum nýlega. Minni skáldanna er haldið á loft, starfandi er Íslendingafélag og á þess vegum er í þorpinu Mountain haldin Íslendingahátíð sem jafnan er fyrsta laugardag ágústmánaðar. Þar var margt sem minnti á gamla landið; þjóðlegt kaffibrauð eins og kleinur, vínartertur og pönnukökur og fólk af íslenskum ættum sem var áfram um að segja af sér og sínum. Flestir í þeim hópi áttu rætur á Norður- og Austurlandi þaðan sem flestir íslenskir vesturfarar voru.

Vesturferðir frá Íslandi hófust um 1870 og fluttu flestir þá til Kanada, það er á svæðið við vestanvert Winnipeg-vatn, þar sem er Nýja Ísland. Þar var brösóttur búskapur fyrstu árin og því tóku allmargir sig upp og hófu landnám í Norður-Dakota, í Rauðárdal nyrst í ríkinu og nærri landamærunum að Kanada. Þar eru ágæt skilyrði til búskapar, víðlendar sléttur sem henta vel svo sem til kornyrkju og annars landbúnaðar.

Um margt er Mountain, 80 manna sveitaþorp, Íslendingabær því æði margir sem þar búa rekja ættir sínar til landsins. Má segja að þetta fámennasta ríki Bandaríkjanna, þar sem íbúarnir eru innan við ein milljón, sé Íslendingaslóð, á sama hátt og margir afkomendur innflytjenda frá öðrum norrænum þjóðum búa í Wisconsin- og Minnesotaríkjum.

Stephan, Káinn og Vilhjálmur

Þrír nafntogaðir Íslendingar tengjast Norður-Dakota.

Skagfirðingurinn Stephan G. Stephansson, eitt af íslensku öndvegisskáldunum, flutti með sínu fólki, þá úr Bárðardal, til Vesturheims árið 1873, þá tæplega tvítugur. Hann bjó fyrstu fimm árin í Wisconsin en fór síðar til Norður-Dakota þar sem heita Garðar. Sú nafngift er frá Stephan G. komin og hefur vísan til Garðars Svavarssonar, sænska landkönnuðarins sem nokkru fyrir formlegt landnám Íslands hafði vetursetu við Skjálfanda. Á þessum slóðum byggði Stephan sér bæ, sem tekinn var ofan eftir að skáldbóndinn og fjölskylda hans fluttu til Alberta-fylkis í Kanada.

Kristján Níels Jónsson, betur þekktur sem skáldið Káinn, bjó í Norður-Dakota. Hann flutti þangað ungur frá Akureyri. Skáldskap Káins þekkja margir; þá einkum gamanvísur og -ljóð svo sem Ævintýri á gönguför sem byrjar á línunni: „Úr fimmtíu senta glasinu ég fengið gat ei nóg“ og er þekktur rútubílasöngur. Minnismerki um Káinn, sem lést 1936, er á gröf hans í Thingvallakirkjugarði

Mikil afrek

Vilhjálmur Stefánsson landkönnuður fæddist í Kanada árið 1879 en foreldrar hans voru íslenskt búandfólk úr Eyjafirði sem fóru til fyrirheitna landsins árið 1876 – en það ár fluttu um 1.100 Íslendingar til Kanada. Var í því sambandi jafnan talað um „stóra hópinn“.

Búskapur foreldra Vilhjálms við Winnipeg-vatn gekk ekki í samræmi við væntingar og því fluttu þeir til Dakota. Vilhjálmur sem fór til náms átti síðan eftir að skapa sér nafn með ferðum sínum til heimskautanna, sem voru að mestu ókönnuð. Leiðangrar hans á póla og um ísbreiður þóttu mikið afrek á sínum tíma og hafa í mörgu verið leiðarhnoða í rannsóknum nútímans á norðurslóðum og loftslagsbreytingum - sem að margra mati eru mál málanna nú um stundir.