„Vaninn er að fastráðnir starfsmenn eigi tvö sett, og gott að huga að endurnýjun árlega. Buxurnar og skyrturnar þarf að skipta um oftar, en jakkarnir geta enst lengur,“ segir Þórhildur Vilhjálmsdóttir.
„Vaninn er að fastráðnir starfsmenn eigi tvö sett, og gott að huga að endurnýjun árlega. Buxurnar og skyrturnar þarf að skipta um oftar, en jakkarnir geta enst lengur,“ segir Þórhildur Vilhjálmsdóttir. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er gaman að byrja vinnudaginn á að klæða sig í glæsilegan einkennisbúning. Vinnufatnaðurinn þarf að fara fólki vel, passa við innréttingar og litaval, og vitaskuld vera þægilegur líka.

Það getur skipt miklu máli hvernig fólk klæðir sig við vinnu sína. Þórhildur Vilhjálmsdóttir segir glæsilegan vinnufatnað t.d. bæta ímynd fyrirtækja og auka starfsánægju.

Þórhildur er klæðskerameistari og sölustjóri starfsmannafatnaðar hjá Eddu heildverslun. Heildverslunin á sér 85 ára sögu og hefur einkum flutt inn rúmfatnað og sængurfatnað fyirr hótel. Á síðasta ári bættist starfsmanafatnaður við úrvalið, og þá aðallega fatnaður fyrir starfsmenn hótela, veitingastaða og heilbrigðisstofnana. „En fyrirtæki af öllum toga kaupa starfsmannafatnað hjá okkur, s.s. bílaleigur, opinberar stofnanir og flugfélög,“ segir Þórhildur og bætir við að stundum ákveði starfsmennirnir það jafnvel sjálfir að samræma hjá sér klæðnaðinn: „Hingað kom t.d. hópur kvenna sem starfa í banka og keyptu sér dragtir fyrir vinnuna. Þær fá fatapening hjá bankanum en með því að koma til okkar geta þær gert mjög góð kaup og vinnustaðurinn fær heildstæðara yfirbragð.“

Gera kröfu um flott útlit

Þegar fyrirtæki koma til Eddu heildverslunar í leit að starfsmannafatnaði segir Þórhildur að fyrst af öllu sé spurt um útlitið. „Íslendingar eru mjög kröfuharðir hvað þetta varðar og hefur okkur tekist vel að mæta því,“ segir hún og bætir við að stjórnendur vilja fatnað sem er í senn glæsilegur og nýtískulegur. „Þægindin skipta líka máli og því er fatnaðurinn sem við seljum gerður úr léttum og teygjanlegum efnum. Fatnaðinn má þvo í þvottavél svo ekki er nauðsynlegt að senda fötin hreinsun.“

En er ekki vandasamt að velja rétta klæðnaðinn fyrir heilan vinnustað? Fólk hefur jú ólíkan smekk og flík sem fer einum vel gæti farið öðrum illa. „Þess vegna bjóðum við upp á breitt úrval bæði í sniðum og stærðum,“ segir Þórhildur. „Konurnar geta líka yfirleitt valið hvort þær klæðast kjól, pilsi eða buxum. Oftast finnur fólk hárrétta stærð og getur gengið út með vinnufatnað sem passar fullkomlega, en annars gerum við allar lagfæringar hratt og vel á saumastofu og lögum hverja flík að starfsmanninum.“

Samræmt yfirbragð

Starfsmannafatnaður gegnir margþættu hlutverki, og getur t.d. hjálpað viðskiptavinum að greina í sundur starfsmenn sem vinna við ólík störf. „Algengt er t.d. að hótelin láti fólkið sem starfar í móttökunni klæðast formlegum gráum eða dökkbláum fatnaði og hvítum skyrtum, en velja svartar skyrtur og svört föt á þjónana,“ segir Þórhildur og bætir við að geti verið ágætt að gæta þess að hönnun vinnufatnaðarins falli vel að litavali og innréttingum hvers fyrirtækis til að skapa fallegt heildarútlit.

En fallegur vinnufatnaður er ekki bara til þess gerður að ganga í augun á viðskiptavinunum. Bendir Þórhildur á að fólk sem er snyrtilega klætt við vinnu sína líði betur, og fallegur einkennisbúningur geti aukið sjálfstraust. „Þegar fólk er vel til fara í vinnunni verður það stoltara af starfinu og getur rétti fatnaðurinn verkað hvetjandi til að vinna af enn meiri fagmennsku og metnaði,“ segir hún. „Viðmót og hegðun viðskiptavinanna getur líka breyst mikið eftir því hvernig starfsmenn eru klæddir, og t.d. ólíklegt að fólk vilji panta sér hamborgara á veitingastað þar sem þjónarnir eru glerfínir í tauinu og með þverslaufur.“

Ólíkar hugmyndir um faglegan klæðnað

Að láta starfsmenn klæðast vinnufatnaði getur líka verið góð leið til að hjálpa stjórnendum að tryggja að allir séu snyrtilega til fara. „Oft er kveðið á um það í ráðningarsamningi hvernig starfsmenn þurfa að líta út við vinnu sína, en vandinn er sá að fólk hefur misjafnan smekk og ólíkar hugmyndir um hvað telst snyrtilegur og faglegur klæðnaður. Man ég t.d. eftir fjármálafyrirtæki þar sem ákveðið var að hætta að skaffa starfsmönnum vinnufatnað, og í staðinn láta fólk mæta í eigin fatnaði. Næsta dag mættu sumir til vinnu í nýjustu tísku, en aðrir í tuttuga ára gömlum drögtum og jakkafötum.“

Oft mæðir mikið á vinnufatnaði og segir Þórhildur að þurfi að skipta reglulega út einstaka flíkum. „Vaninn er að fastráðnir starfsmenn eigi tvö sett, og gott að huga að endurnýjun árlega. Buxurnar og skyrturnar þarf að skipta um oftar, en jakkarnir geta enst lengur.“

Fatnaðinn má fá í ýmsum verðflokkum, og nefnir Þórhildur sem dæmi að dýrustu svunturnar geti kostað margfalt á við þær ódýrustu. „Við bjóðum upp allt frá 1.800 kr svuntum sem henta vel til daglegra starfa á veitingastað eða kaffihúsi, upp í voldugar og glæsilegar 40-50.000 kr svuntur úr leðri.“

ai@mbl.is