Hópfjármögnunarfyrirtækið Karolina Fund er tilnefnt sem „Best Fintech startup“ á Íslandi hjá Nordic Startup Awards fyrir Karolina Engine.
Hópfjármögnunarfyrirtækið Karolina Fund er tilnefnt sem „Best Fintech startup“ á Íslandi hjá Nordic Startup Awards fyrir Karolina Engine.
Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Með gervigreindartækni ætlar Karolina Fund að búa til vöru sem hjálpað getur öðrum hópfjármögnunarfyrirtækjum að ná betri árangri í fjármögnun verkefna.

Íslenska hópfjármögnunarfyrirtækið Karolina Fund stefnir að því að ný þjónusta sem fyrirtækið er að þróa, og ætlar að vera tilbúið með innan fárra ára, Karolina Engine, verði besta hópfjármögnunartækni veraldar. Lykilþáttur í þeirri þróun er gervigreind sem innbyggð verður í þjónustuna, og hefur nú þegar gefið góða raun.

Að sögn Inga Rafns Sigurðssonar, framkvæmdastjóra félagsins, er eitt af því sem gervigreindin gerir að spá fyrir um hvort verkefni nær fullri fjármögnun eða ekki. Fyrstu niðurstöður benda til þess að hans sögn að á fyrstu sex klukkutímum eftir að hópfjármögnun er sett í gang sé hægt að segja með allt að 99% vissu til um niðurstöðuna. „Þetta gerir okkur til dæmis kleift að skoða þau verkefni sem ekki eru líkleg til að ná árangri, og byrja þannig að hanna breytur til að hjálpa þeim að ná markmiðum sínum. Til dæmis gæti gervigreindin sagt okkur að best væri að senda tölvupóst á alla og auka þannig líkur á fjármögnun um 50%,“ segir Ingi Rafn. „Takist okkur þetta jafn vel og við ætlum okkur verðum við komin með verðmætustu hópfjármögnunartækni heims,“ bætir hann við og segir að fyrstu prófanir á tækninni lofi góðu.

Ingi Rafn segir að engir samkeppnisaðilar séu til staðar á þeim markaði sem Karolina Engine sé á. „Í gegnum kerfið geta hópfjármögnunarsíður, sem eru til dæmis um 600 talsins í Evrópu, rekið sinn eigin framenda ofan á þetta nýja bakendakerfi okkar. Við verðum eins og tæknideildin á bak við kerfin.“

Ingi Rafn segir að flest þessara fyrirtækja eigi við svipuð vandamál að etja. „Þetta eru oftast lítil fyrirtæki með mikinn kostnað í tækni, og eiga í miklum erfiðleikum með að halda uppi háu árangurshlutfalli. Okkar árangurshlutfall í fjármögnun verkefna er það hæsta í heimi, 74%, og nýja tæknin getur hjálpað til við að ná viðlíka árangri.“