[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ólafur Haukur Símonarson fæddist í Reykjavík 24.8. 1947 og ólst þar upp á Jófríðarstöðum við Kaplaskjólsveginn, síðan við Framnesveginn og loks í nýjum verkamannabústað í Stigahlíðinni, en fór svo út til náms.

Ólafur Haukur Símonarson fæddist í Reykjavík 24.8. 1947 og ólst þar upp á Jófríðarstöðum við Kaplaskjólsveginn, síðan við Framnesveginn og loks í nýjum verkamannabústað í Stigahlíðinni, en fór svo út til náms.

Ólafur Haukur var í Melaskóla og Gaggó Vest, stundaði nám í hönnun, bókmenntum og leikhúsfræðum í Kaupmannahöfn 1965-70, í Frakklandi 1970-71, og síðan aftur í Kaupmannahöfn 1972-74.

Ólafur Haukur hefur sinnt ýmsum störfum til sjós og lands, hann var dagskrárgerðarmaður hjá Ríkissjónvarpinu 1974-76 og gerði heimildarkvikmyndir um íslenskt þjóðlíf, en frá árinu 1976 hefur hann eingöngu sinnt bókmenntaskrifum og þýðingum.

Ljóðabækur Ólafs Hauks eru Unglingarnir í eldofninum, 1970; Má ég eiga við þig orð, 1973; Svarta og rauða bókin, 1974; Rauði svifnökkvinn, ljóð og myndir 1975; Haustsýningin 1974, klippiljóð 1975; Almanak Jóðvinafélagsins, ljóðsaga 1981, og Æskuljóð hvíta mannsins, ljóðasafn 2003.

Skáldsögur Ólafs Hauks eru Vatn á myllu kölska, 1978; Galeiðan, 1980; Vík milli vina, 1985; Rigning með köflum, 1996; Fólkið í blokkinni, 2001 og 2006; Fluga á vegg sönn lygasaga, 2008 og 2012; Fuglalíf á Framnesvegi, 2009; Ein bára stök, 2010; Skýjaglópur skrifar bréf, 2013, og Aukaverkanir, 2016. Hann hefur auk þess sent frá sér Dæmalaus ævintýri, 1973, og Vélarbilun í næturgalanum, safn ævintýra, 1977, unglingasögurnar Gauragangur, 1988, 1993 og 2012, og Meiri gauragangur, 1991 og 1998, sakamálasöguna Líkið í rauða bílnum, 1986, og smásagnasafnið Sögur úr sarpinum 1987. Þá sendi hann frá sér bókina Stormur strýkur vanga – minningar Guðjóns Símonarsonar, 1992.

Ólafur Haukur hefur samið fjölda leikrita fyrir svið, útvarp og sjónvarp sem notið hafa mikilla vinsælda. Nefna má Blómarósir, Hafið, Gauragang, Þrek og tár, Kennarar óskast og Fólkið í blokkinni. Hann er, ásamt Baltasar Kormáki, höfundur að kvikmyndahandritinu Hafið, og höfundur að kvikmyndahandritunum Ryð, Bjallan – The Beetle – Used Cars og Gauragangur – Hullaballoo.

Ólafur Haukur hefur samið og gefið út á hljómplötum fjölda sönglaga sem einkum höfða til ungra hlustenda, s.s. Eniga meniga, Hattur og Fattur, Kötturinn sem fer sínar eigin leiðir og Fólkið í blokkinni. Þá hefur hann þýtt fjölda bóka, leikrita og kvikmynda.

Ólafur Haukur var leikhússtjóri Alþýðuleikhússins 1980-82. Hann var formaður Leikskáldafélags Íslands 1986-98, varaformaður Rithöfundasambands Íslands 1994-2004, hefur setið í stjórn STEFs á Íslandi frá 1986, gegndi embætti varaforseta Leikskáldanefndar Alþjóðaleiklistarsambandsins ITI 1993-2002, var kjörinn heiðursfélagi Leikskáldanefndar Alþjóðaleiklistarsambandsins ITI 2006 og sat í verkefnavalsnefnd Leiklistarhátíðarinnar í Bonn (Bonner Theater Biennale) árin 1992 og 1994.

Skáld og rithöfundar sanka gjarnan að sér bókum, Ólafur Haukur. Ert þú einn þeirra sem eru með heilt almenningsbókasafn heima hjá sér?

„Nei, ég komst nú aldrei svo langt en þegar við fluttum í fyrra varð ég að losa mig við helminginn af bókasafninu. Það er erfitt að losa sig við bækur því þær verða gjarnan hluti af þroskasögu fólks. Ég lokaði því bara augunum og lét ofan í kassa – og lifði það af. Við megum heldur ekki verða of upptekin af fortíðinni.“

Fjölskylda

Eiginkona Ólafs Hauks er Guðlaug María Bjarnadóttir, f. 30.3. 1955, leikkona og framhaldsskólakennari. Foreldrar hennar voru Bjarni Jóhannesson, f. í Flatey á Skjálfanda 23.9. 1913, d. 18.11. 2001, skipstjóri á Akureyri, og k.h., Sigríður Freysteinsdóttir, f. á Hrafnagili í Eyjafirði 18.8. 1918, d. 21.10. 1991, húsfreyja á Akureyri.

Fyrri kona Ólafs Hauks er Dagný Helgadóttir, f. 1947, arkitekt, en þau skildu 1972.

Börn Ólafs Hauks eru Freyr Gunnar, f. 1980, kerfisstjóri í Reykjavík; Elín Sigríður María, f. 1983, myndlistarkona í Reykjavík, og Unnur Sesselía, f. 1992, leikstjóri og rekstrarfræðingur menningarstofnana, búsett á Ítalíu þar sem hún er að ljúka námi um þessar mundir.

Bræður Ólafs Hauks eru Birgir Svan Símonarson, f. 1951, skáld og skólastjóri, búsettur í Hafnarfirði, og Guðjón Símonarson, f. 1964, verslunarmaður, búsettur í Reykjavík..

Foreldrar Ólafs Hauks voru Símon Guðjónsson, f. í Neskaupstað 15.3. 1921, d. 7.11. 2003, skipstjóri í Reykjavík, og k.h., Elín Friðriksdóttir, f. í Vestmannaeyjum 6.10. 1922 , d. 20.5. 2007, húsfreyja.