Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Talningar í Leifsstöð ofmeta fjölda erlendra ferðamanna sem koma til landsins með flugi. Margt bendir til að í ár verði þeir oftaldir um meira en 300 þúsund manns í það minnsta. Þetta segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. Deilt hefur verið um tölur um ferðamannafjölda að undanförnu, en þeir eru skilgreindir sem erlendir ferðamenn sem dvelja á Íslandi í minnst eina nótt.
„Skekkja í tölum um farþegafjölda sem nemur hundruðum þúsunda á ári er óásættanleg, því talningin er grunngagn í íslenskri ferðaþjónustu, til ákvarðanatöku. Við erum í góðri aðstöðu til að hafa þessar tölur réttar, því Ísland er eyland, langflestir ferðamenn koma inn í gegnum Keflavík, það er eina gátt,“ segir Helga.
Í sumar fljúga alls 26 flugfélög til og frá Íslandi og hefur það fjölgað tengimöguleikum mikið. Farþegi fá Bandaríkjunum getur valið um tugi áfangastaða í Evrópu, í gegnum Ísland og öfugt. Ef þeir velja að fljúga leggina með mismunandi flugfélögum verða þeir oft það sem kallað hefur verið sjálftengifarþegar, það er Bandaríkjamaður lendir á Íslandi og sækir töskurnar sínar, fer út og tékkar sig sjálfur inn aftur með öðru flugfélagi. Þannig er viðkomandi á talningarstað við brottfararhlið merktur sem ferðamaður til Íslands þó að hann gisti aldrei hérlendis enda þótt gistingin sé almennt viðmið í talningum sem þessum. Skv. könnun Ferðamálastofu hefur þessi talning, hvað varðar ferðamenn til Íslands, verið ofmetin um 11% en auk þessa eru um 3% þeirra sem komu til landsins á tímabilinu ekki ferðamenn heldur útlendingar sem búa á Íslandi eða starfa í landinu.