Það er nokkurt afrek að ná að skora afdrifaríkt sjálfsmark í leik sem aðrir spila

Á sjávarútvegsvef mbl.is, 200 mílum, er vitnað til orða Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, um viðskiptabann á Rússland og gagnkvæmnisaðgerðir þeirra. Hún segir samtök sín ekki krefjast þess að íslensk stjórnvöld víki frá þeirri stefnu að styðja sína bandamenn. En hún bætir við að Rússar hafa sett á okkur innflutningsbann og því verði ekki aflétt nema með viðræðum við rússnesk stjórnvöld. Nauðsynlegt sé að marka stefnu í því hvernig þoka eigi málum áfram. Í fréttinni segir að Heiðrún „taki þó fram að fullt tilefni sé til að endurskoða með reglulegu millibili hvort ástæða sé til að halda viðskiptaþvingununum til streitu“. Það er hverju orði sannara. En vandinn er sá að það er ekki á forræði okkar, svo sérkennilegt sem það er. Ákveðið var án eðlilegrar yfirlegu að binda Ísland aftan í vagn sem ekki var vitað til fulls hvert stefndi.

Á sínum tíma láku rússnesk yfirvöld leynilegum hleruðum símtölum. Þar komu háttsettir ráðamenn Bandaríkjanna og ESB við sögu. Samtölin upplýstu með pínlegum hætti að stórleikararnir voru fjarri því að vera samstiga í aðdraganda stjórnarbyltingarinnar í Úkraínu. En svo fór, því miður, að umboðsmenn ESB og Bandaríkjanna misstu algjörlega vald á málinu. Atburðarásin varð önnur en stefnt var að, en ekki varð aftur snúið. Spil aðalleikendanna var fjarri því að vera gallalaust og skaðaði mjög þróun málsins. Fljótlega stóðu vestrænir leiðtogar frammi fyrir nauðungarstöðu sem versnaði sífellt og varð loks óbærileg eftir að stór hollensk farþegaflugvél var skotin niður yfir Úkraínu.

Ísland kom auðvitað hvergi að aðdraganda stjórnarbyltingarinnar í Úkraínu og hafði enga stöðu til þess að styðja eða gagnrýna það sem fór úrskeiðis. Við bættist að ekkert var rætt um þátttöku Íslands í viðskiptaþvingunum gagnvart Rússum og hversu út úr korti hluti Íslands í þeim skyldi verða. Danmörk, sem er aðili að ESB, hefur löngum haft sín áhrif á ákvarðanir Færeyja í utanríkismálum. En Færeyjar eltu þó ekki Danmörku og ESB í þessu máli.

Viðskiptaþvinganirnar beindust í fyrstu að því að knýja Rússa til þess að færa Úkraínu Krímskaga á nýjan leik. Smám saman fór að renna upp fyrir leiðtogum ESB og Bandaríkjanna að væri Krím krafan gætu viðskiptaþvinganir staðið lengi. Í áratugi, sumir segja aldir.

Viðskiptaþvinganir gagnvart Íran enduðu með fullnaðarsigri þess lands. Viðskiptaþvinganir gagnvart Norður-Kóreu, sem sagðar eru þær afdráttarlausustu sem þekkjast, hafa staðið lengi. Þær áttu að tryggja að Kim Il-sung ættarveldið fengi ekki kjarnorkuvopn. Allir vita hvernig það fór. Eftir því sem best er vitað ræddi íslenska ríkisstjórnin ekki aðkomu að viðskiptabanni á Rússland fyrr en eftir að ákvörðun um það lá fyrir. Skrifstofumaður hjá ESB hafði haft samband við starfsbróður sinn í íslenska utanríkisráðuneytinu um að gengið væri út frá því að Ísland tæki þátt í því.

Það var fjarri því að vera sjálfsagt, þar sem ekkert samráð hafði verið haft við ríkisstjórn landsins. Þegar kalli ESB var svo hlýtt umræðulaust þá var sleppt að leggjast yfir það hvort atbeini Íslands væri í eðlilegu hlutfalli við framlag stórleikaranna.

Í samtalinu segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir réttilega: „bannið kom verst niður á Íslandi hlutfallslega af öllum ríkjum“. Það er auðvitað yfirgengilegt að þannig hafi tekist til. Hvers vegna í ósköpunum átti framlag Íslands í andófi gagnvart Rússlandi að verða hlutfallslega þungbærast?

Ríkisútvarpið hefur eftir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sjávarútvegsráðherra að íslensk stjórnvöld ætli ekki að breyta utanríkisstefnu sinni og muni áfram taka þátt í viðskiptaþvingunum gagnvart Rússum. Sjávarútvegsráðherrann fer ekki með málið. Þessi sjónarmið ráðherrans eru þó auðvitað í góðu samræmi við talpunktana sem einstakir ráðherrar hafa notað eftir að Ísland skoraði sjálfsmark í leik sem aðrir spiluðu.

Og það er satt og rétt að það er gjarnan hægara að koma sér í ógöngur en úr þeim aftur. En það gefur þó auga leið að sú lágmarksskylda hvílir á íslenskum ráðamönnum að breyta útfærslu málsins á þá lund að hlutur Íslendinga sé ekki langt umfram annarra. Er það ekki nokkuð ljóst?