„Fólk spyr sig, og okkur, hvað sé hollt fyrir umhverfið, hvaða efni er verið að nota í þessa eða hina mubluna, hvernig get ég tryggt að líkamsstaða sé sem best, þannig að við sjáum greinilega að fólk er orðið meðvitaðra um umhverfið, hvaðan varan kemur, hvernig hún fer með umhverfið og mann sjálfan,“ segir Birna Magnea Bogadóttir, sölustjóri IKEA, um óskir þeirra sem hyggjast útbúa vinnuaðstöðu heima.
„Fólk spyr sig, og okkur, hvað sé hollt fyrir umhverfið, hvaða efni er verið að nota í þessa eða hina mubluna, hvernig get ég tryggt að líkamsstaða sé sem best, þannig að við sjáum greinilega að fólk er orðið meðvitaðra um umhverfið, hvaðan varan kemur, hvernig hún fer með umhverfið og mann sjálfan,“ segir Birna Magnea Bogadóttir, sölustjóri IKEA, um óskir þeirra sem hyggjast útbúa vinnuaðstöðu heima. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það færist í vöxt að fólk útbúi vinnuaðstöðu til að vinna heiman frá sér, segir Birna Magnea Bogadóttir, sölustjóri hjá IKEA. Þá eru þægindin það mikilvægasta en fagurfræðin er skammt undan og fólk gerir kröfur um fallegt útlit.

Það er mikil aukning í því að fólk sé að vinna heima, við finnum klárlega fyrir því. Við finnum líka fyrir því að fólk vill hafa einhverja aðstöðu heima hjá sér fyrir tölvuna eða fyrir spjaldtölvuna þegar það þarf að setjast niður og gefa sér tíma til að svara nokkrum tölvupóstum og þess háttar,“ segir Birna Magnea þegar við tökum tal saman. „Við höfum líka fengið til okkar viðskiptavini sem eru til dæmis endurskoðendur og vinna að heiman, og þá er algengt að fólk kaupi skilrúm, svona rétt til að stúka aðstöðuna af, sérstaklega fólk sem býr þröngt. Þá geturðu sett skilrúm utan um skrifborð, og skrifborðin fást í öllum stærðum og gerðum.“

Útlitið skiptir líka auknu máli

Birna Magnea bætir því við að hún merki í auknum mæli að þeir sem kjósi að vinna heima horfi mikið í útlitið á því sem keypt er fyrir vinnuaðstöðuna. „Það skiptir til dæmis miklu máli hvernig skrifborðsstóllinn lítur út. Þá er ég að meina að hann þarf ekki bara að vera þægilegur heldur þarf hann líka að „lúkka“ vel við heildarmyndina í rýminu þar sem honum er komið fyrir.“

Fagurfræðin telur semsé talsvert núorðið líka – í viðbót við praktíkina?

„Algerlega. Fyrst og fremst þurfa náttúrlega að vera þægindi, og við pössum upp á það í öllu sem við afgreiðum að þægindin séu í fyrirrúmi, rétt líkamsstaða og svo framvegis, en upp á síðkastið höfum við verið að fá nýjungar í verslunina þar sem stóllinn getur þess vegna líka verið endastóllinn á borðstofuborði. Þá eru komin meiri smáatriði í tauáklæðið og val um svarta eða hvíta grind, allt eftir því hvað passar við heimilið hjá hverjum og einum. Það eru alls konar smáatriði af þessu tagi sem við merkjum að fólk er farið að horfa til.“

Tímarnir breytast – og vinnuaðstaðan með

Birna Magnea bendir á að það sé tímanna tákn hve margir sem koma til hennar í IKEA taki sérstaklega fram að viðkomandi séu hættir að prenta út heima hjá sér. Það var heldur á annan veg hér í eina tíð þegar varla nokkur setti upp vinnuaðstöðu heima fyrir án þess að gera ráð fyrir prentara tengdum við tölvuna.

„Þess í stað eru flestir að velta því fyrir sér hvernig fari best um þá með tölvuna. Við erum að sjá mun meira af því að fólk sé að leita að fallegum standi fyrir símann svo hægt sé að tengja símann við tónlist, það er það mikilvæga en ekki borðpláss og rafmagn fyrir prentarann. Þvert á móti þá er afþreyingarþátturinn farinn að spila miklu meira inn í ákvarðanatökuna varðandi vinnuaðstöðuna.“

Birna nefnir einnig að sér þyki það sérlega áhugavert hversu mörgum sé greinilega umhugað um að vera sjálfbærir við vinnu sína, bæði hvað umhverfið varðar en ekki síður eigin heilsu – nokkuð sem sjálfsagt fáir leiddu hugann að fyrir ekki svo löngu.

„Fólk spyr sig, og okkur, hvað sé hollt fyrir umhverfið, hvaða efni er verið að nota í þessa eða hina mubluna, hvernig get ég tryggt að líkamsstaða sé sem best, þannig að við sjáum greinilega að fólk er orðið meðvitaðra um umhverfið, hvaðan varan kemur, hvernig hún fer með umhverfið og mann sjálfan. Það er vitundarvakning í þjóðfélaginu, að okkur finnst, á þá leið að fólk vill passa upp á umhverfið. Þar njótum við góðs af því að kolefnissporið okkar er minna en hjá mörgum á þessum markaði, þökk sé flötu pakkningunum okkar, og eins er ávallt séð til þess að hver vara uppfylli alla gæðastaðla.“

Lýsingin skiptir máli

Fólk með fyrirhugað vinnurými heima fyrir lætur sér ennfremur annt um birtuna í kringum vinnuaðstöðuna. „Fólk er að spá í vinnulýsingu, hvernig lýsingin er frá toppi og hvernig lýsingin er á borðinu. Oft er þessum þætti bætt við strax og byrjað er að skoða samsetningu aðstöðunnar, hvort lýsingin í rýminu sé í lagi. Með það fyrir augum höfum við sett upp margskonar dæmi um útfærslur á lýsingu í skrifstofudeildinni hjá okkur sem fólk getur skoðað, metið og borið saman til að finna það sem best hentar því. Auk þess erum við með okkar flotta starfsfólk í ljósadeildinni sem getur svo gefið frekari aðstoð og upplýsingar, allt eftir óskum.“

Búkkastemningin allsráðandi

Það er kunnara en frá þurfi að segja að skrifborð eru jafnan upphafið á allri vinnuaðstöðu. Birna segir að í þeim efnum sé einna mest um borðplötur á búkkum um þessar mundir.

„Mjög algengt um þessar mundir er það sem við köllum búkkastemningu; tveir búkkar og borðplata. Það er ákveðið „lúkk“ í því fyrir utan að borðplöturnar er hægt að fá í hvítu, með eikar- eða beykiáferð, og jafnvel yfir í mynstrað. Þú getur endalaust leikið þér að því hvað þú vilt og stærðirnar ótalmargar sömuleiðis.“ Hún bætir því við að búkkarnir séu bæði vinsælir með skúffulausn og síðan bara þessi klassíski sem við þekkjum úr hvers kyns smíðavinnu.

„Það er greinilega ákveðin tíska í gangi með búkkana um þessar mundir.“