Oddný Þorgerður Pálsdóttir ljósmóðir fæddist í Reykjavík 27. júní 1931. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Grund 13. ágúst 2017.

Foreldrar hennar voru Páll B. Oddsson trésmíðameistari, f. 12.5. 1904, d. 20.12. 2000, og Alda Jenný Jónsdóttir , f. 22.7. 1911, d. 28.6. 1998.

Oddný Þorgerður var oftast kölluð Gerða og átti hún níu systkini. Sammæðra: Unnur Lilja, f. 1. mars 1930, Þorsteinn Guðni, f. 1. maí 1939, d. 25. október 1998, Þórey Erla, f. 27. júní 1941, Halldór Sigurður, f. 20. nóvember 1942, Ragnheiður Sigurrós, f. 5. september 1947, og Guðmundur Ragnar, f. 17. desember 1954. Sammæðra og -feðra: Sigrún Hanna, f. 22. júní 1934, d. 10. júní 1986. Samfeðra: Elín Guðrún, f. 28. maí 1944, og Jón, f. 1. mars 1947.

Synir Gerðu eru: 1) Páll Hinrik Hreggviðsson, f. 29. janúar 1955. Faðir Páls er Hreggviður Guðbjörnsson, f. 10. nóvember 1926. Fyrri eiginkona Páls er Jóhanna Kristjánsdóttir, þau skildu, dóttir hennar er Þórunn, f. 22. apríl 1974. Seinni eiginkona Páls er Ragnheiður Sigurðardóttir, þau skildu. 2) Reynir Þór, f. 13. október 1973, kvæntur Gretu Björgu Egilsdóttur, f. 6. janúar 1975, þeirra börn eru Viktoría Sól, f. 31. ágúst 2000, Egill Andri, f. 8. júlí 2003, og Helena Sif, f. 3. júlí 2007. 3) Egill Örn, f. 25 október 1976, var giftur Heather Aldrich, f. 26. nóvember 1979, þau skildu. Dóttir þeirra er Anja Eyrún, f. 8. janúar 2003. Faðir Reynis og Egils var Guðmundur Sigurbergsson, f. 23. október 1937, d. 19. febrúar 2015.

Gerða giftist 31. desember 1987 Sigurði Rúnari Steingrímssyni, fyrrverandi sjómanni og verkstjóra, f. 28. apríl 1932, d. 16. janúar 2016. Börn Sigurðar eru: 1) Bjarnheiður Jenný, f. 20. apríl 1952, d. 25. október 1952. 2) Sigurður Grétar, f. 4. maí 1957, fyrri eiginkona Ólína Ingibjörg Jónsdóttir, f. 19. febrúar 1959, þau skildu. Börn þeirra eru Sigrún Helga, f. 19. nóvember 1982, Ingibjörg Jóna, f. 2. júní 1984, og Jón Óli, f. 2. maí 1986. Seinni eiginkona Sigurðar Grétars er Sigríður S. Gunnlaugsdóttir, f. 10. október 1959. 3) Anna María, f. 19. janúar 1963, var gift Kristjáni Kristmannssyni, f. 12. maí 1968, þau skildu. Synir Önnu Maríu eru Sigurður Rúnar, f. 6. júní 1983, og Sindri, f. 4. júní 1993. 4) Margrét Lilja, f. 11. desember 1967, gift Svavari Þorsteinssyni, f. 6. október 1965. Börn þeirra eru Þorsteinn Hrannar, f. 25. júlí 1995, og Jóna Rún, f. 20. mars 1999.

Gerða vann sem ljósmóðir á Landspítalanum við Hringbraut frá árinu 1963 til 2001 og naut starfsins alla tíð. Einnig vann hún lengi í verslun hjá Kornelíusi úrsmíðameistara á Skólavörðustíg. Áhugamál hennar voru einna helst fjölskyldan og sumarbústaðurinn í Vatnaskógi sem var hennar líf og yndi.

Útför Gerðu fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 24. ágúst 2017, og hefst athöfnin klukkan 13.

Elsku mamma, nú ertu komin á betri stað og þarft ekki lengur að glíma við þennan óvæga sjúkdóm sem alzheimer er. Þín verður sárt saknað og mun ég aldrei gleyma hvað þú hefur gert fyrir mig og fjölskylduna í gegnum árin. Þolinmæði þín á uppvaxtarárum okkar bræðra var aðdáunarverð enda við engir englar að eiga við oft á tíðum.

Það voru ófá prakkarastrik framkvæmd á Hrefnugötunni sem lenti á þér að svara fyrir og bregðast við. Í seinni tíð stóð aldrei á þér og Rúnari að opna heimili ykkar fyrir okkur fjölskylduna þegar við þurftum á því að halda og alltaf voruð þið tilbúin að hafa Viktoríu Sól, Egil Andra og Helenu Sif hjá ykkur hvort sem á þurfti að halda eða ekki, enda þau mikil ömmu- og afabörn.

Alltaf gátu krakkarnir treyst á að finna góðgæti í skápunum hjá ykkur og báðu þau ósjaldan um að fá að gista hjá ykkur, sem var auðsótt.

Sumarbústaðurinn í Vatnaskógi var alltaf líf ykkar og yndi og eru margar góðar minningar þaðan um skemmtilegar samverustundir.

Ósérhlífni þín og dugnaður skein í gegn í öllu sem þú tókst þér fyrir hendur, hvort sem það var í starfi þínu sem ljósmóðir eða gagnvart fjölskyldu þinni. Þú skilur eftir þig fallegar minningar og hlýhug í hjörtum okkar. Takk fyrir allt og ástarkveðja til þín.

Þinn sonur,

Reynir.

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Í gegnum sorgarþokuna skín fagur krans ofinn úr góðum minningum.

Elín systir, Ragnar

og fjölskylda í Noregi.