Erlingur S. Jóhannsson
Erlingur S. Jóhannsson
Í umræðu um niðurstöður rannsóknarinnar í greininni í Sleep medicine er m.a. vakin athygli á áhrifum þess hvað skóladagurinn byrjar snemma á Íslandi, sem þrengir að svefntíma ungmennanna.

Í umræðu um niðurstöður rannsóknarinnar í greininni í Sleep medicine er m.a. vakin athygli á áhrifum þess hvað skóladagurinn byrjar snemma á Íslandi, sem þrengir að svefntíma ungmennanna.

Á unglingsárunum breytist líkamsklukkan og þau verða syfjuð seinna á kvöldin. Bent er á að Samtök barnalækna í Bandaríkjunum hafa ráðlagt skólum á unglingastigi þar í landi að byrja ekki skóladaginn fyrr en í fyrsta lagi kl. 8:30 svo þau fái nægan svefn sem sé nauðsynlegur fyrir heilsu þeirra og öryggi og bæti námsárangurinn.

Erlingur segir að stuttur svefntími ungmenna og óreglulegt svefnmynstur sé mikið áhyggjuefni. En hvað er til ráða? Hann segir að þessar niðurstöður gefi foreldrum, skólum og samfélaginu öllu tilefni til að standa vörð um svefnheilsu ungmenna.

„Svefnvenjum ungmenna má auðveldlega breyta í samvinnu við m.a. foreldra, samfélagið sem við búum í og í samræmi við lýðheilsumarkmið. Forgangsverkefni til að ná fram betri svefnheilsu meðal ungmenna er að breyta skólatímamynstri þeirra og auka fræðslu í tengslum við áhrif rafrænna miðla á svefn,“ segir Erlingur.

Sterkar vísbendingar eru um að notkun raftækja í svefnherbergjum og birtan frá skjám á símum og tölvum hafi mikil og truflandi áhrif á svefn. Hann bendir á að foreldrar geti t.d. bannað notkun skjámiðla og snjalltækja í herbergjum barna og ungmenna á kvöldin og nóttunni eða takmarkað notkun þeirra með öðrum ráðum, t.d. slegið út netaðgangi á heimilinu yfir nóttina o.s.frv. Þá sé mikilvægt að ræða við börnin um mikilvægi svefns, skrifa svefndagbók og nota svefnúr og almennt leggja áherslu á að börn og unglingar átti sig á mikilvægi þess að þau beri meiri ábyrgð á eigin heilsu.

Svefntíminn hefur styst

Það er ekki nýtt að unglingar á Íslandi fari seint í háttinn og hafa rannsóknir frá fyrri tíð sem byggjast á spurningakönnunum sýnt fram á það en erlendar rannsóknir hafa hins vegar leitt í ljós að svefntími barna hefur styst um 15-20% á síðustu tveimur áratugum í Bandaríkjunum og Evrópu.

Við þessa nýju rannsókn, sem birt er í Sleep medicine, eru notaðar ýmsar aðferðir, þar sem m.a. bæði ungmennin og foreldrar þeirra skráðu hvenær þau fóru í háttinn en einnig voru notaðar hlutlægar heilsufarsmælingar með sérstökum hreyfiúrum, sem ungmennin voru með á úlnliðnum og mæla raunverulegan svefn þeirra. Kom á daginn að verulegur munur er á því hvenær þau fara í rúmið og hvenær þau sofna samkvæmt svefnmælingunum.

Erlingur bendir á að í þessum nýjustu rannsóknum hér á landi sé ekki eingöngu stuðst við spurningalistagögn heldur líka hlutlægar svefnmælingar með hreyfiúrum og þá komi í ljós talsverður munur á niðurstöðunum. Það geti munað einum og hálfum til tveimur tímum á því hvenær ungmennin sögðust hafa farið að sofa og hvenær þau svo féllu í svefn samkvæmt því sem hreyfiúrin sýndu. omfr@mbl.is