Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Skáldið Federico Lorca mun hafa sagt að Ramblan, göngugatan í Barcelona, væri eina gatan sem hann vildi að tæki aldrei enda.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Skáldið Federico Lorca mun hafa sagt að Ramblan, göngugatan í Barcelona, væri eina gatan sem hann vildi að tæki aldrei enda. Þau orð rifjast upp nú þegar ganga má Laugaveginn nánast á enda án þess að finna verslun, krá eða veitingahús sem er eingöngu merkt á íslensku. Víða er afgreitt á ensku.

Verslunarmálið er enska.

Þegar Laugavegurinn var genginn kvöldið eftir Gleðigönguna, frá Snorrabraut að Bankastræti, voru öll skilti á gangstéttum á ensku, nema hvað Ölstofan auglýsti „drekkutíma“ á íslensku.

Stundum var textinn jafnframt á íslensku en þá með smærra letri.

Matarvagnar á Lækjartorgi voru merktir á ensku, auk þess sem súkkulaðivagninn á Granda var merktur í bak og fyrir á ensku.

Búðargluggar á Laugavegi voru flestir merktir með enskum texta. Tölvuverslunin Macland auglýsti tölvukubba með enskum texta og óvíða var auglýst „gleðistund“ (e. happy hour) á öldurhúsum.

Þegar litið var við á Pizza Hut í Smáralind og á Eldsmiðjunni og hjá Krúsku á Suðurlandsbraut blasti við kynningarefni á ensku. Við Suðurlandsbraut eru nokkur stór hótel og þar dvelja erlendir ferðamenn. Miðborgarsvæðið hefur stækkað.

Ferðaþjónustan vegur þungt

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir hagsmunamat skýra notkun enskunnar í miðborginni.

Samtökin hafi ekki tekið afstöðu til þessarar þróunar.

„Viðskipti í miðborg Reykjavíkur snúast að miklu leyti, og í auknum mæli, í kringum ferðamenn. Það má færa rök fyrir því að til að komast í tæri við viðskiptavini í miðborg Reykjavíkur sé íslenskan ekki aðalmálið heldur önnur tungumál. Dæmi eru um að hlutfall erlendra viðskiptavina í verslunum sé allt að 80%. Ég geri ráð fyrir því, án þess að hafa lagst í rannsókn, að þetta sé hreint hagsmunamat. Að menn horfist í augu við raunveruleikann.

Það þarf ekki að fara lengra aftur en til áranna eftir hrunið. Þá var verslun í miðbænum í dauðateygjum. Með fjölgun ferðamanna frá árinu 2012 hefur orðið gjörbreyting þar á. Það sést best á því hvernig verslun hefur þróast í miðborg Reykjavíkur. Hún er sífellt meira að þróast í átt til verslunar fyrir ferðamenn.“

Verulegur hluti í Reykjavík

Andrés segir aðspurður það sama gilda um Smáralind og Kringluna. Þar sé reynt að höfða til ferðamanna. „Á hverjum degi eru hér 50 þúsund erlendir ferðamenn að meðaltali yfir árið. Þeir dreifast ekki jafnt yfir landið. Verulegur hluti þeirra er í miðborg Reykjavíkur. Hreint út sagt er í mörgum tilfellum örugglega betra að nota eitthvert annað tungumál en íslensku til að ná til kúnnans. Þá sérstaklega í miðborg Reykjavíkur. Það er kalt mat.“

Á vissan hátt eðlileg þróun

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, segir þessa þróun á vissan hátt vera eðlilega.

„Ferðamannastraumurinn er gífurlegur. Þessir staðir byggja mikið á því. Það er í sjálfu sér ekkert að því og sjálfsagt að þeir komi til móts við viðskiptavinina. Hins vegar er það vont ef það gerist á kostnað íslenskunnar, ef henni er alveg sleppt. Ég hef ekkert við það að athuga ef enskan er höfð með. Mér finnst að menn ættu að hafa metnað til að hafa íslensku líka.“

Spurður hvaða áhrif það geti haft ef enskan er orðin verslunarmál setur Eiríkur hlutina í samhengi.

„Eftir því sem enskan yfirtekur fleiri svið stendur íslenskan verr og er í meiri hættu. Ef það verður ekki hægt að nota íslensku á mikilvægum sviðum við aðstæður sem venjulegt fólk lendir í dagsdaglega erum við komin í alveg splunkunýja stöðu. Ef slík svið verða til og þeim fjölgar er tímaspursmál hvenær fólk gefst upp á íslenskunni. Hvenær fólk fer að hugsa sem svo til hvers það sé að burðast með tungumál sem nýtist ekki nema að takmörkuðu leyti.“

Samkvæmt Hagstofunni bjuggu 36 þúsund innflytjendur á Íslandi um áramótin og 4.500 voru af annarri kynslóð innflytjenda. Samtals voru þetta 11,9% íbúafjöldans. Á fyrri hluta ársins fluttu 3.130 fleiri erlendir ríkisborgarar til landsins en frá því. Með sama áframhaldi má ætla að hlutfall innflytjenda verði í fyrsta sinn yfir 11% um næstu áramót.

Til viðbótar er áætlað að á Íslandi séu að jafnaði um 50 þúsund ferðamenn. Þeim kann að fjölga frekar.

Eiríkur segir aðspurður að vegna þessarar þróunar sé ef til vill ekki sami þrýstingur á innflytjendur og áður var á að læra íslensku.

„Hvert stefnum við? Erum við að búa til tvær þjóðir í landinu? Erum við að búa til láglaunastétt sem kann ekki íslensku og er föst í láglaunastörfum? Hvert leiðir það?“ spyr Eiríkur.