Listamaður Sigríður Pálsdóttir, eða Silla Páls eins og hún er gjarnan kölluð, opnar í dag sýningu á verkum sínum á Seltjarnarnesi. Á sýningunni gefst fólki m.a. kostur á að virða fyrir sér heillandi og listrænar myndir af augum.
Listamaður Sigríður Pálsdóttir, eða Silla Páls eins og hún er gjarnan kölluð, opnar í dag sýningu á verkum sínum á Seltjarnarnesi. Á sýningunni gefst fólki m.a. kostur á að virða fyrir sér heillandi og listrænar myndir af augum. — Ljósmynd/Erling Aðalsteinsson
Kristján H. Johannessen khj@mbl.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

„Augun eru svo einstök og segja þau oft mun meira en munnurinn,“ segir Sigríður Sigurlína Pálsdóttir, eða Silla Páls eins og hún er gjarnan kölluð, í samtali við Morgunblaðið, en hún opnar í dag, fimmtudaginn 24. ágúst, sýningu í Galleríi Gróttu á Eiðistorgi á Seltjarnarnesi. Verður sýningin opin gestum og gangandi til 28. ágúst, en formleg opnun hennar hefst klukkan 17.

Á sýningunni, sem nefnist Fegurðin er falin í auganu , verða sýnd nokkur verk Sillu, bæði portrett og listrænar ljósmyndir. Mesta athygli vekja að líkindum ljósmyndir Sillu af augum fólks, en þar blandar hún gjarnan saman fegurð augans og stórbrotinni náttúru.

Hefur stoppað fólk úti á götu

Aðspurð segir Silla flest augu á sýningunni tilheyra vinum og vandamönnum, en einnig hafa þó augu annarra fangað athygli hennar.

„Ég hef stoppað fólk úti á götu sem hefur vakið athygli mína fyrir sérstæð augu og beðið það að koma í stúdíóið til mín,“ segir Silla og heldur áfram: „Ég tek nærmyndir af auganu, vinn myndina og túlka síðan augað með mynd í miðju þess,“ segir hún og bendir á að inni í auganu, þar sem augasteinninn er, láti hún svo náttúrumyndir sem henni finnist passa við hvert auga.

Myndirnar eru mjög sterkar og litríkar, en að sögn Sillu hafa sumir gefið sig á tal við hana og sagt myndirnar dáleiðandi. „Það kom t.a.m. til mín kona um daginn sem sagðist finna fyrir mikilli ró við það eitt að horfa á eina myndina.“ Þá segist Silla vera hvergi nærri hætt að mynda augu fólks og er hún t.a.m. með nokkra einstaklinga á lista sem hún hefur áhuga á að mynda í náinni framtíð. „Hver mynd er einstök og segir sína sögu.“

Fjölbreytileikinn kom á óvart

Aðspurð segir Silla það hafa komið sér á óvart hversu fjölbreytt og ólík augu fólks séu.

„Fyrst þegar ég byrjaði að skoða þetta kom það mér verulega á óvart hversu fjölbreytt augun eru og þá einkum mynstrið og litirnir,“ segir Silla, en hún hefur verið að einbeita sér að auganu sem listformi undanfarið ár og er sýningin afrakstur þeirrar vinnu.