Tapaði Marine Le Pen, leiðtogi Þjóðfylkingarinnar í Frakklandi.
Tapaði Marine Le Pen, leiðtogi Þjóðfylkingarinnar í Frakklandi. — AFP
Bogi Þór Arason bogi@mbl.

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Í byrjun ársins var útlit fyrir að svonefndir lýðhyggjuflokkar (popúlistar) myndu fara með sigur af hólmi í hverjum kosningunum á fætur öðrum í Evrópu eftir sigur Donalds Trump í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í nóvember og andstæðinga Evrópusambandsins í þjóðaratkvæðinu í Bretlandi fyrir rúmu ári. Lýðhyggjuflokkarnir hugsuðu sér gott til glóðarinnar, notuðu hvert tækifæri til að tengja sig við Trump og stuðningsmenn Brexit, úrsagnar Bretlands úr Evrópusambandinu. Þeir gáfu til kynna að stefna Trumps og úrsögn úr ESB væru það sem koma skyldi í Evrópulöndunum. Kannanir benda til þess að þetta sé nú að koma lýðhyggjuflokkunum í koll vegna óvinsælda Trumps í Evrópu og lítils stuðnings við úrsögn úr Evrópusambandinu.

Þegar leiðtogar lýðhyggjuflokkanna komu saman í þýsku borginni Koblenz í janúar töldu þeir að vor þjóðernissinna væri í vændum og ekkert gæti komið í veg fyrir sigurgöngu þeirra í Evrópu. Óánægja almennings með ráðandi öfl í ESB-löndunum yrði til þess að lýðhyggjuflokkarnir kæmust á valdastólana í Evrópulöndunum. Sigrum Trumps og Brexit-sinna í Bretlandi var lýst sem óánægjuöldu sem myndi halda áfram og hefja lýðhyggjuflokkana til valda. Talað var um „Frexit“ í Frakklandi og „Nexit“ í Hollandi, svo dæmi séu tekin um úrsagnirnar úr ESB.

„Á morgun ný Evrópa“

„Í gær frjáls Bandaríki... Á morgun ný Evrópa,“ sagði einn leiðtoganna, hollenski þjóðernissinninn Geert Wilders, leiðtogi Frelsisflokksins. Hann lýsti sjálfum sér sem Trump Hollands.

Marine Le Pen, leiðtogi Þjóðfylkingarinnar í Frakklandi, var einnig sigurviss. „2016 var árið sem engil-saxneski heimurinn vaknaði. Ég er viss um að 2017 verður árið sem fólkið á meginlandi Evrópu vaknar,“ sagði Le Pen. Hún bætti við að Brexit myndi hafa dómínóáhrif í Evrópu og kollvarpa Evrópusambandinu í núverandi mynd. Hún fór einnig mjög lofsamlegum orðum um Trump. „Afstaða hans til Evrópusambandsins er skýr: hann styður ekki kerfi sem kúgar fólkið.“

Héldu ekki skriði

Fyrir þingkosningarnar í Hollandi í mars bentu skoðanakannanir lengi til þess að Frelsisflokkurinn yrði stærstur á þinginu. Svo fór að flokkurinn fékk 20 sæti af 150, bætti við sig fimm sætum frá síðustu kosningum en fékk fjórum sætum minna en árið 2010.

Le Pen komst í síðari umferð forsetakosninganna í Frakklandi en fékk ekki eins mikið fylgi og kannanir höfðu bent til um veturinn. Svo fór að Emmanuel Macron sigraði með miklum yfirburðum í forsetakosningunum og nýr flokkur hans fékk hreinan meirihluta þingsæta í kosningum í júní.

Le Pen fékk þó meira kjörfylgi en nokkru sinni fyrr, eða 34%, og nýjustu skoðanakannanir benda til þess að stuðningurinn við Macron hafi snarminnkað. Líklegt er því að Þjóðfylkingin haldi verulegu fylgi í Frakklandi á næstu árum.

Útlit er fyrir að flokkur sem nefnist Nýr kostur fyrir Þýskaland (AfD) komist yfir 5% þröskuldinn og fái þar með sæti á þinginu í Berlín í fyrsta skipti í kosningum í næsta mánuði. Annar lýðhyggjuflokkur, Frelsisflokkurinn í Austurríki, gæti einnig komist í ríkisstjórn í kosningum í október. Skoðanakannanir benda til þess að Hreyfingin fimm stjörnur geti orðið stærsti flokkur Ítalíu í þingkosningum sem eiga að fara fram á næsta ári.

Ljóst er því að lýðhyggjuflokkarnir eru ekki að hverfa úr evrópskum stjórnmálum. Kannanir benda hins vegar til þess að fylgi þeirra hafi náð hámarki og sé nú á niðurleið, að því er fram kemur í fréttaskýringu The Wall Street Journal . Flokkarnir voru með meira en 30% fylgi að meðaltali í fyrra en það er nú komið í 23%. Til að mynda var Nýr kostur fyrir Þýskaland með allt að 15% fylgi í fyrra en kannanir benda nú til þess að það sé nokkuð stöðugt í kringum 8%.

Trump fælir kjósendur frá

Margir af stjórnmálamönnum lýðhyggjuflokkanna telja nú að það hafi verið mistök að tengja þá við Donald Trump og Brexit. Þeir hafa komist að því að þótt margir kjósendur í Evrópulöndunum séu óánægðir með ráðandi öfl í Evrópusambandinu séu þeir lítt hrifnir af Donald Trump og úrsögn úr Evrópusambandinu.

Þjóðernissinnaðir andstæðingar Evrópusambandsins voru „svo æstir eftir Brexit og sigur Trumps að þeir héldu að við myndum allir verða forsetar eða forsætisráðherrar,“ hefur The Wall Street Journal eftir Gerolf Annemans, forystumanni flokks flæmskra þjóðernissinna í Belgíu. Hann segir að þess í stað hafi sigur Trumps að nokkru leyti fælt kjósendur á miðjunni frá lýðhyggjuflokkunum í Evrópu.

Hervé de Lépinau, þingmannsefni Þjóðfylkingarinnar í Frakklandi, hefur gagnrýnt forystu flokksins fyrir að lofa því fyrir kosningarnar að leggja niður evruna og efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um úrsögn úr Evrópusambandinu. Hann segir að þau loforð hafi verið fáránleg.

Flestir forystumenn lýðhyggjuflokkanna eru því hættir að tala um úrsögn úr Evrópusambandinu eða afnám evrunnar. Og þeir lýsa sér ekki lengur sem Trumpum Evrópu.

18% styðja úrsögn
» Könnun Pew-rannsóknamiðstöðvarinnar bendir til þess að lítill stuðningur sé við úrsögn úr Evrópusambandinu í öðrum ESB-löndum en Bretlandi. Að meðaltali studdu aðeins 18% úrsögn úr ESB í könnun sem náði til tíu landa. 77% voru hlynnt áframhaldandi aðild að sambandinu.
» Könnunin benti þó til þess að 66% íbúa landanna væru óánægð með hvernig ESB tók á flóttamannavandanum.