Lögreglan á Spáni víkkaði í gær út rannsókn sína á hryðjuverkahópi, sem stóð fyrir árásunum í Barcelona og Cambrils í vikunni sem leið, eftir að einn ódæðismannanna játaði að þeir hefðu lagt á ráðin um enn mannskæðari hryðjuverk.

Lögreglan á Spáni víkkaði í gær út rannsókn sína á hryðjuverkahópi, sem stóð fyrir árásunum í Barcelona og Cambrils í vikunni sem leið, eftir að einn ódæðismannanna játaði að þeir hefðu lagt á ráðin um enn mannskæðari hryðjuverk. Hermt er að hópurinn hafi skipulagt sprengjuárásir á kirkjuna Sagrada Familia og fleiri þekktar byggingar í Barcelona.

Flestir hryðjuverkamannanna eru af marokkóskum uppruna og lögreglan er að rannsaka tengsl þeirra við önnur lönd, m.a. ferðir þeirra til Frakklands og Belgíu.

Lögreglan hefur fundið mikið magn af sprengiefni, nagla og gashylki sem talið er að hópurinn hafi ætlað að nota til sprengjuárása. Sprenging varð í húsi hópsins skömmu áður en árásin var gerð á Römblunni, fjölförnustu götu Barcelona. Ímam, sem talið er að hafi staðið fyrir hryðjuverkunum, beið bana í sprengingunni. Að sögn spænskra fjölmiðla var ímaminn dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir fíkniefnasmygl og yfirvöld ákváðu að vísa honum úr landi þegar afplánun dómsins lyki árið 2014. Dómari hnekkti ákvörðuninni og það varð til þess að ímaminn gat sótt um hæli á Spáni. Úrskurður dómarans þýddi að ímaminn gat ferðast um Schengen-svæðið, að sögn fjölmiðlanna.