Feðgin Sigríður í hlutverki Ásu, dóttur Atla sem leikinn er af Steinda Jr., Steinþóri Hróari Steinþórssyni, á tali við móður sína sem Edda Björgvins leikur.
Feðgin Sigríður í hlutverki Ásu, dóttur Atla sem leikinn er af Steinda Jr., Steinþóri Hróari Steinþórssyni, á tali við móður sína sem Edda Björgvins leikur. — Ljósmynd/Stilla úr kvikmyndinni Undir trénu
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hún ætlar ekki að verða leikkona þegar hún verður stór, hún ætlar að verða atvinnumanneskja í fótbolta. En henni fannst samt ekkert mál að leika í nýrri íslenskri kvikmynd, Undir trénu. Ungfrú Sigríður er sannarlega enginn aukvisi.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Þetta kom þannig til að leikkonan Selma Björnsdóttir sem leikur í myndinni spurði mig hvort ég vildi ekki sækja um af því að það vantaði einhvern til að leika hlutverk fimm ára stelpu, og ég var einmitt fimm ára þá. Ég þurfti að fara í leikprufu fyrir þetta hlutverk og það höfðu tuttugu aðrar stelpur verið prófaðar á undan mér, en ég fékk hlutverkið,“ segir Sigríður Sigurpálsdóttir Scheving, alveg æðrulaus yfir því að hafa slegið þeim öllum við, þegar hún er spurð að því hvernig það kom til að hún fékk hlutverk hinnar fimm ára Ásu í nýrri íslenskri kvikmynd, Undir trénu, sem frumsýnd verður þann 6. september.

„Mér finnst frekar fyndið að ég væri fengin til að leika stelpu sem heitir Ása, af því að það er til myndband af mér þriggja ára þar sem ég segist heita Ása,“ segir Sigríður og hlær.

Svolítið feimin í byrjun

Stúlkan Ása sem Sigríður leikur er í kvikmyndinni dóttir Atla, manns sem barnsmóðir og kærasta meinar aðgang að dótturinni, en þann mann leikur Steinþór Hróar Steinþórsson, betur þekktur sem Steindi júníor. Þegar Sigríður er spurð að því hvernig það hafi verið að hafa Steinda júníor sem pabba sinn um stund, stendur ekki á svarinu:

„Það var mjög sérstakt. Og við urðum góðir vinir.“

Í kvikmyndinni er fjöldi annarra frægra leikara og Sigríður segir það hafa verið skemmtilegt að fá að leika með þeim.

„Ég var svolítið feimin við þau í byrjun en það hvarf fljótt, þau voru öll mjög góð við mig.“

Alveg bannað að öskra

Sigríður segir það ekki hafa verið erfitt að leika Ásu, henni hafi verið leikstýrt og sagt hvernig persónan sem hún lék ætti að vera.

„Hafsteinn leikstjóri leiðbeindi mér með alls konar sem skiptir máli þegar maður leikur í kvikmynd, til dæmis að ég ætti ekki að horfa í myndavélina í tökum. Hann sagði mér líka að ég ætti að leika eins og þetta væri í alvörunni,“ segir Sigríður og bætir við að hver taka hafi stundum tekið langan tíma.

„Og það er alveg bannað að öskra í miðri töku, það var smá skömmustulegt fyrir þann sem gerði það einu sinni,“ segir hún og nefnir engin nöfn.

Þegar Sigríður er spurð að því hvaða atriði hafi verið skemmtilegast að leika í myndinni, er hún fljót til svars: „Í atriðinu þar sem við Steindi vorum að borða ís á grasinu rétt hjá IKEA. Ég fékk mjög marga ísa, af því að það þurfti að taka atriðið nokkrum sinnum upp.“

Kvikmyndin Undir trénu er fullorðinsmynd og þar eru meðal annars mjög harðar nágrannaerjur, en þegar Sigríður er spurð út í það segist hún sem betur fer ekki þekkja slíkt af eigin raun.

„Ég er mjög heppin að eiga góða nágranna, ég heimsæki oft fólkið sem býr hér í næsta húsi og er stundum lengi hjá því. Ég á marga vini hér í hverfinu, til dæmis hana Sögu, Önnu Maríu, Carmen og Soffíu. Ég á líka hundavini í hverfinu; Hugi, Benni og Lilli eru bestu hundavinirnir mínir, þeir eru mjög góðir hundar.“

Yngst af sjö systkinum

Sigríður er nýorðin sjö ára en hún var sex ára þegar myndin var tekin upp í fyrra, og segist ekkert hafa kviðið fyrir þó að hún hafi aldrei áður leikið.

„Þetta var mjög gaman, ekkert mál,“ segir Sigríður og bætir við að hún sé mjög vön að leika heima með systkinum sínum, og þá hin ólíkustu hlutverk.

„Við setjum oft upp sýningar hér heima þegar við höfum ekkert að gera. Við förum í búninga og allt, en við erum sjö systkinin þegar við erum öll heima. Júlía er best í að skrifa handrit og ákveða hvað leikritin eiga að fjalla um, finna búninga og raða okkur niður í hlutverkin. Hún er aðalleikstjórinn.“

Mamma heldur fyrir augun

Þar sem kvikmyndin Undir trénu er bönnuð börnum ætlar mamma hennar, Eva María Jónsdóttir, að horfa á myndina með henni svo að stúlkan þurfi ekki að bíða eftir því að sjá sig á hvíta tjaldinu þar til hún verður sextán ára. „Mamma ætlar að passa að taka fyrir augun á mér þegar koma atriði sem krakkar mega ekki sjá, ofbeldi eða eitthvað ljótt. Ég hlakka til að fara á frumsýninguna og sjá mig í myndinni, þó að ég megi ekki sjá allt.“ Sigríður segist alveg vera til í að leika meira ef einhver leikstjóri leitar til hennar eftir að hafa séð frammistöðu hennar í myndinni. En draumahlutverkið er að fá að leika skilnaðarbarn, af því að öll systkini hennar sex eru það, hún sér það í hillingum að vera skilnaðarbarn, henni finnst systkini sín vera svo þæg.

„Við erum fleiri leikarar í fjölskyldunni, Egill bróðir minn lék Pétur íkorna í Dýrunum í Hálsaskógi í Þjóðleikhúsinu fyrir nokkrum árum og Júlía systir mín lék í Billy Elliot í Borgarleikhúsinu. En þó að ég hafi séð þau leika á sviði langar mig ekkert til að verða leikkona í framtíðinni. Ég væri mest til í að vera fótboltakona, af því að fótbolti er aðaláhugamálið mitt. Ég æfi fótbolta í sjöunda flokki kvenna með Gróttu og ég er harðákveðin í að komast í fyrsta flokk. Ég æfi allar stöður, vörn, sókn og að vera í marki, en skemmtilegast finnst mér að vera frammi, í sókninni, af því að mér finnst mest gaman að mega skora mark,“ segir Sigríður, sem á uppáhalds knattspyrnukonu, Margréti Láru.

„Margrét Lára og Heiða komu í heimsókn til okkar í Gróttu og voru með okkur á æfingu, það var mjög gaman að hitta þær.“