Páll Pálmar Daníelsson
Páll Pálmar Daníelsson
Eftir Pál Pálmar Daníelsson: "Lengi hefur verið bent á nauðsyn þess að fækka sveitarfélögunum í okkar risastóra landi."

Er nokkuð útilokað að Kópavogur og Garðabær sameinist í Kópavogsborg, til mótvægis og samkeppni við Reykjavík). Svo framarlega sem Sjálfstæðisflokkurinn er við stjórnvölinn er að sama skapi ekki óeðlilegt að ímynda sér að Hafnarfjörður, Grindavík og Vogar verði saman í sveitarfélagi samhliða og í keppni við Keflavík. Það er eina nothæfa samheitið að mínu mati á sveitarfélaginu þegar Sandgerði og Garður sameinast Reykjanesbæ, sem blessunarlega var aldrei nefndur Suðurnesbær.

Enn frekari svæðaskipting eftir póstnúmerum og þar með varðveisla upprunalegra nafna er óhjákvæmileg, þótt sveitarfélögunum sé fækkað og þau stækkuð. Stjórnsýslukostnaður stórlækkar. Slíkar sameiningar gætu orðið til þess að flækjustig á flestum sviðum þjóðfélagsins minnkaði og samvinna sveitarfélaganna yrði auðveldari. Þau væru þá miklu færri. Samt gæfist íbúunum kostur á að hafa meiri áhrif á nærumhverfi sitt en áður með hjálp tölvutækninnar. Meiri valddreifing yrði samfara nánara samstarfi sveitarfélaganna, sem er bæði æskilegt og nauðsynlegt.

Ætli það sé ekki einkum persónulegur metnaður hvers og eins fulltrúa flokkanna – ekki síst oddvitanna, sem gæti staðið í vegi fyrir framþróun af þessu tagi. Hvor væri t.d. betri borgarstjóri Kópavogsborgar; Ármann Kr. eða Gunnar? Hvor öðrum frambærilegri og ómögulegt að gera upp á milli þeirra sýnist ugglaust ýmsum. Þá skapaðist kannski tækifæri fyrir flotta konu... eða karlmann.

Lengi hefur verið bent á nauðsyn þess að fækka sveitarfélögunum í okkar risastóra landi. Mikið hefur áunnist í þeim efnum frá því sem áður var, er svokallaður „hrepparígur“ reið húsum. Svæsnar sögur um heilu sýslurnar voru sagðar og tortryggni, jafnvel fjandskapur réði víða ríkjum. Nútímasamgöngur og tölvur hafa sem betur fer að mestu útrýmt þeim heimóttarskap og þar fyrir utan hefur alþjóðavæðingin skerpt á nauðsyn skráninga Þjóðskrár. Hagstofan sinnir einnig sinni upplýsingagjöf reglubundið og allt á að vera reiðubúið fyrir næsta stig, sem er að framkvæma skoðanakannanir. Eða hreinlega að kjósa um sameiningar í kosningunum á næsta ári.

Höfundur er leigubílstjóri.