Efnalaugin Björg hefur verið starfrækt frá árinu 1953 og hefur safnað að sér þekkingu, reynslu og síðast en ekki síst, fastakúnnum gegnum tíðina.
Efnalaugin Björg hefur verið starfrækt frá árinu 1953 og hefur safnað að sér þekkingu, reynslu og síðast en ekki síst, fastakúnnum gegnum tíðina. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Efnalaugin Björg er tæplega 65 ára gamalt fjölskyldufyrirtæki sem byggir á persónulegu sambandi við viðskiptavini sína og góðu orðspori, að sögn Kristins Kristinssonar rekstrarstjóra.

Textíll í flíkum er af margvíslegu tagi og flíkurnar þarf því að meðhöndla hverja með sínu lagi, ef vel á að vera. Suma hluti er einfaldlega betra að láta fagmennina meðhöndla.

Í sumarblíðunni sem leikur um landsmenn þessa dagana eiga létt efni upp á pallborðið á borð við hör og bómull; lauflétt efni til klæðnaðar en það getur verið jafn létt að klúðra þeim í þvottavélinni.

„Við metum hverju sinni hvernig skal meðhöndla flíkina og horfum þá fyrst og fremst til þess hvernig framleiðandi mælir með að flíkin sé meðhöndluð við þrif á henni,“ útskýrir Kristinn. „Í ofanálag er komin saman alveg gríðarleg reynsla og þekking hér innanhúss sem getur gert gæfumuninn þegar við fáum erfið verkefni til viðfangs.“

Sem dæmi um þá nærgætni sem þarf að sýna viðkvæmum efnum nefnir Kristinn að yfirhöfnum sé snúið á rönguna, um leið og tölum sé pakkað inn í álpappír til að hlífa þeim – en margir lesendur hafa eflaust lent í því að fá til baka yfirhafnir úr hreinsun með brotnar tölur og spæla jafnvel líka. „Mjög viðkvæmar flíkur setjum við í sérstaka netapoka áður en til meðferðar kemur, til að hlífa þeim eftir fremsta megni við óþarfa hnjaski. Viðkvæmari efni meðhöndlum við síðan sérstaklega með þar til gerðri stillingu á tækjabúnaðinum okkar. Þá er óhreinindunum nánast vaggað úr flíkunum, svo varlega förum við,“ útskýrir Kristinn og hlær við. „Við mælum enn fremur alltaf með því þegar flíkur fá á sig erfiða bletti að við fáum þær til okkar alls ómeðhöndlaðar. Ekki þvo flíkina fyrst, ekki setja blettahreinsi, salt eða hvað sem vera skal. Gakktu frá henni í poka og komdu með hana til okkar. Þannig hámarkast líkurnar á því að við náum öllu óaðfinnanlega úr.“

Þurrhreinsun eða blautþvottur?

Suma bletti ráða heimilisþvottavélar einfaldlega ekki við og oftar en ekki eru það blettir sem tilkomnir eru vegna efna sem eru í eðli sínu feit. Þar á meðal eru húðfita, farði, matarolía, varalitur og fleiri efni úr olíu að stofni til sem eru í eðli sínu vatnsfráhrindandi. „Svona lagað fer ekki svo glatt úr með vatnsþvotti en leysist þeim mun betur upp í þurrhreinsun,“ bendir Kristinn á. „Fólk er að berjast við að ná þessu úr heima hjá sér en vatnið vinnur einfaldlega ekki á þessu. Þá þarf að bera þurrhreinsiefni í blettina og þurrhreinsa í kjölfarið og þannig náum við að sigrast á þrjóskustu fitublettum.“

Öðru máli gegnir um rauðvín, svita og annað í þeim dúr. Þetta eru efni sem eru að sögn Kristins úr vatni í grunninn og yfirleitt nást þau þar af leiðandi úr með vatni. „Hingað kom kona nýverið með hvítan gallajakka sem hafði fengið yfir sig væna gusu af rauðvíni. Jakkinn leit ekki vel út, satt að segja, og afgreiðslustúlkunni okkar, sem var þá nýbyrjuð, leist ekki betur á blikuna en svo að hún bauð konunni upp á þann möguleika að lita bara jakkann! En við tókum jakkann engu að síður til hreinsunar og viti menn, konan fékk hann skjannahvítan í hendur.“

Frískað upp á vetrarflíkurnar

Það kemur í framhaldinu á daginn að sitt er hvað – hörbuxur og hvítir gallajakkar og svo þykkar og efnismiklar vetraryfirhafnir – þegar kemur að fatahreinsun. Kristinn bendir á að það sé alltaf góð hugmynd að fara með vetrarflíkurnar og fríska upp á þær fyrir vetrartímann, jafnvel þó að eftirlætis kápan, frakkinn eða dúnúlpan virðist ekki vera neitt sérstaklega óhrein. Hún er það nú samt.

„Þó að við séum að tala um dökkar yfirhafnir, ekki síst dúnúlpur, er ótrúlega mikill munur sem sést á flíkinni þegar hún hefur verið frískuð upp. Það er lygilegt hvað það nær að safnast mikið af óhreinindum í flíkina jafnvel þó að engir áberandi blettir séu sjáanlegir,“ segir Kristinn. „Það er þvílíkur munur að fá flíkina í hendur fyrir veturinn þegar búið er að taka hana í gegn. Þriggja ára úlpa verður eins og tveggja vikna gömul.“

Fjölskyldufyrirtæki í tæp 65 ár

Efnalaugin Björg var stofnuð árið 1953 og fagnar því heilum 65 árum á næsta ári. Það var einmitt afi Kristinn, Magnús Kristinsson, sem stofnaði fyrirtækið á sínum tíma, þá þrítugur að aldri, og nú er þriðja kynslóð fjölskyldunnar tekin við rekstrinum.

„Afi kemur endrum og sinnum við og kíkir á nýju vélarnar, enda hefur gríðarlega margt breyst á þessum tíma frá því að fyrirtækið var stofnað, ekki síst hvað tækjabúnaðinn varðar. En það breytir því ekki að handtökin eru á margan hátt þau sömu, ekki síst við straujun og pressun, og við gætum þess að glata ekki reynslunni og kunnáttunni sem gengur mann fram af manni meðal starfsfólksins. Það breytist ekkert, né heldur sú persónulega þjónusta sem við höfum alla tíð lagt megináherslu á í samskiptum okkar við viðskiptavinina. Það er kannski á sinn hátt svolítið gamaldags, þessi persónulega nálgun og áherslan á handverkið við vinnuna, en það finnst mér bara heillandi á sinn hátt og gerir vinnuna enn skemmtilegri. Við finnum líka að fólk kann að meta persónulega þjónustu. Á tímum netverslunar og heimsendinga er þakklátt að eiga samskipti í rekstri þar sem mannlegi þátturinn er ennþá í öndvegi. Þess vegna erum við samstarfsfólk mitt enn beðin um að skila góðum kveðjum til afa frá fólki sem kemur hingað til okkar í efnalaugina.“

Hver er svo framtíðin hjá Björgu?

Þegar framtíðina ber að endingu á góma hvað starfsemi efnalaugarinnar varðar hugsar Kristinn sig um í stutta stund.

„Mér verður í því sambandi hugsað til fyrirtækjaþjónustunnar okkar sem við köllum „Sent & sótt“. Þar

bjóðum við upp á alhliða þvott fyrir fyrirtæki og hreinsun á fatnaði fyrir starfsfólk á góðum kjörum og spörum fólki um leið sporin svo að það hefur meiri tíma fyrir sína eigin vinnu. Ég sé alveg eins fyrir mér að þessi þjónusta færist í tímans rás yfir í einstaklingsviðskiptin, að við sækjum og sendum svo hreint heim. Þetta er út af fyrir sig framtíðarmúsík en það verður alltaf að hugsa til framtíðar, líka hjá 65 ára gömlum og rótgrónum fyrirtækjum,“ segir Kristinn Kristinsson að lokum og minnir á að senda má fyrirspurnir um þjónustuna á tölvupóstfangið haaleiti@bjorg.is til að fá frekari upplýsingar um alla þjónustu efnalaugarinnar. www.bjorg.is

jonagnar@mbl.is