Íslandsbanki hefur veitt upplýsingar um lánveitingar til ferðaþjónustu.
Íslandsbanki hefur veitt upplýsingar um lánveitingar til ferðaþjónustu. — Morgunblaðið/Ómar
Ferðaþjónustan hefur á tiltölulega stuttum tíma orðið að burðarási í íslensku viðskiptalífi.

Ferðaþjónustan hefur á tiltölulega stuttum tíma orðið að burðarási í íslensku viðskiptalífi. Af þeim sökum ættu ársreikningar bankanna að segja skilmerkilega frá því hve mikið er lánað til atvinnugreinarinnar, líkt og þeir upplýsa um lán til sjávarútvegsins.

Íslandsbanki reið á vaðið og upplýsti fyrstur um umfangið, og vert er að hrósa honum fyrir það, en því miður hafa hinir bankarnir ekki fylgt í kjölfarið.

Ef viðskiptabankarnir þrír myndu allir birta þær upplýsingar myndi landsmönnum gefast gleggri sýn á efnahagslega framvindu greinarinnar, til að mynda hve hratt greinin hefur vaxið með lántökum. En sömuleiðis gæfi það vísbendingar um hve skuldsett atvinnugreinin er. Sú mynd er áhugaverð nú þegar blikur eru á lofti í ferðaþjónustu.

Það myndi einnig gefa hluthöfum ríkisbankanna, þ.e. landsmönnum, og lánveitendum þeirra, þar með töldum innstæðueigendum, innsýn í þá áhættu sem bankarnir hafa tekið í útlánum til ferðaþjónustunnar. Í uppganginum nutu þeir góðs af auknum lánveitingum en æskilegt væri ef landsmenn gætu rýnt í hve mikið Arion banki og Landsbankinn hafa lánað til ferðaþjónustu – enda eru þeir bæði hluthafar og lánveitendur bankanna.