Eitt helsta árásarefni Gauta Bergþórusonar Eggertssonar hagfræðings á Seðlabankann íslenska eftir bankahrunið var, að hann hefði fyrir það tekið við verðbréfum, sem bankarnir gáfu út hver á annan, en Davíð Oddsson seðlabankastjóri skírði þau...

Eitt helsta árásarefni Gauta Bergþórusonar Eggertssonar hagfræðings á Seðlabankann íslenska eftir bankahrunið var, að hann hefði fyrir það tekið við verðbréfum, sem bankarnir gáfu út hver á annan, en Davíð Oddsson seðlabankastjóri skírði þau „ástarbréf“. Gauti telur, að Seðlabankinn hefði átt að krefjast traustari veða en eins konar sjálfskuldarábyrgðar bankanna (þótt að baki henni lægju eignir þeirra samkvæmt endurskoðuðum reikningum og skýrslum Fjármálaeftirlits og erlendra matsfyrirtækja).

Vorið 2011 var kveðinn upp úrskurður í Hæstarétti Bandaríkjanna, sem kemur þessu máli við. Fréttaveitan Bloomberg hafði krafist þess, að Seðlabankinn bandaríski afhenti gögn um kaup á verðbréfum banka í hinni alþjóðlegu lánsfjárkreppu. Seðlabankinn harðneitaði að veita umbeðnar upplýsingar, og fór málið fyrst fyrir dómstól í New York-ríki. Þar tapaði bankinn málinu og skaut því þá til áfrýjunardómstóls. Hann komst einróma að sömu niðurstöðu og héraðsdómarinn. Seðlabankinn áfrýjaði málinu til Hæstaréttar Bandaríkjanna, sem hafnaði því að taka það fyrir og staðfesti dóm áfrýjunardómstólsins.

Í ljós kom, að Seðlabankinn bandaríski hafði lánað fjölda banka án traustra veða. Þegar lánsfjárkreppan var sem hörðust, mánudaginn 29. september 2008, hafði bankinn til dæmis tekið á móti meira en 118 milljörðum dala í ruslbréfum (junk bonds), gjaldföllnum og ógreiddum verðbréfum, ómetnum verðbréfum og hlutabréfum. Þetta var 72% af þeim bréfum, sem bankinn keypti þennan dag. Öll voru þessi bréf lakari en „ástarbréfin“ íslensku.

Þetta hefði Gauti Bergþóruson Eggertsson átt að vita, því að hann starfaði í New York-deild bandaríska Seðlabankans 2004-2012.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is