Verkefni Svönu snýst um að finna eina almenna aðferðafræði við að greina áhættu.
Verkefni Svönu snýst um að finna eina almenna aðferðafræði við að greina áhættu. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
„Við erum að leiða saman ólíka hópa með ólíkar þarfir sem allir hafa talað sitt tungumál innan áhættu- og öryggisfræðanna, hópa eins og til dæmis fjármálageirann, verkfræðina, og fluggeirann, en í raun snýst þetta allt um það sama, þ.e.

„Við erum að leiða saman ólíka hópa með ólíkar þarfir sem allir hafa talað sitt tungumál innan áhættu- og öryggisfræðanna, hópa eins og til dæmis fjármálageirann, verkfræðina, og fluggeirann, en í raun snýst þetta allt um það sama, þ.e. áhættustjórnun,“ segir Svana Helen Björnsdóttir, framkvæmdastjóri upplýsingaöryggisfyrirtækisins Stika, doktorsnemi við Háskólann í Reykjavík og einn skipuleggjenda fimmtu alþjóðlegu STAMP/STPA öryggisstjórnunarráðstefnunnar sem hófst í gær í Háskólanum í Reykjavík og stendur þar til á morgun, föstudag.

Ráðstefnan er haldin í samstarfi við CORDA, rannsóknarsetur HR í áhættufræðum, og hefur verið haldin árlega við bandaríska MIT háskólann að frumkvæði dr. Nancy Leveson prófessors við MIT, sem er annar aðalfyrirlesarinn á ráðstefnunni núna. „Það er mikilvægt að aðilar á öllum sviðum geti talað saman. Reglulega koma upp stór verkefni og álitamál sem stjórnmálamenn þurfa að taka ákvarðanir um. Þeir eru kannski ekki sérfræðingar í málaflokkunum, og því er mikilvægt að góðar aðferðir séu til staðar til að meta áhættu og kostnað, aðferðir sem eru vel skiljanlegar öðrum og eru nógu almennar og nýtanlegar á sem flestum sviðum þannig að ólíkir hópar geti skilið þær og borið þær saman,“ segir Svana.

Ferill Svönu hefur verið helgaður áhættustjórnun, allt frá því hún stofnaði Stika árið 1992, en hún stundar nú doktorsnám við tækni- og verkfræðideild HR. Verkefni hennar snýst um að finna eina almenna aðferðafræði við að greina áhættu sem nýta má á ólíkum sviðum; í atvinnulífi og í háskólasamfélaginu. Aðferðafræðina byggir hún á STPA (Systems-Theoretic Process Analysis) aðferðafræðinni sem Leveson þróaði upphaflega. „Þetta er í fyrsta og líklega eina sinn sem þessi ráðstefna verður haldin á Íslandi, en hún hefur verið haldin í mörg ár í MIT og fjórum sinnum áður í Evrópu.“

Rannsakaði Challenger-slysið

Ráðstefnan er tilkomin vegna tengsla Svönu við Leveson, sem er einn af leiðbeinendum Svönu í doktorsverkefni hennar. „Leveson fór að leita nýrra aðferða við að greina áhættu þegar hún var að vinna fyrir bandarísku geimferðastofnunina, NASA, en þar var hún í teymi sem var falið það verkefni að finna ástæður þess að Challenger-geimfarið fórst skömmu eftir flugtak í janúar árið 1986. Mjög illa hafði gengið að finna hvað fór úrskeiðis, en hún kom fram með nýstárlegar hugmyndir til úrlausnar, sem hún hefur þróað allt fram til dagsins í dag. Þetta er aðferð sem snýst um að hanna sig frá áhættu, að menn áhættugreini í upphafi verka, og taki ákvarðanir á grundvelli þekkingar og vitneskju, og reyni að smíða kerfi sem eru stýranleg.“

Svana segir að STPA aðferðin gangi út á að ekkert sé til sem heitir mannleg mistök heldur bara illa hönnuð kerfi, kerfi sem ekki eru hönnuð á réttan hátt fyrir fólk. „Nancy Leveson vill meina að skapa þurfi fólki aðstæður til að vinna rétt með tækni, til að koma í veg fyrir slys og minnka kostnað.“