Loftskeytamaður Bergþór Atlason (í miðið) ásamt Björgólfi H. Ingasyni, aðalvarðstjóra vaktstöðvarinnar (til vinstri), og Georg K. Lárussyni, forstjóra LHG. Bergþór var kvaddur í kaffiboði í stjórnstöðinni í Skógarhlíð í gær.
Loftskeytamaður Bergþór Atlason (í miðið) ásamt Björgólfi H. Ingasyni, aðalvarðstjóra vaktstöðvarinnar (til vinstri), og Georg K. Lárussyni, forstjóra LHG. Bergþór var kvaddur í kaffiboði í stjórnstöðinni í Skógarhlíð í gær. — Ljósmynd/Jón Páll Ásgeirsson
Þorgrímur Kári Snævarr thorgrimur@mbl.is Kaflaskil voru hjá Landhelgisgæslunni í gær þegar Bergþór Atlason, varðstjóri í stjórnstöðinni í Skógarhlíð var kvaddur og lét af störfum.

Þorgrímur Kári Snævarr

thorgrimur@mbl.is

Kaflaskil voru hjá Landhelgisgæslunni í gær þegar Bergþór Atlason, varðstjóri í stjórnstöðinni í Skógarhlíð var kvaddur og lét af störfum. Bergþór settist nú í helgan stein eftir að hafa unnið í Landhelgisgæslunni frá því árið 2005 og þar áður um áratugabil sem loftskeytamaður á strandstöðvum Pósts og síma á Siglufirði og í Vestmannaeyjum. Bergþór er síðasti starfsmaður Landhelgisgæslunnar sem er menntaður loftskeytamaður en slíkt nám var í boði á Íslandi frá 1918 til 1980 og hefur því enginn sérmenntaður loftskeytamaður útskrifast í nærri því 40 ár. Bergþór segir nú skilið við tæplega hálfrar aldar feril í öryggismálum sæfarenda við Íslandsstrendur og segist ánægður með störf sín. Í tilefni brottfarar hans var kveðjuhóf haldið í stjórnstöðinni í Skógarhlíð þar sem boðið var upp á bakkelsi og kaffi. Ásgrímur L. Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs, segir LHG þar kveðja „góðan félaga og ötulan starfskraft“.

„Síðustu Móhíkanarnir“

„Ég byrjaði í janúar árið 1972 að vinna á strandstöðinni á Siglufirði eftir að hafa verið á togara í þrjú ár,“ segir Bergþór. „Þá voru þetta margar stöðvar; á Patreksfirði, í Siglufirði, í Neskaupstað, Seyðisfirði, Hornafirði og Vestmannaeyjum. Ég vann hjá Landssímanum í 32 ár. Svo var þessu steypt saman og sett á einn stað hérna í Reykjavík þegar strandstöðvarnar, Tilkynningaskyldan og stjórnstöð Landhelgisgæslunnar voru sameinaðar. Ég vann á neyðarlínunni frá 2004 til 2006 en þá færði ég mig yfir til Landhelgisgæslunnar og endaði í Skógarhlíð. Margir af félögum mínum úr Landssímanum vinna núna í flugútvarpinu hjá Isavia á Gufunesi. Þar eru allavega fjórir eða fimm aðrir menntaðir loftskeytamenn enn að störfum. Síðustu Móhíkanarnir eins og maður segir. Loftskeytamenn voru allsráðandi á þessum strandstöðvum alveg fram á tíunda áratuginn en þá var farið að þjálfa menntaða stýrimenn og flugmenn í starfið. Svo þarf auðvitað tæknimenntaða menn, en tæknikunnátta var líka mjög mikil hérna upphaflega því við þurftum að gera við allt sjálfir.“

Breyttir tímar

Eins og vera ber breyttist starfsumhverfið gríðarlega á starfsárum Bergþórs. „Vinnan er mjög breytt. Nú er þetta mest eftirlitsvinna með skipum á hafinu. Við verðum að aðstoða þyrlurnar, varðskipin og öll erlend skip sem fara í gegn. Áður fyrr fór allt fram í gegnum talstöðvar en nú er þetta eins og með flugradarinn; við sjáum allan flotann á skjánum okkar. Öll skip eru með þessi „target“ á sér. Aðeins skemmtibátar geta sleppt því að vera með þannig búnað en eru þess í stað með svokallaðan handbúnað fyrir eftirlit. Þá fer þetta fram í gegnum síma eða talstöð. Það er hægt að þjálfa hvern sem er í starfið en við þurfum samt að vera með siglingafræðinga. Yfirleitt fáum við gamla stýrimenn og flugmenn sem eru ýmist að bíða eftir að fá að vinna aftur eða eru hættir, eins og í Gufunesi.“

„Nú er ég orðinn fullorðinn maður,“ segir Bergþór um starfslokin. „Ég verð sjötugur á næsta ári. Ég ætlaði mér að vera hættur fyrir löngu en það dróst svo alltaf. Ég hef verið í hálfu starfi síðustu árin enda erfiðara að vinna vaktavinnu núna. Það var haldin flott veisla fyrir mig á vinnustaðnum. Þar var heilmikill fjöldi fólks sem ég hef verið að vinna með í gegnum tíðina; bæði strákarnir á flugvellinum, skipunum og fólkið á skrifstofunni og svo margt fólk sem ég hef kynnst á námskeiðum í kringum starfið. Það er hefð að kveðja fólk með svona kaffiveislu. Ég vil bara þakka öllum sjómönnum og öðrum fyrir samstarfið. Þetta er ógrynni af fólki. Ég er enn að tala við menn sem ég kynntist fyrir 30 árum; sjómenn á trillum, togurum og flutningaskipum.“